Irving á líka að hafa málfrelsi 22. febrúar 2006 19:23 David Irving er ekki fínasti pappírinn í sagnfræðinni. Fyrir mörgum árum reyndi ég að glugga í bók eftir hann, man helst að hún var illa skrifuð og þvælin. Hann hefur sýnt sig að vera rasisti og gyðingahatari, átrunaðargoð nýnasista og gestur á samkomum þeirra. Irving byrjaði feril sinn sem stríðssagnfræðingur sem naut nokkurs álits, en festist svo smátt og smátt í hlutverki helfararafneitarans. Fræg eru þau orð hans að fleiri konur hafi dáið í bíl Edwards Kennedy í Chappaquiddick en í Auschwitz. Meginkenning Irvings hefur verið sú að Hitler hafi ekki gefið neina skipun um hina "endanlegu lausn gyðingavandans". Sem reyndar er rétt að því leyti að engin skjöl eru til þar sem Hitler fyrirskipar beinlínis útrýmingu gyðinga. Hins vegar þykir ekki leika neinn vafi á því að helförin var með vitund og vilja Hitlers - að halda öðru fram er fjarstæða sem Irving flækti sig í þar til hann var farinn að neita tilvist gasklefanna. Hitt er þó ljóst að Irving er mjög fróður um Þýskaland nasismans; virtir sagnfræðingar viðurkenna að fáir þekki það betur út frá sjónarhóli Þjóðverja sjálfra. Irving var til dæmis fljótur að sjá að dagbækur Hitlers sem Sunday Times birti um árið væru falsaðar - meðan frægur sagnfræðingur eins og Hugh Trevor-Roper álpaðist beint í gildruna. Um leið er þetta umhugsunarefni. Yfirdrifinn áhugi á Þriðja ríkinu miðað við aðra atburði mannkynssögunnar, endalausar bækur og sjónvarpsþættir, virkar stundum á mörkum þess að vera sjúklegur; maður getur ekki varist þeirri tilhugsun að hjá sumum sé þetta eins konar klám - ersatz pornografie. Þ.e. dulin hrifning á nasismanum – undir yfirskini umfjöllunnar um hann. --- --- --- Þá er komið að Austurríki. Það er flókin saga. Þjóðverjar innlimuðu Austurríki 1938 - við mikinn fögnuð. Íbúar landsins þyrptust út á götur til að fagna nasistum. Frá fyrsta degi innlimunarinnar (anschluss) voru austurrískir gyðingar beittir miklu harðræði. Frægar eru myndir af gyðingum sem eru að hreinsa göturnar í Vín með tannburstum. Margir helstu ofsækjendur gyðinga voru Austurríkismenn - fremstur í flokki Hitler sjálfur. Samt fengu Austurríkismenn að nokkru leyti stöðu fórnarlambs eftir stríðið. Til varð mýtan um að þeir hefðu verið undir oki nasismans rétt eins og nágrannaþjóðirnar. Ekkert var fjær sanni. En afleiðing þessa var að austurrískt þjóðfélag var ekki hreinsað af nasismanum í viðlíka mæli og Vestur-Þýskaland. Gamlir nasistar nutu þar virðingar og störfuðu óáreittir. Vitandi vits settist nasistaveiðarinn Simon Wiesental að í sjálfri ormagryfjunni - í Vínarborg. Hinn hugrakki Wiesenthal var óþreytandi við að reyna að breyta hugmynd Austurríkis um sjálft sig - fékk yfirleitt litlar þakkir fyrir. Wiesenthal átti þátt í að koma í kring nokkrum frægum réttarhöldum yfir nasistum. Sum þeirra enduðu með sýknu. Austurríkismenn fóru hins vegar ekki að horfast að ráði í augu við sjálfa sig fyrr en Waldheim-málið kom upp 1987. Gamall hermaður sem hafði orðið vitni að útrýmingu gyðinga - þó varla verið virkur þáttakandi - var orðinn forseti landsins. Þetta sæti fordæmingu víða á alþjóðavettvangi og vakti upp mjög heiftarlega umræðu í Austurríki. Hjá ungu fólki varð vitundarvakning um fortíð landsins - ég var sjálfur í Austurríki á þessum tíma og fannst stórmerkilegt að fylgjast með umræðunni. --- --- --- Ég fór meðal annars á fund Axels Corti, helsta kvikmyndaleikstjóra landsins. Þá var hann nýbúinn að gera röð þriggja kvikmynda sem hét Wohin und zurück; þær fjölluðu um ungan gyðing sem flýr Austurríki við illan leik, gengur loks í bandaríska herinn og kemur með honum aftur til Vínar í lok stríðsins. Í síðasta hlutanum, Welcome in Vienna, mætir hann mörgum af gömlu kvölurum sínum - og líika öllum