DV, sannleikurinn og siðferðið 12. janúar 2006 19:26 Fyrst erum við manneskjur, síðan blaðamenn eða eitthvað annað. Það geta varla verið einar siðareglur fyrir blaðamenn og aðrar fyrir allt hitt fólkið. Það eru sömu dyggðir - hófsemi, tillitssemi, sanngirni. Sömu ódyggðir - græðgi, illkvittni, grimmd, valdafíkn. Kjarnin í siðaboðskapnum sem við ástundum í samfélagi okkar er frá Kristi, það segir: Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður skuluð þér og þeim gjöra. Svipuð hugsun er í helsta siðferðisboði heimspekingsins Kants: Breyttu aðeins eftir þeirri reglu sem þú vilt að verði að almennu lögmáli í samfélaginu. Nú er talað um að siðferðið hafi breyst, það þurfi að rita reglurnar upp á nýtt. Til að innihalda hvað? Gefa rúm fyrir hvað? Er gamla siðferðið endilega úrelt? --- --- --- Eða er þetta ekki fyrst og fremst staðhæfing um að siðferði sé afstætt; að það henti illa í nútímanum? Viðkvæðið í bisness og fjölmiðlum er oft - fólk getur bara leitað réttar síns fyrir dómstólum. En það kemur ekki í staðinn fyrir siðferði. Almennir borgarar eru líka tregir til að leggja út í málarekstur fyrir dómi. Siðareglur Blaðamannafélags Íslands hafa mikið verið úthrópaðar. Þær eru sagðar vera barn síns tíma, en þær ná samt ágætlega utan um viðfangsefni sitt. Þarna er sterk krafa um tillitssemi, það er líklega hún sem er álitin svo fornfáleg nú - eins og tillitssemin sé gamalt helsi sem við höfum kastað af okkur. --- --- --- Á DV hafa þeir látið eins og siðareglurnar séu skálkaskjól fyrir hræsnisfullt samfélag. Einkalíf er skálkaskjól var yfirskrift eins leiðarans í blaðinu. Þeir bera því við að fréttir séu bara fréttir; fréttirnar staða mála hverju sinni eins og annar ritstjórinn orðaði það - og þá eru þeir bara eins konar tæknimenn. Stundum segja þeir alveg þveröfugt, að þeir séu að vinna samfélaginu mikið gagn með því að afhjúpa hræsni og óþverra. Þá eru þeir eins konar samanlagt lögreglu- og dómsvald. Hvor röksemdafærslan er notuð á víxl, eftir því sem hentar. --- --- --- DV í síðustu birtingarmynd sinni hefur gengið miklu lengra en áður hefur verið gert í íslenskri blaðamennsku - og lengra en flest blöð úti í heimi. Sumt af því myndi varða við lög í nágrannalöndum - án þess að blaðamenn þar telji sig lifa undir áþján ritskoðunar. Siðferðisvitund lesendanna hefur verið að sljóvgast sem þessu nemur; margir eru farnir að taka sem sjálfsögðum hlut fréttaflutningi blaðsins sem þótti blöskranlegur fyrir tveimur árum. Mörk þess sem við látum yfir okkur ganga hafa verið að færast til. Það er um að gera að einblína ekki á mál mannsins á Ísafirði, umræðan má ekki bara snúast um það - málin þar sem blaðið hefur farið yfir strikið skipta hunduðum. Illgirni blaðsins virðist nánast kerfisbundin; regla en ekki undantekning. Lífið eins og það blasir við í DV er eins og andstyggileg hringekja. Stefnu ritstjórnarinnar má helst kenna við níhilisma, gapandi tómhyggju, sem væri sök sér að rekast á í skáldsögu eftir ungan höfund eða í dálkum fullorðins pistlahöfundar en dugir ekki sem grundvöllur að blaðaútgáfu. Sjálfum hefur mér stundum liðið eins og ritstjórn DV séu ofbeldismenn. Það sé hættulegt að eiga samskipti við þá, yrða á þá, láta þá ná augnsambandi. Þá rjúki þeir upp með ofbeldi. Því ofbeldi getur birst í