Innlent

Horfir fram á sumarþing eða frestun mála fram á haust

MYND/Stefán

Magrét Frímannsdóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, segir að halda verði sumarþing eða fresta málum fram á haustþing því ekki náist að klára öll þau mál sem lögð hafi verið fyrir þingið að undanförnu. Hún sakar ríkisstjórnina um hroðvirkni við vinnslu frumvarpa.

Þingmenn fóru í páskafrí í gær og mæta aftur til starfa eftir viku. Þá tekur við stutt törn því samkvæmt starfsáætlun á vorþingi að ljúka fjórða maí vegna sveitarstjórnarkosninga í lok maímánaðar. Hins vegar liggja fyrir fjölmörg mál á þingi sem nýbúið er að mæla fyrir eða eru að koma úr nefndum.

Margrét Frímannsdóttir segir sum málanna stór og umdeild og hún telur ólíklegt að öllum málum sem fyrir liggja verði lokið fyrir fjórða maí. Það stefni því í það að láta þurfi hluta málanna bíða næsta vetrar, enda séu mörg það illa unnin að það þurfi að senda þau aftur í ráðuneytin, eða að sitja lengur í maí og hafa sumarþing. Enn og aftur sýni það sig að tillaga Samfylkingarinnar um breyttan starfstíma Alþingis sé löngu tímabær.

Hún segir Sólveigu Pétursdóttur, forseta Alþingis, hafa greitt vel fyrir störfum þingsins í vetur með samráði við alla aðila en henni sýnis að þrátt fyrir góða viðleitni Sólveigar hafi ríkisstjórnin staðið það slælega að málum með því að leggja sín mál seint og illa fram að það sé ekki hægt að halda starfsáætlun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×