En ég hef meiri áhyggjur af þeim sem hafa lág laun heldur en af hinum sem hafa há laun. Ég get síðan vel tekið undir með þeim sem segja að fyrirtækin í landinu verði að gæta velsæmis í launagreiðslum til stjórnenda. Fyrir nú utan hitt, að það er einfaldlega skynsamlegt fyrir fyrirtækin í landinu að sýna sanngirni og sjást sýna sanngirni í viðskiptum sínum við verkamennina í víngarðinum. En mér finnst aðrir hlutir skipta hér meira máli. Á undanförnum einum og hálfum áratug höfum við Íslendingar gjörbreytt þjóðfélagi okkar. Það er nú opnara, kraftmeira og öflugra heldur en nokkru sinni í sögu okkar. Þetta hefur tekist með því að lækka skatta á fólk og fyrirtæki, með einkavæðingu, með ráðdeild í ríkisfjármálum og með auknu frelsi í viðskiptum svo fátt eitt sé nefnt.
Mikilvægast var að skattar á fyrirtæki voru lækkaðir úr nærri 50% í 18% og komið var á 10% fjármagnstekjuskatti. Þessi blanda, einkum lágir skattar á fyrirtæki og fjármagn, leysti úr læðingi gríðarlegan kraft. Og afleiðingarnar eru öllum ljósar. Á síðustu tíu árum eða svo hefur kaupmáttur launanna okkar eftir skatt vaxið alveg gríðarlega. Og það var annað sem gerðist, gömlu viðskiptablokkirnar sem réðu hérna öllu feyktust í burtu og í staðinn komu nýjar.
Þessi þróun er í sjálfu sér öll mjög jákvæð. Ísland hefur aldrei staðið jafn vel og nú. En það eru hættumerki á lofti og laun nokkurra bankastarfsmanna eru ekki það sem veldur mér mestum áhyggjum. Það sem er miklu alvarlegra er sú spurning hvort einstakar viðskiptasamsteypur eða blokkir séu að ná þeim tökum á samfélaginu okkar að hætta stafi af. Sú hætta getur verið margvísleg. Hún getur meðal annars birst í gríðarlega sterkri stöðu eins fyrirtækis á fjölmiðlamarkaði, stöðu sem getur haft neikvæð áhrif á þróun lýðræðis í landinu. En hættan felst einnig og ekki síður í fákeppni og sjálftökugróða.
Frjálst markaðshagkerfi snýst fljótt upp í andstæðu sína ef samkeppni er ónóg. Enn alvarlegra er ef ekki er farið eftir þeim reglum sem settar eru um það hvernig menn megi hegða sér á markaðinum.
Það er alveg rétt sem bent hefur verið á að fjármagnstekjuskatturinn er lágur, sem við tilteknar aðstæður getur skapað ójöfnuð. En á móti kemur að lágir skattar á atvinnulífið hafa gagnast þjóðinni einstaklega vel.
Atvinnulífið hefur aldrei verið jafn blómlegt og mun fleiri eiga tækifæri á því að finna kröftum sínum og menntun viðnám en áður. Fátækt hefur minnkað með aukinni auðlegð þjóðarinnar og tekjur hins opinbera hafa vaxið gríðarlega samfara lægri sköttum. Það eru þeir peningar sem við getum notað og höfum notað til þess að byggja menntakerfi og heilbrigðiskerfi sem eru í fremstu röð í heiminum. Með það að vopni getum við barist fyrir því að því að öll börn á Íslandi hafi sömu tækifæri þegar þau hefja lífsbaráttuna, óháð efnahag foreldranna. Það er sá jöfnuður sem við getum náð og sá jöfnuður sem mestu máli skiptir.