fleiri myndum en hjá handrukkurum og barnaníðingum. --- --- --- Það er sagt að þetta snúist allt um sannleikann - að aðrir fjölmiðlar en DV lifi í þeirri blekkingu að oft megi satt kyrrt liggja. Jú, vissulega er staður og stund fyrir sannleikann. Það er hins vegar sjúklegt ástand að telja sig alltaf þurfa að segja sannleikann um allt og alla - og álíta sig hafa heilagan rétt til þess. Við vitum það sem þegnar í samfélagi að við vöðum ekki um og klínum einhverju sem við teljum vera sannleika framan í alla sem við hittum. Einhvers staðar sá ég minnst á leikritið Villiöndina eftir Ibsen. Helst þyrfti að taka það til sýninga núna strax. Það fjallar nefnilega um mann sem á endanum reynist hálf sturlaður; hann kemur í heimsókn til fjölskyldu og brýtur hana niður með stanslausri kröfu um að verði að segja allan sannleikann og engar refjar. Við vitum líka að sannleikurinn er flókið fyrirbæri; það er hægt að umgangast hann á ýmsa hátt - líka af slúðurgirnd og löngun til að meiða. --- --- --- Eins og staðan er þykir mér líklegt að ritstjórar DV þurfi ekki að kemba hærurnar í starfi sínu. Það er þó tvennt sem vinnur með þeim. Fólk hefur mjög lélegt langtímaminni og það er sólgið í slúðrið eins og klám. Því fyrirbæri eins og DV starfar ekki í tómarúmi. Þessi pistill var fluttur í Íslandi í dag á Stöð2/NFS 12. janúar 2006 Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Pistlar Silfur Egils Skoðanir Mest lesið Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Tímamót Jón Steindór Valdimarsson Skoðun Menntun fyrir Hans Vögg Þuríður Magnúsína Björnsdóttir Skoðun Að sinna orkuþörf almennings Kristín Linda Árnadóttir Skoðun Landið helga? Ingólfur Steinsson Skoðun Hvað eru jólin fyrir þér? Hugrún Sigurjónsdóttir Skoðun Kæri Grímur Grímsson – sakamaður gengur laus? Árni Guðmundsson Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Forréttindablinda strákanna í Viðskiptaráði Sonja Ýr Þorbergsdóttir Skoðun Þarf alltaf að vera svín? Harpa Kristbergsdóttir Skoðun
Fyrst erum við manneskjur, síðan blaðamenn eða eitthvað annað. Það geta varla verið einar siðareglur fyrir blaðamenn og aðrar fyrir allt hitt fólkið. Það eru sömu dyggðir - hófsemi, tillitssemi, sanngirni. Sömu ódyggðir - græðgi, illkvittni, grimmd, valdafíkn. Kjarnin í siðaboðskapnum sem við ástundum í samfélagi okkar er frá Kristi, það segir: Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður skuluð þér og þeim gjöra. Svipuð hugsun er í helsta siðferðisboði heimspekingsins Kants: Breyttu aðeins eftir þeirri reglu sem þú vilt að verði að almennu lögmáli í samfélaginu. Nú er talað um að siðferðið hafi breyst, það þurfi að rita reglurnar upp á nýtt. Til að innihalda hvað? Gefa rúm fyrir hvað? Er gamla siðferðið endilega úrelt? --- --- --- Eða er þetta ekki fyrst og fremst staðhæfing um að siðferði sé afstætt; að það henti illa í nútímanum? Viðkvæðið í bisness og fjölmiðlum er oft - fólk getur bara leitað réttar síns fyrir dómstólum. En það kemur ekki í staðinn fyrir siðferði. Almennir borgarar eru líka tregir til að leggja út í málarekstur fyrir dómi. Siðareglur Blaðamannafélags Íslands hafa mikið verið úthrópaðar. Þær eru sagðar vera barn síns tíma, en þær ná samt ágætlega utan um viðfangsefni sitt. Þarna er sterk krafa um tillitssemi, það er líklega