Flóttinn frá Bagdad 4. desember 2006 06:00 Framsóknarflokkurinn hefur kallað herlið sitt heim frá Írak en Sjálfstæðisflokkurinn ætlar ekki að gefast upp. Frambjóðendur í prófkjörum eru skikkaðir til að skrifa undir stuðningsyfirlýsingu við Bush og varaformaðurinn segist hvergi hvika í afstöðu sinni. Með Bandaríkjamönnum. Með borgarastyrjöld. Jón Sigurðsson á heiður skilinn fyrir að viðurkenna að stuðningur okkar við innrásina í Írak hafi verið mistök. Þar með er málið komið aftur á dagskrá og þar með viðurkennir annar stjórnarflokkurinn að ranglega var staðið að ákvörðun sem að auki var röng. Og framsóknarmenn fögnuðu eins og heilum Halldóri Ásgrímssyni hefði verið lyft af baki hvers og eins þeirra. Það er þó óneitanlega einkennilegt að annar aðili ríkisstjórnar skuli firra sig ábyrgð á einni alvarlegustu ákvörðun hennar. Hvað þýðir það? Líklega svo sem ekki neitt. Á meðan ríkisstjórnin sem heild hefur ekki beðið þjóðina afsökunar á því að hafa lagt nafn Íslands við ólögmætt árásarstríð er yfirlýsing Jóns því miður ekki mikils virði, sama hversu ánægjuleg hún annars er. Hér vantar þá auðmýkt og iðrun sem forsætisráðherra heimtar af Árna Johnsen. Ákvörðunin um stuðning okkar við Íraksstríðið var hvorki borin undir þing né þar til bæra nefnd og var því (hvað sem allir útsölulögfræðingar segja) ólögmæt. Kannski var hugsun Davíðs og Halldórs sú að standa þyrfti ólöglega að stuðningi við ólöglegt stríð. Niðurstaðan varð tvöfalt lögbrot sem í eðli sínu er að sjálfsögðu mun alvarlegra heldur en kantsteinasprell Árna Johnsens. Munurinn á Árna annars vegar og Davíð og Halldóri hins vegar, að viðbættum embættis-erfingjum þeirra, er þó sá að Árni nefndi að minnsta kosti hugtakið mistök í nýlegu viðtali þótt hann hafi kallað þau tæknileg. Ríkisstjórnin hefur hins vegar aldrei beðið okkur, umheiminn eða írösku þjóðina afsökunar á illráði sínu, hvað þá hún hafi viðurkennt nein mistök. Hér var þó sannarlega kvittað undir annað og meira en vörur frá Byko. Við hljótum þó að gera ráð fyrir að menn sjái að sér. Frá því Geir Haarde var kosinn formaður hefur hann gert lítið annað en að þvo flokkinn sinn. Röðin hlýtur að koma að blóðblettunum frá Bagdad. Nú er meira að segja kominn fram sjálfstæðismaður með málfrelsi, fyrsti maðurinn í sögu flokksins sem ekki er hræddur við styttuna af Davíð. Kristján Þór Júlíusson stimplar sig sterkt inn með yfirlýsingu um að stríðsstuðningurinn hafi verið mistök, talar eins og sannur leiðtogi. Á meðan situr dómsmála-ráðherra fastur við sinn sérstæða keip. „Ríkisstjórn Íslands eða einstakir ráðherrar innan hennar báru enga ábyrgð á innrásinni í Írak. Hún hefði verið gerð, hvað sem afstöðu íslenskra stjórnvalda leið," segir þrætukóngurinn á heimasíðu sinni. Málið snýst ekki um það, Björn. Málið snýst um STUÐNING OKKAR og SJÁLFSVIRÐINGU, ORÐSPOR ÍSLANDS. En áfram hélt hann: „Það ber vott um yfirþyrmandi minnimáttarkennd eða ótrúlega mikilmennsku að telja sér trú um, að afstaða ríkisstjórnar Íslands hefði skipt einhverju um það, hvort ráðist yrði inn í Írak." Vart hafði ráðherrann sleppt þessum orðum þegar vinur hans, Staksteinar, mætti í Kastljós og kvaðst vilja kalla Bandaríkjaher heim frá Írak. Sú ákvörðun Morgunblaðsritstjórans virðist þó ekki enn hafa ratað rétta boðleið til Bagdad. Harmleikurinn um Bush og Írak magnast með hverjum degi. Borgarar deyja. Hermenn deyja. Og orðstír okkar heldur áfram að deyja á meðan ríkisstjórnin