Álitamál um íslenzkt réttarfar 14. september 2006 00:01 Fyrir viku rifjaði ég upp fáein atriði úr valdatíð Richards Nixon, forseta Bandaríkjanna 1969-74. Nixon gerði ýmislegt gagn um sína daga, batt til dæmis enda á stríðið í Víetnam og tók upp stjórnmálasamband við Kína, en samskipti landanna höfðu nær engin verið frá 1949, þegar kommúnistar brutust til valda þar eystra. Líklegt virðist, að með þessu móti hafi Nixon lagt grunninn að eða flýtt fyrir frívæðingu kínversks efnahagslífs, sem hófst 1978. Nixons er þó helzt minnzt fyrir afbrotin, sem hann og menn hans urðu uppvísir að. Svipuðu máli gegnir um Warren Harding, hann var forseti Bandaríkjanna 1921-23, líka repúblíkani, og lézt í embætti. Enn er forsetaára hans einkum minnzt fyrir spillingu, sem leiddi til fangelsisdóma yfir ráðherrum og embættismönnum í stjórn hans og einkavinum; tveir styttu sér aldur; einn flúði land. Bjarta hliðin á báðum málum er þó sú, að dómskerfi Bandaríkjanna sló eins og klukka og kom lögum yfir ýmsa þeirra, sem höfðu gerzt brotlegir. Nú hrannast upp dómsmál gegn nokkrum þeirra, sem næstir standa Bush forseta og Cheney varaforseta, svo að óvíst virðist að svo stöddu, hvort samanlögð fangavist þeirra verður að endingu lengri eða skemmri en fangavist manna Nixons. Við þetta bætist glænýr sex og hálfs árs fangelsisdómur yfir fyrrum ríkisstjóra Illinois, einnig repúblíkana, fyrir mútuþægni og fjársvik í embætti. Dómskerfið vestra fer ekki í manngreinarálit. Einn höfuðstyrkur bandarísks réttarfars er sá, að ákæruvaldið er dreift, þar eð hvert ríkjanna fimmtíu hefur eigin saksóknara, og það er sjálfstætt gagnvart framkvæmdarvaldi og löggjafarvaldi. Telji saksóknari ástæðu til málshöfðunar vegna gruns um brot gegn lögum, er honum það í sjálfsvald sett, hvort hann ákærir eða ekki. Mörgum málum lyktar svo, að sakborningar verða í yfirheyrslum uppvísir að meinsæri og koma með því móti upp um sekt sína, þótt ekki takist að færa sönnur á brotið, sem var tilefni ákærunnar. Að vísu liggja sumir saksóknarar undir grun um hlutdrægni, það gerir jafnvel Hæstiréttur Bandaríkjanna eftir forsetakosningarnar 2000, þegar Bush var dæmt forsetaembættið með fimm atkvæðum gegn fjórum í Hæstarétti, en það er þó sjaldgæft, að dómar séu vefengdir vegna meintrar hlutdrægni. Bandarísk lög og réttur lúta eigin reglum handan við vettvang stjórnmálanna. Það er eins og það á að vera. Dómskerfið hér heima nýtur trausts um þriðjungs þjóðarinnar samkvæmt ítrekuðum viðhorfskönnunum Gallups. Fyrrum forsætisráðherra landsins og nú seðlabankastjóri lýsti nýverið þeirri skoðun, að dómskerfið sé veikt og valdi eingöngu smámálum, en ekki stórmálum. Sé það rétt, hlýtur sú spurning að vakna, hvernig á þessum veikleika geti staðið. Ef dómskerfið eða öllu heldur ákæruvaldið er veikt, er það veikt af einskærri óheppni eða handvömm eða jafnvel ásettu ráði? Núverandi ríkisstjórnarflokkar hafa stýrt dómsmálaráðuneytinu á víxl samfleytt síðan 1926, ef sex ár eru undanskilin (1944-47, 1956-58, 1979-80, 1987-88), og þeir bera því fulla ábyrgð á ástandi dómskerfisins. Ábyrgð þeirra er umhugsunarverð í ljósi Baugsmálsins og líklegra eftirmála, sem Jóhannes Jónsson í Bónusi