Innlent

Stýrivextir í sögulegu hámarki

Frá fundi um vaxtaákvörðun.
Frá fundi um vaxtaákvörðun.
Stýrivextir Seðlabankans hækka í 12,25 prósent samkvæmt ákvörðun sem bankastjórn Seðlabankans tilkynnti í morgun. Stýrivextir hafa aldrei verið hærri en þeir eru núna.

Bankastjórn Seðlabankans kynnti vaxtahækkun sína í morgun. Stýrivextir Seðlabankans héldust í sögulegu lágmarki um fjórtán mánaða skeið á árunum 2003 og 2004 en hafa nú hækkað fjórtán sinnum á tveimur árum. Eftir síðustu hækkun eru stýrivextir komnir í 12,25 prósent og eru orðnir nær einu prósentustigi hærri en þeir höfðu orðið hæstir fyrir þetta tímabil.

Stýrivextir voru teknir upp 1998 og voru þá 7,2 prósent. Fyrir núverandi hækkanaskeið höfðu þeir hæstir orðið 11,4 prósent en lægstir fóru þeir í 5,3 prósent.

Það þarf að fara allt aftur til áranna í kringum 1990 til að finna dæmi þess að forvextir, forveri stýrivaxtanna, voru hærri en stýrivextirnir eru nú. Það var þó við allt aðrar aðstæður þegar verðbólga mældist í tveggja stafa tölu.

Davíð Oddsson, formaður stjórnar Seðlabankans, gerði grein fyrir vaxtahækkuninni og framtíðarsýn bankans á blaðamannafundi rétt fyrir hádegi. Þar sagði hann að verðbólguhorfur hefðu versnað að undanförnu og því væru ekki forsendur fyrir öðru en að hækka vexti til að sporna við verðbólgu.

Seðlabankastjóri sagði engin greinileg merki komin fram um að fasteignamarkaðurinn væri farinn að kólna. Um það væru komnar fram nokkrar vísbendingar en ekkert sem væri fast í hendi. Hann sagði jafnframt að bankarnir hefðu ekki dregið úr útlánum sínum eins og þeir hefðu heitið, til greina kæmi að grípa til aðgerða til að ýta á eftir þeim en enn hefði engin ákvörðun verið tekin í þá veru.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×