Græðgi 9. janúar 2006 00:01 Hvað er hægt að borða margar appelsínur í einu? Hvað er vert að borða margar appelsínur í einu? Græðgi er athyglisbrestur. Hún er það hugarástand að vera ekki með hugann við líf sitt; sá gráðugi tekur ekki eftir þeirri appelsínu sem snædd er hér og nú, kemst ekki að henni fyrir hugsunum um allar þær appelsínur sem hann gæti eignast og verður að eignast því nú sé einhver annar að njóta betri appelsínu. Græðgi er vansæld, taugabilun - djúp óhamingja. Græðgi er ormur óseðjandi sem tekur sér bólfestu í sálum mannanna og nagar. Græðgi er vond. Á meðan sá gráðugi nærir ófullnægju sína yfir öllum hinum óétnu appelsínum ævi sinnar líður stundin hjá, raunverulega stundin. Allir sannir gormar vita hvílík nautn það getur verið að snæða appelsínu sem er safarík og góð, hvort sem við aðhyllumst þá aðferð að rífa hana með hægð niður í báta eða tanna kjötið af berkinum - eða jafnvel að sjúga hana gegnum sykurmola eins og maður fékk stundum að gera þegar ég var lítill: en appelsínuátið verður ekki sönn nautn nema maður sinni því af alúð, borði eina í einu af lifandi athygli. Við tengjum farsæld okkar við líðan okkar. Og líðan okkar tengjum við neyslu okkar. Neyslu okkar tengjum við svo við launin okkar. Því meiri laun, því meiri neyslumöguleikar, því betri líðan - því meiri farsæld. Daglegt guðspjall auglýsinganna hefur búið til þessa hringrás í lífskjarahugmyndum okkar. Kapítalisminn er byggður á þessum eilífa kláða. Og samt langar okkur að komast burt - úr þessu neyslu- og efnishyggjuvíti, burt frá öllu þessu drasli, burt á annað tilverusvið. Auk efnalegs öryggis og mannlegra samskipta þurfum við á því að halda að hafa á tilfinningunni að við eigum kost á öðru tilverusviði. En þá gleymum við því að við komumst einungis burt með því að vera hér… Þetta er kannski farið að hljóma svolítið eins og taóísk þvæla - en það er sem sé bara hægt að borða eina appelsínu í einu. Græðgi er andfélagsleg hegðun, eins og fyllerí á almannafæri eða annar dónaskapur. Hálaunamaður sem gerir samning um enn hærri laun sem hann þarf ekkert á að halda er eins og alkóhólisti "í neyslu", hann veit að framferði hans er orðið ofboðslegt og veldur almennri andúð og hefur snúist upp í andhverfu þess sem til var stofnað í upphafi - það er að segja að afla viðkomandi meiri virðingar meðal samferðafólks - en samt gerir hann enn fáránlegar kröfur um ofurkjör, hann er búinn að missa alla stjórn á aðstæðunum, ræður ekki við sig, er í einhvers konar vímu. Háu launin snúast ekki lengur um peninga, afkomuöryggi eða virðingu heldur löngun til að skera sig úr, nánast segja sig úr lögum við samfélagið. Þegar forstjórunum finnst taka því á annað borð að svara umræðunum um ofurlaunin þá muldra þeir yfirleitt eitthvað með fýlusvip um sína miklu ábyrgð og það sem tíðkist í alþjóðlegu umhverfi - eins og þeir séu ekki lengur staddir hér eða í öðrum samfélögum venjulegs fólks heldur á nokkurs konar forstjóraeyju einhvers staðar þar sem ríkir eilíft Saga class og feitir kettir liggja malandi og sleikjandi út um við hvert fótmál. 20. öldin færði okkur Íslendingum mikla velsæld og góð almenn lífskjör. Seinni hluti hennar færði okkur líka annað sem ekki er síður mikilsvert: meiri jöfnuð í lífskjörum, menningu og neyslu en víðast hvar. Stundum gleymist nefnilega að fram eftir síðustu öld þótti eðlilegt að sumt fólk þjónaði öðru fyrir smánarlaun. Slíkt hlýtur að vera niðurlægjandi fyrir alla. Smám saman þróaðist samfélagið þannig að iðnaðarmenn og sjómenn, sundlaugaverðir og listamenn, forstjórar og fulltrúar, rukkarar og háskólakennarar - allt þetta fólk bjó saman í einni menningarlegri bendu, börnin þess gengu saman í skóla og giftust svo tvist og bast; samfélagið var á fleygiferð og þegnarnir klifrandi upp og niður launa- og virðingarstigana. Slíkt samfélag er dýnamískt. Samfélag þar sem stéttaskipting er rótgróin staðnar hins vegar; því er það slæmt fyrir gjörvallt samfélagið ef bilið verður of breitt milli ríkra og snauðra, burtséð frá augljósu óréttlætinu. Og svo hefur áreiðanlega enginn gott af því að hafa of hátt kaup, slíkt skapar bara taugaveiklun og vansæld, því við erum þeim takmörkunum háð að geta bara borðað eina appelsínu í einu. Stjórnir stórfyrirtækja ættu því næst þegar forstjórarnir koma með furðulegar kröfur að bjóða þeim upp á jógatíma. Eða gefa þeim Bókina um Veginn. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Skoðanir Mest lesið „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Nýr kafli í sögu ESB Michael Mann Skoðun Framúrskarandi þjónusta byggir upp traust á fyrirtækjum Ingibjörg Valdimarsdóttir Skoðun Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Skúffuskýrslan sem lifði af Linda Heiðarsdóttir Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Í aðdraganda jóla – hugleiðing Unnur Hrefna Jóhannsdóttir Skoðun Athugasemdir við eignaumsýslu Landsbanka Íslands Þorsteinn Sæmundsson Skoðun
Hvað er hægt að borða margar appelsínur í einu? Hvað er vert að borða margar appelsínur í einu? Græðgi er athyglisbrestur. Hún er það hugarástand að vera ekki með hugann við líf sitt; sá gráðugi tekur ekki eftir þeirri appelsínu sem snædd er hér og nú, kemst ekki að henni fyrir hugsunum um allar þær appelsínur sem hann gæti eignast og verður að eignast því nú sé einhver annar að njóta betri appelsínu. Græðgi er vansæld, taugabilun - djúp óhamingja. Græðgi er ormur óseðjandi sem tekur sér bólfestu í sálum mannanna og nagar. Græðgi er vond. Á meðan sá gráðugi nærir ófullnægju sína yfir öllum hinum óétnu appelsínum ævi sinnar líður stundin hjá, raunverulega stundin. Allir sannir gormar vita hvílík nautn það getur verið að snæða appelsínu sem er safarík og góð, hvort sem við aðhyllumst þá aðferð að rífa hana með hægð niður í báta eða tanna kjötið af berkinum - eða jafnvel að sjúga hana gegnum sykurmola eins og maður fékk stundum að gera þegar ég var lítill: en appelsínuátið verður ekki sönn nautn nema maður sinni því af alúð, borði eina í einu af lifandi athygli. Við tengjum farsæld okkar við líðan okkar. Og líðan okkar tengjum við neyslu okkar. Neyslu okkar tengjum við svo við launin okkar. Því meiri laun, því meiri neyslumöguleikar, því betri líðan - því meiri farsæld. Daglegt guðspjall auglýsinganna hefur búið til þessa hringrás í lífskjarahugmyndum okkar. Kapítalisminn er byggður á þessum eilífa kláða. Og samt langar okkur að komast burt - úr þessu neyslu- og efnishyggjuvíti, burt frá öllu þessu drasli, burt á annað tilverusvið. Auk efnalegs öryggis og mannlegra samskipta þurfum við á því að halda að hafa á tilfinningunni að við eigum kost á öðru tilverusviði. En þá gleymum við því að við komumst einungis burt með því að vera hér… Þetta er kannski farið að hljóma svolítið eins og taóísk þvæla - en það er sem sé bara hægt að borða eina appelsínu í einu. Græðgi er andfélagsleg hegðun, eins og fyllerí á almannafæri eða annar dónaskapur. Hálaunamaður sem gerir samning um enn hærri laun sem hann þarf ekkert á að halda er eins og alkóhólisti "í neyslu", hann veit að framferði hans er orðið ofboðslegt og veldur almennri andúð og hefur snúist upp í andhverfu þess sem til var stofnað í upphafi - það er að segja að afla viðkomandi meiri virðingar meðal samferðafólks - en samt gerir hann enn fáránlegar kröfur um ofurkjör, hann er búinn að missa alla stjórn á aðstæðunum, ræður ekki við sig, er í einhvers konar vímu. Háu launin snúast ekki lengur um peninga, afkomuöryggi eða virðingu heldur löngun til að skera sig úr, nánast segja sig úr lögum við samfélagið. Þegar forstjórunum finnst taka því á annað borð að svara umræðunum um ofurlaunin þá muldra þeir yfirleitt eitthvað með fýlusvip um sína miklu ábyrgð og það sem tíðkist í alþjóðlegu umhverfi - eins og þeir séu ekki lengur staddir hér eða í öðrum samfélögum venjulegs fólks heldur á nokkurs konar forstjóraeyju einhvers staðar þar sem ríkir eilíft Saga class og feitir kettir liggja malandi og sleikjandi út um við hvert fótmál. 20. öldin færði okkur Íslendingum mikla velsæld og góð almenn lífskjör. Seinni hluti hennar færði okkur líka annað sem ekki er síður mikilsvert: meiri jöfnuð í lífskjörum, menningu og neyslu en víðast hvar. Stundum gleymist nefnilega að fram eftir síðustu öld þótti eðlilegt að sumt fólk þjónaði öðru fyrir smánarlaun. Slíkt hlýtur að vera niðurlægjandi fyrir alla. Smám saman þróaðist samfélagið þannig að iðnaðarmenn og sjómenn, sundlaugaverðir og listamenn, forstjórar og fulltrúar, rukkarar og háskólakennarar - allt þetta fólk bjó saman í einni menningarlegri bendu, börnin þess gengu saman í skóla og giftust svo tvist og bast; samfélagið var á fleygiferð og þegnarnir klifrandi upp og niður launa- og virðingarstigana. Slíkt samfélag er dýnamískt. Samfélag þar sem stéttaskipting er rótgróin staðnar hins vegar; því er það slæmt fyrir gjörvallt samfélagið ef bilið verður of breitt milli ríkra og snauðra, burtséð frá augljósu óréttlætinu. Og svo hefur áreiðanlega enginn gott af því að hafa of hátt kaup, slíkt skapar bara taugaveiklun og vansæld, því við erum þeim takmörkunum háð að geta bara borðað eina appelsínu í einu. Stjórnir stórfyrirtækja ættu því næst þegar forstjórarnir koma með furðulegar kröfur að bjóða þeim upp á jógatíma. Eða gefa þeim Bókina um Veginn.