tækifærissinnunum - sem búa sig undir að sitja áfram í áhrifastöðum undir nýju valdi. Gömlu nasistarnir eru hérumbil allir dauðir, en tilhneigingar til nasisma hafa leynst víða í Austurríki. Framhjá því verður ekki litið. Skemmst er að minnast hins mikla fylgis sem hægriöfgamaðurinn Jörg Heider hefur notið í landinu. En um leið byggir Austurríki á ýmsu því sem er andstætt nasisma. Það aðhyllist hlutleysisstefnu, leggur mikið upp úr því að það sé friðsælt smáríki, gengst ekki upp í fortíð sinni sem fyrrum evrópskt stórveldi og hernaðarþjóð. --- --- --- En þetta er semsagt viðkvæmt mál í Austurríki. David Irving mátti vita að hann var eftirlýstur þar. Hann ákvað að fara. En það er samt rangt að loka hann inni. Það er langsótt að gera afneitun á helförinni að glæp. Væri til dæmis með sama hætti hægt að gera afneitun á Gúlaginu glæpsamlega? Irving nýtur einskis álits. Eftir meiðyrðamál sem hann tapaði árið 2000 var hann ærulítill og gjaldþrota. Hann hefur lélegar skoðanir, en réttur hans til að hafa þær - og jafnvel skrifa og tala um þær - á að vera skýlaus. Það er líka fráleitt að gera mann eins og Irving að píslarvotti þessara skoðana. Það gefur honum stöðu sem hann hefur aldrei notið - Irving hefur virkað ringlaður á fréttaljósmyndum, honum þykir greinilega ekki góð tilhugsun að sitja inni, en hann ætti að geta ornað sér við þetta í fangaklefanum í Josefstadt. Hvað sem öðru líður hefur hann aldrei verið frægari. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Pistlar Silfur Egils Skoðanir Mest lesið Er þetta alvöru? Bjarni Karlsson Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Opið bréf til forystu Kennarasambands Íslands (KÍ): Endurskoðum aðferðafræði verkfallsins Valgerður Bára Bárðardóttir Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun Alvotech og Arion banki stofna grunnskóla Haraldur Freyr Gíslason Skoðun „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson Skoðun Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun Nýr kafli í sögu ESB Michael Mann Skoðun
David Irving er ekki fínasti pappírinn í sagnfræðinni. Fyrir mörgum árum reyndi ég að glugga í bók eftir hann, man helst að hún var illa skrifuð og þvælin. Hann hefur sýnt sig að vera rasisti og gyðingahatari, átrunaðargoð nýnasista og gestur á samkomum þeirra. Irving byrjaði feril sinn sem stríðssagnfræðingur sem naut nokkurs álits, en festist svo smátt og smátt í hlutverki helfararafneitarans. Fræg eru þau orð hans að fleiri konur hafi dáið í bíl Edwards Kennedy í Chappaquiddick en í Auschwitz. Meginkenning Irvings hefur verið sú að Hitler hafi ekki gefið neina skipun um hina "endanlegu lausn gyðingavandans". Sem reyndar er rétt að því leyti að engin skjöl eru til þar sem Hitler fyrirskipar beinlínis útrýmingu gyðinga. Hins vegar þykir ekki leika neinn vafi á því að helförin var með vitund og vilja Hitlers - að halda öðru fram er fjarstæða sem Irving flækti sig í þar til hann var farinn að neita tilvist gasklefanna. Hitt er þó ljóst að Irving er mjög fróður um Þýskaland nasismans; virtir sagnfræðingar viðurkenna að fáir þekki það betur út frá sjónarhóli Þjóðverja sjálfra. Irving var til dæmis fljótur að sjá að dagbækur Hitlers sem Sunday Times birti um árið væru falsaðar - meðan frægur sagnfræðingur eins og Hugh Trevor-Roper álpaðist beint í gildruna. Um leið er þetta umhugsunarefni. Yfirdrifinn áhugi á Þriðja ríkinu miðað við aðra atburði mannkynssögunnar, endalausar bækur og sjónvarpsþættir, virkar stundum á mörkum þess að vera sjúklegur; maður getur ekki varist þeirri tilhugsun að hjá sumum sé þetta eins konar klám - ersatz pornografie. Þ.e. dulin hrifning á nasismanum – undir yfirskini umfjöllunnar um hann. --- --- --- Þá er komið að Austurríki. Það er flókin saga. Þjóðverjar innlimuðu Austurríki 1938 - við mikinn fögnuð. Íbúar landsins þyrptust út á götur til að fagna nasistum. Frá fyrsta degi innlimunarinnar (anschluss) voru austurrískir gyðingar beittir miklu harðræði. Frægar eru myndir af gyðingum sem eru að hreinsa göturnar í Vín með tannburstum. Margir helstu ofsækjendur gyðinga voru Austurríkismenn - fremstur í flokki Hitler sjálfur. Samt fengu Austurríkismenn að nokkru leyti stöðu fórnarlambs eftir stríðið. Til varð mýtan um að þeir hefðu verið undir oki nasismans rétt eins og nágrannaþjóðirnar. Ekkert var fjær sanni. En afleiðing þessa var að austurrískt þjóðfélag var ekki hreinsað af nasismanum í viðlíka mæli og Vestur-Þýskaland. Gamlir nasistar nutu þar virðingar og störfuðu óáreittir. Vitandi vits settist nasistaveiðarinn Simon Wiesental að í sjálfri ormagryfjunni - í Vínarborg. Hinn hugrakki Wiesenthal var óþreytandi við að reyna að breyta hugmynd Austurríkis um sjálft sig - fékk yfirleitt litlar þakkir fyrir. Wiesenthal átti þátt í að koma í kring nokkrum frægum réttarhöldum yfir nasistum. Sum þeirra enduðu með sýknu. Austurríkismenn fóru hins vegar ekki að horfast að ráði í augu við sjálfa sig fyrr en Waldheim-málið kom upp 1987. Gamall hermaður sem hafði orðið vitni að útrýmingu gyðinga - þó varla verið virkur þáttakandi - var orðinn forseti landsins. Þetta sæti fordæmingu víða á alþjóðavettvangi og vakti upp mjög heiftarlega umræðu í Austurríki. Hjá ungu fólki varð vitundarvakning um fortíð landsins - ég var sjálfur í Austurríki á þessum tíma og fannst stórmerkilegt að fylgjast með umræðunni. --- --- --- Ég fór meðal annars á fund Axels Corti, helsta kvikmyndaleikstjóra landsins. Þá var hann nýbúinn að gera röð þriggja kvikmynda sem hét Wohin und zurück; þær fjölluðu um ungan gyðing sem flýr Austurríki við illan leik, gengur loks í bandaríska herinn og kemur með honum aftur til Vínar í lok stríðsins. Í síðasta hlutanum, Welcome in Vienna, mætir hann mörgum af gömlu kvölurum sínum - og líika öllum tækifærissinnunum - sem búa sig undir að sitja áfram í áhrifastöðum undir nýju valdi. Gömlu nasistarnir eru hérumbil allir dauðir, en tilhneigingar til nasisma hafa leynst víða í Austurríki. Framhjá því verður ekki litið. Skemmst er að minnast hins mikla fylgis sem hægriöfgamaðurinn Jörg Heider hefur notið í landinu. En um leið byggir Austurríki á ýmsu því sem er andstætt nasisma. Það aðhyllist hlutleysisstefnu, leggur mikið upp úr því að það sé friðsælt smáríki, gengst ekki upp í fortíð sinni sem fyrrum evrópskt stórveldi og hernaðarþjóð. --- --- --- En þetta er semsagt viðkvæmt mál í Austurríki. David Irving mátti vita að hann var eftirlýstur þar. Hann ákvað að fara. En það er samt rangt að loka hann inni. Það er langsótt að gera afneitun á helförinni að glæp. Væri til dæmis með sama hætti hægt að gera afneitun á Gúlaginu glæpsamlega? Irving nýtur einskis álits. Eftir meiðyrðamál sem hann tapaði árið 2000 var hann ærulítill og gjaldþrota. Hann hefur lélegar skoðanir, en réttur hans til að hafa þær - og jafnvel skrifa og tala um þær - á að vera skýlaus. Það er líka fráleitt að gera mann eins og Irving að píslarvotti þessara skoðana. Það gefur honum stöðu sem hann hefur aldrei notið - Irving hefur virkað ringlaður á fréttaljósmyndum, honum þykir greinilega ekki góð tilhugsun að sitja inni, en hann ætti að geta ornað sér við þetta í fangaklefanum í Josefstadt. Hvað sem öðru líður hefur hann aldrei verið frægari.
Opið bréf til forystu Kennarasambands Íslands (KÍ): Endurskoðum aðferðafræði verkfallsins Valgerður Bára Bárðardóttir Skoðun
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun
Opið bréf til forystu Kennarasambands Íslands (KÍ): Endurskoðum aðferðafræði verkfallsins Valgerður Bára Bárðardóttir Skoðun
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun