Fastir pennar

Takmörk umburðarlyndisins

Hvernig förum við að því, sem opin lýðræðisþjóðfélög, að berjast gegn hryðjuverkaógninni, án þess að ganga á grundvallargildi okkar? Hvernig getum við samhæft réttindi einstaklingsins og almannaréttinn til öryggis?

Þessara spurninga spyr brezki innanríkisráðherrann John Reid í gestaleiðara sem birtur var í nokkrum evrópskum blöðum í gær. Þessar spurningar snerta sannarlega kjarna þess, hvernig við, sem búum í hinum frjálsu og opnu samfélögum Vesturlanda, bregðumst við ógn á borð við hið meinta hryðjuverkasamsæri ungra múslima, sem brezkum lögreglu- og leyniþjónustumönnum tókst að koma upp um í síðustu viku.

Flugfarþegar sem leið hafa átt um brezka flugvelli síðustu daga hafa fengið að kenna á fyrstu viðbrögðunum, stórhertu öryggiseftirliti, sem valdið hefur ferðalöngum allmiklum óþægindum. Til lengri tíma litið verður saklausu ferðafólki þó varla bannað að taka með sér tannkrem, ilmvatn og drykkjarföng um borð í flugvélar. Enda bann við slíku augljóslega ekki skilvirk leið til að hindra hugsanleg tilræði.

En strangt eftirlit, söfnun persónuupplýsinga í æ víðtækari gagnagrunna og fleiri öryggisráðstafanir eru komnar til að vera. Mörkin milli réttinda einstaklingsins og þess sem talið er vera nauðsynlegar ráðstafanir í þágu almannaöryggis færast eflaust eitthvað til. En ef of langt er gengið, ef vænisýki fær að ráða för og frelsið og mannhelgin er heft meira en góðu hófi gegnir í nafni öryggis, þá hafa hryðjuverkamennirnir náð fram óverðskulduðum hlutasigri í baráttu þeirra gegn gildum hins frjálsa lýðræðissamfélags.

Það sem er þó einna ógnvænlegast við nýjustu hryðjuverkin þetta á sérstaklega við um hryðjuverkin í jarðlestakerfi Lundúna í fyrrasumar og samsærið sem nú tókst að koma upp um er að tilræðismennirnir eru flestir heimamenn; fæddir í Bretlandi inn í innflytjendafjölskyldur, nutu brezkrar skólagöngu og velferðarþjónustu og virtust að flestu leyti hafa átt hið bærilegasta líf og aðlagazt nokkuð vel því samfélagi sem þeir ólust upp í.

En sjaldan launar kálfurinn ofeldið, kynnu sumir að segja. Að minnsta kosti má umburðarlyndi og tillitssemi hins opna lýðræðissamfélags ekki ganga svo langt að láta viðgangast að í skjóli fjölmenningar fái haturshugmyndafræði hreiðrað um sig mitt á meðal vor. Það getur þó ekki verið eingöngu verkefni leyniþjónustu og rannsóknarlögreglu viðkomandi landa að hindra slíkt, heldur verða allir skynsamir og löghlýðnir borgarar, ekki sízt í þessum innflytjendasamfélögum sem hinir heimaöldu hryðjuverkamenn spretta úr, að leggja sitt af mörkum til að menn sem vilja ala á slíkri haturshugmyndafræði fái ekki þrifizt í þeirra röðum.

Annars heldur spírall hatursins og tortryggninnar stöðugt áfram með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.






×