Innlent

Efasemdir um ágæti vaxtahækkana

Framkvæmdastjóri SA efast um gildi vaxtahækkana.
Framkvæmdastjóri SA efast um gildi vaxtahækkana. MYND/GVA

Vaxandi efasemda er farið að gæta um að stýrivaxtahækkanir þjóni lengur tilgangi sínum, og að úr þessu geti þær jafnvel farið að hafa neikvæð áhrif.

Þannig lýstu Samtök atvinnulífsins formlega yfir áhyggjum sínum af vaxtaþróuninni í bréfi, sem þau rituðu Seðlabankanum í fyrradag, en náðu greinilega ekki eyrum bankastjóranna sem tilkynntu vaxtahækkun í dag.

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir ólíklegt að vaxtahækkun hafi áhrif og bendir á að gengi krónunnar hafi þegar fallið þrátt fyrir háa vexti. Ennfremur er búist við samdrátti á næsta ári. "Þess vegna segjum við að vaxtahækkun þegar séð er fram á samdrátt í efnahagslífinu er ekki viðeigandi."

Nokkurn tíma tekur áður en áhrifa stýrivaxtahækkana er að gæta í hagkerfinu, en áhrif fyrri hækkana bankans eru nú þegar farin að koma fram. Einkaneysla er farin að dragast talsvert saman eins og sést af mun minni greiðslukortanotkun í síðasta mánuði en í marga mánuði þar á undan. Væntingavísitala Gallups sýnir líka að fólk býr sig undir samdrátt, samdráttar er þegar farið að gæta á húsnæðismarkaði, eins og Vilhjálmur gat um og talsvert er farið að draga úr kaupum á svonefndum varanlegum neysluvörum eins og bílum og heimilistækjum. Þó má telja að áhrif af síðustu stýrivaxtahækkun séu ekki komin fram til fulls, hvað þá af hækkuninni núna. Þrátt fyrir þetta telja greiningardeildir bankanna almennt að fekari hækkun verði í sumar, en sérfræðingar KB banka telja að hækkun upp í allt að 16 prósent, eins og talaðð hefur verið um, geti hinsvegar skapað hættu á brotlendingu í efnahagskerfinu.-






Fleiri fréttir

Sjá meira


×