Bubbi kóngur Hallgrímur Helgason skrifar 26. júní 2006 10:04 Bubbi Morthens varð fimmtugur á dögunum og þjóðin fagnaði innilega. Ekki síðan Laxness leið hefur verið haldið upp á afmæli listamanns á landsvísu. Bubbi var vel að því kominn. Hann hefur gefið okkur svo mikið og svo lengi. Bubbi á okkur, við eigum Bubba. "Bubbi Morthens er heilagur spámaður frá Austurlöndum" sagði Megas í viðtali í Stúdentablaðinu árið sem Bubbi stökk alskapaður (og vanskapaður að sumum okkar fannst) fram á svið Íslandssögunnar. Ég var einn þeirra vantrúuðu. Sem harður Megasarmaður skildi ég ekki orð meistarans: Hvernig gat hann, sjálft stuðlaséníið, hampað manni sem rímaði "pretta" við "velta" og "skrokk" við "brott"? Hér var komið hið fræga "Bubbarím", hugtak sem mig minnir að Davíð Þór Jónsson hafi síðar fundið upp. Fleiri fundu enn meira að textum Bubba og úr varð mikið havarí á síðum Þjóðviljans. Gamla vinstri menntamanna-elítan, sem taldi sig eiga "skáldamálið" rak upp reginvein. "Ný Leirgerður" sögðu fyrirsagnirnar yfir greinum þjóðháttafræðinganna og íslenskufræðinganna. Þeir höfðu rétt fyrir sér. Textarnir voru ekki "rétt" ortir. Þeir voru rangstuðlaðir og veikrímaðir, en … því var þó ekki að neita að þeir voru SANNIR. Tilfinningin í þeim var ekta, hárrétt. Eftir á að hyggja var hér um að ræða hefðbundin mótmæli: Þegar stórir hæfileikar stíga fram rísa þeir smærri stundum upp. Þeim sem telja sig eiga menninguna og tímann er skyndilega ógnað af ókunnum og utanaðkomandi manni. Fram kemur syngjandi skáld sem menn finna á sér að mun hafa mótandi áhrif á menninguna næstu áratugina og þeir rísa gegn því vegna þess að í huga þeirra átti SKÁLD TÍMANS ekki að vera svona. Og það átti heldur ekki að koma úr þessari átt. Úr Háskólanum kannski en alls ekki ofan af verbúðarlofti á Eskifirði. Þótt Bubbi hafi ekki raðað orðum sínum "rétt" saman voru þau jafn sterk og stál og hnífur og stungu sér beint í hjarta þjóðarinnar. Enginn maður á Íslandi kann ekki kvæðið hans um sjómanninn sem aldrei veit hvort hann lifir annan dag. Hvort sem það er vegna lagsins, ljóðsins eða "dularfyllingar" sögunnar er "Stál og hnífur" nú orðið eitt okkar magnaðasta kvæði. Einfalt, banalt, djúpt og dularfullt, allt í senn. Það er okkar "Cordóba" eftir Lorca. En eins og Silja Aðalsteinsdóttir benti á í fallegri ræðu í fimmtugsafmælinu sat Bubbi aldrei í sigrum sínum heldur stefndi að nýjum. Og hann hefur líka þorað að þroskast; sjaldgæfur eiginleiki í rokkheimum. Smám saman áttaði maður sig á því að Bubbi var í raun og sann spámaður úr Austurlöndum. Ambögurnar voru aðeins fæðingarblettir á þessu barni sem gerði ekki annað en stækka og stækka. Bubbi var mættur, "warts and all", og maður gat ekki annað en kyngt honum. Gallarnir hurfu í kraftinum. Þegar maður svo heyrði "Kyrrlátt kvöld við fjörðinn" í fyrsta sinn var ekki annað að gera en taka ofan. Löngu síðar sagði Bubbi Morthens í viðtali að hann hefði deilt við Megas um textagerð. "Lag og texti á að vera ein heild. Textinn má því ekki vera of flókinn. Hann á að vera sæmilega einfaldur ef hann á ekki að bera lagið ofurliði." Kannski var Megas ósammála þessu, ég man það ekki, en ólíkir eru þeir að minnsta kosti, þessi tvö höfuðskáld samtímans. Á meðan Megas læðist lúmskur í eyra kemur Bubbi beint í andlitið á manni. Einfaldur, sterkur, einlægur og skýr. "Það er gott að elska…" Fyrir vikið fylgja manni fleiri Bubbalínur í gegnum lífið. Í hverri viku ratar einhver þeirra fram á innri varirnar: "Ég á engan skjöld, ég á ekkert sverð. Ég verð bara einmana þegar þú ferð". Og ef maður er að keyra einn um kvöld og lendir á "Rómeó og Júlíu" í útvarpinu er stutt í tárin. Og þó var ég aldrei "Bubbafan". Ekki þar til ég hitti manninn sjálfan. Á Þorláksmessu 1990. Hann var að gefa út ævisögu sína, ég mína fyrstu skáldsögu (sumir eru seinþroska). Á skrifstofu Halldórs Guðmundssonar á Máli og menningu fór fram árlegt koníaksteiti þar sem saman komu helstu skáld landsins ásamt þeim mönnum íslenskum sem mest höfðu lesið af heimsbókmenntum og aðrir andans jöfrar. Ég fikraði mig feiminn í sæti og sagði ekki orð, myndlistarmaður í skáldahópi. En skömmu síðar birtist Bubbi, stillti sér upp á miðju skrifborði og hóf að tala, segja sögur. Kannski var sjálfstraustið knúið af plöntum og plötusölu en skemmtigildið var ósvikið. Prófessorar og skáldpáfar tóku bakföll undir sögum "poppstjörnunnar". Bubbi var hreinlega "stærstur" í þessum hópi. Seinna kynntist ég Bubba betur, fór meðal annars með honum í jólaferðir á Hraunið, fann hve djúpan brunn hann hefur að geyma og varð á endanum "Bubbafan". Hann er okkar Bellmann, okkar Anderson, okkar Springsteen. En þó fyrst og fremst okkar. Helgina fyrir afmæli Bubba sagði Halldór Ásgrímsson af sér sem forsætisráðherra. Geir H. Haarde tók hinsvegar ekki við fyrr en viku síðar. Afmælisvikuna var því forsætisráðherralaust á Íslandi. Þá var landið konungdæmi, kónginum til heiðurs. Hann lengi lifi. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Hallgrímur Helgason Skoðanir Mest lesið Sagan að endurtaka sig í beinni Ingibjörg Þóra Haraldsdóttir Skoðun Ég get horft í augun á ykkur og sagt Kristófer Már Maronsson Skoðun Hin heimtufreka kennarastétt Áslaug Pálsdóttir Ragnheiðardóttir Skoðun Svar til lögmanns SFS Magnús Guðmundsson Skoðun Íþróttahreyfingin glímir við skattyfirvöld Kristinn Jónasson Skoðun Samfélagstilraunin sem lítið er fjallað um Elfa Ýr Gylfadóttir Skoðun Er nóg fyrir ríkið að það vilji vita – á þinn kostnað? Páll Steingrímsson Skoðun 24. janúar og risastórt vistspor Íslands Stefán Jón Hafstein Skoðun Yfir 3000 íbúðir á næstu árum Bragi Bjarnason Skoðun Hvenær er lögbrot lögbrot og hvenær er lögbrot ekki lögbrot!! Sigurður Freyr Sigurðarson Skoðun
Bubbi Morthens varð fimmtugur á dögunum og þjóðin fagnaði innilega. Ekki síðan Laxness leið hefur verið haldið upp á afmæli listamanns á landsvísu. Bubbi var vel að því kominn. Hann hefur gefið okkur svo mikið og svo lengi. Bubbi á okkur, við eigum Bubba. "Bubbi Morthens er heilagur spámaður frá Austurlöndum" sagði Megas í viðtali í Stúdentablaðinu árið sem Bubbi stökk alskapaður (og vanskapaður að sumum okkar fannst) fram á svið Íslandssögunnar. Ég var einn þeirra vantrúuðu. Sem harður Megasarmaður skildi ég ekki orð meistarans: Hvernig gat hann, sjálft stuðlaséníið, hampað manni sem rímaði "pretta" við "velta" og "skrokk" við "brott"? Hér var komið hið fræga "Bubbarím", hugtak sem mig minnir að Davíð Þór Jónsson hafi síðar fundið upp. Fleiri fundu enn meira að textum Bubba og úr varð mikið havarí á síðum Þjóðviljans. Gamla vinstri menntamanna-elítan, sem taldi sig eiga "skáldamálið" rak upp reginvein. "Ný Leirgerður" sögðu fyrirsagnirnar yfir greinum þjóðháttafræðinganna og íslenskufræðinganna. Þeir höfðu rétt fyrir sér. Textarnir voru ekki "rétt" ortir. Þeir voru rangstuðlaðir og veikrímaðir, en … því var þó ekki að neita að þeir voru SANNIR. Tilfinningin í þeim var ekta, hárrétt. Eftir á að hyggja var hér um að ræða hefðbundin mótmæli: Þegar stórir hæfileikar stíga fram rísa þeir smærri stundum upp. Þeim sem telja sig eiga menninguna og tímann er skyndilega ógnað af ókunnum og utanaðkomandi manni. Fram kemur syngjandi skáld sem