hún sem er álitin svo fornfáleg nú - eins og tillitssemin sé gamalt helsi sem við höfum kastað af okkur. --- --- --- Á DV hafa þeir látið eins og siðareglurnar séu skálkaskjól fyrir hræsnisfullt samfélag. Einkalíf er skálkaskjól var yfirskrift eins leiðarans í blaðinu. Þeir bera því við að fréttir séu bara fréttir; fréttirnar staða mála hverju sinni eins og annar ritstjórinn orðaði það - og þá eru þeir bara eins konar tæknimenn. Stundum segja þeir alveg þveröfugt, að þeir séu að vinna samfélaginu mikið gagn með því að afhjúpa hræsni og óþverra. Þá eru þeir eins konar samanlagt lögreglu- og dómsvald. Hvor röksemdafærslan er notuð á víxl, eftir því sem hentar. --- --- --- DV í síðustu birtingarmynd sinni hefur gengið miklu lengra en áður hefur verið gert í íslenskri blaðamennsku - og lengra en flest blöð úti í heimi. Sumt af því myndi varða við lög í nágrannalöndum - án þess að blaðamenn þar telji sig lifa undir áþján ritskoðunar. Siðferðisvitund lesendanna hefur verið að sljóvgast sem þessu nemur; margir eru farnir að taka sem sjálfsögðum hlut fréttaflutningi blaðsins sem þótti blöskranlegur fyrir tveimur árum. Mörk þess sem við látum yfir okkur ganga hafa verið að færast til. Það er um að gera að einblína ekki á mál mannsins á Ísafirði, umræðan má ekki bara snúast um það - málin þar sem blaðið hefur farið yfir strikið skipta hunduðum. Illgirni blaðsins virðist nánast kerfisbundin; regla en ekki undantekning. Lífið eins og það blasir við í DV er eins og andstyggileg hringekja. Stefnu ritstjórnarinnar má helst kenna við níhilisma, gapandi tómhyggju, sem væri sök sér að rekast á í skáldsögu eftir ungan höfund eða í dálkum fullorðins pistlahöfundar en dugir ekki sem grundvöllur að blaðaútgáfu. Sjálfum hefur mér stundum liðið eins og ritstjórn DV séu ofbeldismenn. Það sé hættulegt að eiga samskipti við þá, yrða á þá, láta þá ná augnsambandi. Þá rjúki þeir upp með ofbeldi. Því ofbeldi getur birst í fleiri myndum en hjá handrukkurum og barnaníðingum. --- --- --- Það er sagt að þetta snúist allt um sannleikann - að aðrir fjölmiðlar en DV lifi í þeirri blekkingu að oft megi satt kyrrt liggja. Jú, vissulega er staður og stund fyrir sannleikann. Það er hins vegar sjúklegt ástand að telja sig alltaf þurfa að segja sannleikann um allt og alla - og álíta sig hafa heilagan rétt til þess. Við vitum það sem þegnar í samfélagi að við vöðum ekki um og klínum einhverju sem við teljum vera sannleika framan í alla sem við hittum. Einhvers staðar sá ég minnst á leikritið Villiöndina eftir Ibsen. Helst þyrfti að taka það til sýninga núna strax. Það fjallar nefnilega um mann sem á endanum reynist hálf sturlaður; hann kemur í heimsókn til fjölskyldu og brýtur hana niður með stanslausri kröfu um að verði að segja allan sannleikann og engar refjar. Við vitum líka að sannleikurinn er flókið fyrirbæri; það er hægt að umgangast hann á ýmsa hátt - líka af slúðurgirnd og löngun til að meiða. --- --- --- Eins og staðan er þykir mér líklegt að ritstjórar DV þurfi ekki að kemba hærurnar í starfi sínu. Það er þó tvennt sem vinnur með þeim. Fólk hefur mjög lélegt langtímaminni og það er sólgið í slúðrið eins og klám. Því fyrirbæri eins og DV starfar ekki í tómarúmi. Þessi pistill var fluttur í Íslandi í dag á Stöð2/NFS 12. janúar 2006