boðaði nýlega í sjónvarpsviðtali. Hann lýsti þar þeirri skoðun, að tölvupóstur ritstjóra Morgunblaðsins, sem birzt hefur á prenti, sé líklega fullnægjandi sönnunargagn um samblástur nokkurra virðingarmanna í Sjálfstæðisflokknum í því skyni að skaða Jóhannes, fjölskyldu hans og Baug. Í Bandaríkjunum dygði ábending Jóhannesar trúlega til þess, að saksóknari hæfi rannsókn til að athuga, hvort um saknæmt athæfi sé að tefla. Þá væru aðilar málsins kallaðir til yfirheyrslu og á það látið reyna, hvort eiðsvarinn framburður þeirra væri sannleikanum samkvæmur. Ekki virðist líklegt, að til slíks komi á Íslandi, eins og allt er í pottinn búið. En Baugsmenn geta hugsanlega einnig höfðað mál í útlöndum og leitt þar fram vitni til að lýsa þeim skaða, sem meint aðför gegn Baugi hafi valdið fyrirtækinu erlendis. Þetta er hægt, af því að lög ná nú orðið yfir landamæri líkt og glæpir. Þannig tókst að koma lögum yfir Augusto Pinochet, forseta Síle, og einnig að draga nokkra afríska einræðisherra fyrir erlenda dómstóla. Nýtt landslag dómsmálanna á heimsvísu vekur ýmsar áleitnar spurningar, sem glöggir lögfræðingar þyrftu að leggjast yfir og reyna síðan að svara. Þetta er óplægður akur. Réttaróvissa er yfirleitt ekki til góðs. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Skoðanir Þorvaldur Gylfason Mest lesið Hvað gerðist þegar konan talaði? Jóna Hrönn Bolladóttir,Bjarni Karlsson Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun Fjölbreytileiki í íslensku skólakerfi: Erum við á réttri leið? Inga Sigrún Atladóttir Skoðun Geðheilsuskatturinn Halla Gunnarsdóttir Skoðun Holur í malbiki og tannlækningar Sigþór Sigurðsson Skoðun Hverjir munu búa á Blikastaðalandi? Aldís Stefánsdóttir Skoðun Eignarhaldsfélag Ingu og hirðin hennar Davíð Bergmann Skoðun Bönnum íþróttamót barna fyrir kl. 10 um helgar Diljá Mist Einarsdóttir Skoðun Eru landeigendur við Þjórsá huldufólk? Þorgerður María Þorbjarnardóttir Skoðun Heimatilbúið „tjón“ Landsvirkjunar Vala Árnadóttir Skoðun
Fyrir viku rifjaði ég upp fáein atriði úr valdatíð Richards Nixon, forseta Bandaríkjanna 1969-74. Nixon gerði ýmislegt gagn um sína daga, batt til dæmis enda á stríðið í Víetnam og tók upp stjórnmálasamband við Kína, en samskipti landanna höfðu nær engin verið frá 1949, þegar kommúnistar brutust til valda þar eystra. Líklegt virðist, að með þessu móti hafi Nixon lagt grunninn að eða flýtt fyrir frívæðingu kínversks efnahagslífs, sem hófst 1978. Nixons er þó helzt minnzt fyrir afbrotin, sem hann og menn hans urðu uppvísir að. Svipuðu máli gegnir um Warren Harding, hann var forseti Bandaríkjanna 1921-23, líka repúblíkani, og lézt í embætti. Enn er forsetaára hans einkum minnzt fyrir spillingu, sem leiddi til fangelsisdóma yfir ráðherrum og embættismönnum í stjórn hans og einkavinum; tveir styttu sér aldur; einn flúði land. Bjarta hliðin á báðum málum er þó sú, að dómskerfi Bandaríkjanna sló eins og klukka og kom lögum yfir ýmsa þeirra, sem höfðu gerzt brotlegir. Nú hrannast upp dómsmál gegn nokkrum þeirra, sem næstir standa Bush forseta og Cheney varaforseta, svo að óvíst virðist að svo stöddu, hvort samanlögð fangavist þeirra verður að endingu lengri eða skemmri en fangavist manna Nixons. Við þetta bætist glænýr sex og hálfs árs fangelsisdómur yfir fyrrum ríkisstjóra Illinois, einnig repúblíkana, fyrir mútuþægni og fjársvik í embætti. Dómskerfið vestra fer ekki í manngreinarálit. Einn höfuðstyrkur bandarísks réttarfars er sá, að ákæruvaldið er dreift, þar eð hvert ríkjanna fimmtíu hefur eigin saksóknara, og það er sjálfstætt gagnvart framkvæmdarvaldi og löggjafarvaldi. Telji saksóknari ástæðu til málshöfðunar vegna gruns um brot gegn lögum, er honum það í sjálfsvald sett, hvort hann ákærir eða ekki. Mörgum málum lyktar svo, að sakborningar verða í yfirheyrslum uppvísir að meinsæri og koma með því móti upp um sekt sína, þótt ekki takist að færa sönnur á brotið, sem var tilefni ákærunnar. Að vísu liggja sumir saksóknarar undir grun um hlutdrægni, það gerir jafnvel Hæstiréttur Bandaríkjanna eftir forsetakosningarnar 2000, þegar Bush var dæmt forsetaembættið með fimm atkvæðum gegn fjórum í Hæstarétti, en það er þó sjaldgæft, að dómar séu vefengdir vegna meintrar hlutdrægni. Bandarísk lög og réttur lúta eigin reglum handan við vettvang stjórnmálanna. Það er eins og það á að vera. Dómskerfið hér heima nýtur trausts um þriðjungs þjóðarinnar samkvæmt ítrekuðum viðhorfskönnunum Gallups. Fyrrum forsætisráðherra landsins og nú seðlabankastjóri lýsti nýverið þeirri skoðun, að dómskerfið sé veikt og valdi eingöngu smámálum, en ekki stórmálum. Sé það rétt, hlýtur sú spurning að vakna, hvernig á þessum veikleika geti staðið. Ef dómskerfið eða öllu heldur ákæruvaldið er veikt, er það veikt af einskærri óheppni eða handvömm eða jafnvel ásettu ráði? Núverandi ríkisstjórnarflokkar hafa stýrt dómsmálaráðuneytinu á víxl samfleytt síðan 1926, ef sex ár eru undanskilin (1944-47, 1956-58, 1979-80, 1987-88), og þeir bera því fulla ábyrgð á ástandi dómskerfisins. Ábyrgð þeirra er umhugsunarverð í ljósi Baugsmálsins og líklegra eftirmála, sem Jóhannes Jónsson í Bónusi boðaði nýlega í sjónvarpsviðtali. Hann lýsti þar þeirri skoðun, að tölvupóstur ritstjóra Morgunblaðsins, sem birzt hefur á prenti, sé líklega fullnægjandi sönnunargagn um samblástur nokkurra virðingarmanna í Sjálfstæðisflokknum í því skyni að skaða Jóhannes, fjölskyldu hans og Baug. Í Bandaríkjunum dygði ábending Jóhannesar trúlega til þess, að saksóknari hæfi rannsókn til að athuga, hvort um saknæmt athæfi sé að tefla. Þá væru aðilar málsins kallaðir til yfirheyrslu og á það látið reyna, hvort eiðsvarinn framburður þeirra væri sannleikanum samkvæmur. Ekki virðist líklegt, að til slíks komi á Íslandi, eins og allt er í pottinn búið. En Baugsmenn geta hugsanlega einnig höfðað mál í útlöndum og leitt þar fram vitni til að lýsa þeim skaða, sem meint aðför gegn Baugi hafi valdið fyrirtækinu erlendis. Þetta er hægt, af því að lög ná nú orðið yfir landamæri líkt og glæpir. Þannig tókst að koma lögum yfir Augusto Pinochet, forseta Síle, og einnig að draga nokkra afríska einræðisherra fyrir erlenda dómstóla. Nýtt landslag dómsmálanna á heimsvísu vekur ýmsar áleitnar spurningar, sem glöggir lögfræðingar þyrftu að leggjast yfir og reyna síðan að svara. Þetta er óplægður akur. Réttaróvissa er yfirleitt ekki til góðs.