menn finna á sér að mun hafa mótandi áhrif á menninguna næstu áratugina og þeir rísa gegn því vegna þess að í huga þeirra átti SKÁLD TÍMANS ekki að vera svona. Og það átti heldur ekki að koma úr þessari átt. Úr Háskólanum kannski en alls ekki ofan af verbúðarlofti á Eskifirði. Þótt Bubbi hafi ekki raðað orðum sínum "rétt" saman voru þau jafn sterk og stál og hnífur og stungu sér beint í hjarta þjóðarinnar. Enginn maður á Íslandi kann ekki kvæðið hans um sjómanninn sem aldrei veit hvort hann lifir annan dag. Hvort sem það er vegna lagsins, ljóðsins eða "dularfyllingar" sögunnar er "Stál og hnífur" nú orðið eitt okkar magnaðasta kvæði. Einfalt, banalt, djúpt og dularfullt, allt í senn. Það er okkar "Cordóba" eftir Lorca. En eins og Silja Aðalsteinsdóttir benti á í fallegri ræðu í fimmtugsafmælinu sat Bubbi aldrei í sigrum sínum heldur stefndi að nýjum. Og hann hefur líka þorað að þroskast; sjaldgæfur eiginleiki í rokkheimum. Smám saman áttaði maður sig á því að Bubbi var í raun og sann spámaður úr Austurlöndum. Ambögurnar voru aðeins fæðingarblettir á þessu barni sem gerði ekki annað en stækka og stækka. Bubbi var mættur, "warts and all", og maður gat ekki annað en kyngt honum. Gallarnir hurfu í kraftinum. Þegar maður svo heyrði "Kyrrlátt kvöld við fjörðinn" í fyrsta sinn var ekki annað að gera en taka ofan. Löngu síðar sagði Bubbi Morthens í viðtali að hann hefði deilt við Megas um textagerð. "Lag og texti á að vera ein heild. Textinn má því ekki vera of flókinn. Hann á að vera sæmilega einfaldur ef hann á ekki að bera lagið ofurliði." Kannski var Megas ósammála þessu, ég man það ekki, en ólíkir eru þeir að minnsta kosti, þessi tvö höfuðskáld samtímans. Á meðan Megas læðist lúmskur í eyra kemur Bubbi beint í andlitið á manni. Einfaldur, sterkur, einlægur og skýr. "Það er gott að elska…" Fyrir vikið fylgja manni fleiri Bubbalínur í gegnum lífið. Í hverri viku ratar einhver þeirra fram á innri varirnar: "Ég á engan skjöld, ég á ekkert sverð. Ég verð bara einmana þegar þú ferð". Og ef maður er að keyra einn um kvöld og lendir á "Rómeó og Júlíu" í útvarpinu er stutt í tárin. Og þó var ég aldrei "Bubbafan". Ekki þar til ég hitti manninn sjálfan. Á Þorláksmessu 1990. Hann var að gefa út ævisögu sína, ég mína fyrstu skáldsögu (sumir eru seinþroska). Á skrifstofu Halldórs Guðmundssonar á Máli og menningu fór fram árlegt koníaksteiti þar sem saman komu helstu skáld landsins ásamt þeim mönnum íslenskum sem mest höfðu lesið af heimsbókmenntum og aðrir andans jöfrar. Ég fikraði mig feiminn í sæti og sagði ekki orð, myndlistarmaður í skáldahópi. En skömmu síðar birtist Bubbi, stillti sér upp á miðju skrifborði og hóf að tala, segja sögur. Kannski var sjálfstraustið knúið af plöntum og plötusölu en skemmtigildið var ósvikið. Prófessorar og skáldpáfar tóku bakföll undir sögum "poppstjörnunnar". Bubbi var hreinlega "stærstur" í þessum hópi. Seinna kynntist ég Bubba betur, fór meðal annars með honum í jólaferðir á Hraunið, fann hve djúpan brunn hann hefur að geyma og varð á endanum "Bubbafan". Hann er okkar Bellmann, okkar Anderson, okkar Springsteen. En þó fyrst og fremst okkar. Helgina fyrir afmæli Bubba sagði Halldór Ásgrímsson af sér sem forsætisráðherra. Geir H. Haarde tók hinsvegar ekki við fyrr en viku síðar. Afmælisvikuna var því forsætisráðherralaust á Íslandi. Þá var landið konungdæmi, kónginum til heiðurs. Hann lengi lifi.
Hvenær er lögbrot lögbrot og hvenær er lögbrot ekki lögbrot!! Sigurður Freyr Sigurðarson Skoðun
Hvenær er lögbrot lögbrot og hvenær er lögbrot ekki lögbrot!! Sigurður Freyr Sigurðarson Skoðun