heldur áfram að styðja „eina stríð sögunnar sem enginn veit hvers vegna var háð" eins og bandarískir fréttaskýrendur orða það. „Ef Bush hefði verið forseti þegar árásin á Pearl Harbor var gerð hefði hann brugðist við með því að ráðast inn í Ástralíu." Sagan er harður dómari. Kaldastríðsfurstar hægrimanna hafa lengi verið duglegir að rifja upp stuðning vinstrimanna við hetjur sósíalismans, þá sem sagan hefur dæmt sem glæpamenn kommúnismans. „Þeir sem stóðu með Stalín hlutu að falla með Stalín." Sagan dæmir hins vegar alla jafnt. Þeir sem stóðu með Bush munu falla með Bush. Nema menn sjái að sér. Enn má bæta fyrir mistökin. Flóttinn frá Bagdad er hafinn. Einn kleip í smjörið og hljóp síðan í seðlabjörg. Annar komst burt sem laumufarþegi með Norrænu. Sá þriðji skar upp herör og leiddi herdeild sína út úr eyðimörkinni. En sá fjórði heldur kyrru fyrir á verndarsvæði Bandaríkjamanna þar sem hann stritar við að skrifa undir dánarvottorð saklausra borgara, sveittur upp fyrir haus, með eyrun full af sandi og kinnarjóður af sektarkennd. Því það er sorgleg staðreynd: Eina blóðið sem við Íslendingar höfum úthellt vegna Íraksstríðsins er það sem fyllir vanga okkar af skömm. Og einmitt sú staðreynd gerir skömm okkar enn þá stærri. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Hallgrímur Helgason Mest lesið Sagan að endurtaka sig í beinni Ingibjörg Þóra Haraldsdóttir Skoðun Ég get horft í augun á ykkur og sagt Kristófer Már Maronsson Skoðun Hin heimtufreka kennarastétt Áslaug Pálsdóttir Ragnheiðardóttir Skoðun Svar til lögmanns SFS Magnús Guðmundsson Skoðun Íþróttahreyfingin glímir við skattyfirvöld Kristinn Jónasson Skoðun Samfélagstilraunin sem lítið er fjallað um Elfa Ýr Gylfadóttir Skoðun 24. janúar og risastórt vistspor Íslands Stefán Jón Hafstein Skoðun Er nóg fyrir ríkið að það vilji vita – á þinn kostnað? Páll Steingrímsson Skoðun Yfir 3000 íbúðir á næstu árum Bragi Bjarnason Skoðun Hvenær er lögbrot lögbrot og hvenær er lögbrot ekki lögbrot!! Sigurður Freyr Sigurðarson Skoðun
Framsóknarflokkurinn hefur kallað herlið sitt heim frá Írak en Sjálfstæðisflokkurinn ætlar ekki að gefast upp. Frambjóðendur í prófkjörum eru skikkaðir til að skrifa undir stuðningsyfirlýsingu við Bush og varaformaðurinn segist hvergi hvika í afstöðu sinni. Með Bandaríkjamönnum. Með borgarastyrjöld. Jón Sigurðsson á heiður skilinn fyrir að viðurkenna að stuðningur okkar við innrásina í Írak hafi verið mistök. Þar með er málið komið aftur á dagskrá og þar með viðurkennir annar stjórnarflokkurinn að ranglega var staðið að ákvörðun sem að auki var röng. Og framsóknarmenn fögnuðu eins og heilum Halldóri Ásgrímssyni hefði verið lyft af baki hvers og eins þeirra. Það er þó óneitanlega einkennilegt að annar aðili ríkisstjórnar skuli firra sig ábyrgð á einni alvarlegustu ákvörðun hennar. Hvað þýðir það? Líklega svo sem ekki neitt. Á meðan ríkisstjórnin sem heild hefur ekki beðið þjóðina afsökunar á því að hafa lagt nafn Íslands við ólögmætt árásarstríð er yfirlýsing Jóns því miður ekki mikils virði, sama hversu ánægjuleg hún annars er. Hér vantar þá auðmýkt og iðrun sem forsætisráðherra heimtar af Árna Johnsen. Ákvörðunin um stuðning okkar við Íraksstríðið var hvorki borin undir þing né þar til bæra nefnd og var því (hvað sem allir útsölulögfræðingar segja) ólögmæt. Kannski var hugsun Davíðs og Halldórs sú að standa þyrfti ólöglega að stuðningi við ólöglegt stríð. Niðurstaðan