Viðskipti innlent

Býst við minni verðbólgu í haust

Seðlabanki Íslands.
Seðlabanki Íslands. Mynd/Heiða

Seðlabankinn segir framvindu efnahagsmála frá júlíbyrjun hafa í meginatriðum verið í samræmi við þjóðhags- og verðbólguspá bankans að öðru leyti en því að verðbólga verður nokkru minni á þriðja fjórðungi ársins og verðbólgukúfurinn á seinni helmingi ársins trúlega lægri en spáð var.

Í rökstuðningi Seðlabankans fyrir 50 punkta hækkun stýrivaxta í morgun segir að á móti vegi mun meiri við­skiptahalli á fyrri hluta ársins sem bendi til hraðari vaxtar í eftirspurn en spáð var og að verðbólguhorfur verði lakari þegar frá líður. Verðbólga er enn mikil sem og verðbólguvæntingar, segir í rökstuðningi bankans.

Þá segir að endurskoðaðar þjóðhagstölur sýni mun meiri hagvöxt á síðasta ári en áður fólst í tölum sem stuðst var við í spám bankans í júlí.

Vísbendingar um hagvöxt og eftirspurn á öðrum og þriðja fjórðungi þessa árs bendi til þess að framleiðsluspenna sé meiri en reiknað var með í júlí. Mikil spenna sé á vinnumarkaði og launakostnaður fyrirtækja hafi hækkað hratt.

Minnkandi vöxtur útlána og tekna ríkissjóðs af óbeinum sköttum auk fleiri vísbendinga sýni þó að farið sé að hægja töluvert á vexti innlendrar eftirspurnar, að því er fram kemur í rökstuðningi bankans.

Næsti vaxtaákvörðunarfundur Seðlabankans er 2. nóvember næstkomandi samhliða útgáfu næsta heftis Peningamála. Greiningardeildir bankanna telja líkur á að vaxtahækkanaferlinu sé lokið og búast sumar hverjar við óbreyttum stýrivöxtum í nóvember.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×