Innlent

Gísli sest í bæjarstjórastólinn á Akranesi

MYND/Vísir

Sjálfstæðisflokkur og Frjálslyndir og óháðir á Akranesi tilkynntu í hádeginu um myndun nýs meirihluta í bæjarstjórn. Það sem er óvenjulegt við þennan meirihluta er að Gísli S. Einarsson, sem verið hefur Samfylkingarmaður, verður bæjarstjóri en sjálfstæðismenn tefldu honum fram sem slíkum. Á nýliðnu kjörtímabili skipuðu Framsókn og Samfylkingin meirihluta í bæjarstjórn.

Fulltrúar Fjarðalistans og Framsóknarflokksins í Fjarðabyggð hafa ákveðið að halda meirihlutasamstarfi sínu áfram en nú stækkar sveitarfélagið um Austurbyggð, Mjóafjarðarhrepp og Fáskrúðsfjarðahrepp. Óvíst er hver tekur við bæjarstjórastöðunni en Guðmundur Bjarnason, sem lengi hefur verið bæjarstjóri Fjarðabyggðar, ákvað fyrir nokkru að láta af því starfi núna.

Framsóknarmenn og sjálfstæðismenn á Ísafirði ákváðu í gær að halda meirihlutasamstarfi sínu áfram og verður Halldór Halldórsson áfram bæjarstjóri.

Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknarflokks og Vinstri grænna halda áfram meirihlutaviðræðum í Árborg í dag en fyrir kosningarnar voru Framsóknarmenn og Samfylking í meirihluta þar.

Samfylkingin, framsóknarmenn og Vinstri grænir ræða nú meirihlutasamstarf í Mosfellsbæ eftir að sjálfstæðismenn misstu meirihluta sinn þar. D-listi og L-listi mynda áfram meirihluta í Borgarbyggð og allt bendir til að sjálfstæðismenn og Héraðslisti verði áfram við völd á Fljótsdalshéraði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×