varð tvöfalt lögbrot sem í eðli sínu er að sjálfsögðu mun alvarlegra heldur en kantsteinasprell Árna Johnsens. Munurinn á Árna annars vegar og Davíð og Halldóri hins vegar, að viðbættum embættis-erfingjum þeirra, er þó sá að Árni nefndi að minnsta kosti hugtakið mistök í nýlegu viðtali þótt hann hafi kallað þau tæknileg. Ríkisstjórnin hefur hins vegar aldrei beðið okkur, umheiminn eða írösku þjóðina afsökunar á illráði sínu, hvað þá hún hafi viðurkennt nein mistök. Hér var þó sannarlega kvittað undir annað og meira en vörur frá Byko. Við hljótum þó að gera ráð fyrir að menn sjái að sér. Frá því Geir Haarde var kosinn formaður hefur hann gert lítið annað en að þvo flokkinn sinn. Röðin hlýtur að koma að blóðblettunum frá Bagdad. Nú er meira að segja kominn fram sjálfstæðismaður með málfrelsi, fyrsti maðurinn í sögu flokksins sem ekki er hræddur við styttuna af Davíð. Kristján Þór Júlíusson stimplar sig sterkt inn með yfirlýsingu um að stríðsstuðningurinn hafi verið mistök, talar eins og sannur leiðtogi. Á meðan situr dómsmála-ráðherra fastur við sinn sérstæða keip. „Ríkisstjórn Íslands eða einstakir ráðherrar innan hennar báru enga ábyrgð á innrásinni í Írak. Hún hefði verið gerð, hvað sem afstöðu íslenskra stjórnvalda leið," segir þrætukóngurinn á heimasíðu sinni. Málið snýst ekki um það, Björn. Málið snýst um STUÐNING OKKAR og SJÁLFSVIRÐINGU, ORÐSPOR ÍSLANDS. En áfram hélt hann: „Það ber vott um yfirþyrmandi minnimáttarkennd eða ótrúlega mikilmennsku að telja sér trú um, að afstaða ríkisstjórnar Íslands hefði skipt einhverju um það, hvort ráðist yrði inn í Írak." Vart hafði ráðherrann sleppt þessum orðum þegar vinur hans, Staksteinar, mætti í Kastljós og kvaðst vilja kalla Bandaríkjaher heim frá Írak. Sú ákvörðun Morgunblaðsritstjórans virðist þó ekki enn hafa ratað rétta boðleið til Bagdad. Harmleikurinn um Bush og Írak magnast með hverjum degi. Borgarar deyja. Hermenn deyja. Og orðstír okkar heldur áfram að deyja á meðan ríkisstjórnin heldur áfram að styðja „eina stríð sögunnar sem enginn veit hvers vegna var háð" eins og bandarískir fréttaskýrendur orða það. „Ef Bush hefði verið forseti þegar árásin á Pearl Harbor var gerð hefði hann brugðist við með því að ráðast inn í Ástralíu." Sagan er harður dómari. Kaldastríðsfurstar hægrimanna hafa lengi verið duglegir að rifja upp stuðning vinstrimanna við hetjur sósíalismans, þá sem sagan hefur dæmt sem glæpamenn kommúnismans. „Þeir sem stóðu með Stalín hlutu að falla með Stalín." Sagan dæmir hins vegar alla jafnt. Þeir sem stóðu með Bush munu falla með Bush. Nema menn sjái að sér. Enn má bæta fyrir mistökin. Flóttinn frá Bagdad er hafinn. Einn kleip í smjörið og hljóp síðan í seðlabjörg. Annar komst burt sem laumufarþegi með Norrænu. Sá þriðji skar upp herör og leiddi herdeild sína út úr eyðimörkinni. En sá fjórði heldur kyrru fyrir á verndarsvæði Bandaríkjamanna þar sem hann stritar við að skrifa undir dánarvottorð saklausra borgara, sveittur upp fyrir haus, með eyrun full af sandi og kinnarjóður af sektarkennd. Því það er sorgleg staðreynd: Eina blóðið sem við Íslendingar höfum úthellt vegna Íraksstríðsins er það sem fyllir vanga okkar af skömm. Og einmitt sú staðreynd gerir skömm okkar enn þá stærri.
Hvenær er lögbrot lögbrot og hvenær er lögbrot ekki lögbrot!! Sigurður Freyr Sigurðarson Skoðun
Hvenær er lögbrot lögbrot og hvenær er lögbrot ekki lögbrot!! Sigurður Freyr Sigurðarson Skoðun