Innlent

Nefnd skoði gögn sem snerta öryggismál í kalda stríðinu

MYND/Stefán

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra hefur lagt þingsályktunartillögu fram á Alþingi þar sem ríkisstjórninni verður falið að skipa nefnd til að skoða opinber gögn sem snerta öryggismál landsinsins á árunum 1945-1991. Nefndinni er ætlað að skila niðurstöðu fyrir árslok.

Nefndin er sett á laggirnar í kjölfar umræðu í síðustu viku um hleranir á tímum kalda stríðsins. Þá kynnti Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur niðurstöður rannsóknar sinnar en þær leiddu í ljós að íslensk stjórnvöld hefðu hlerað síma hjá þingmönnum, flokkum, dagblöðum og félagasamtökum á árunum 1949 til 1968. Því hafa komið fram kröfur um að rannsaka beri opinber gögn um innra öryggis ríkisins á tímum kalda stríðsins til þess að komast meðal annars að því hvort upplýsinga um einstaklinga hafi verið aflað með ólögmætum hætti.

Til þess að það sé hægt þurfa fræðimenn að hafa aðgang að gögnunum. Er nefndinni sem ríkisstjórnin hyggst skipa ætlað að skoða gögn um öryggismál Íslands á árunum 1945-1991 og og ákvarða í samráði við forsætis-, utanríkis- og dómsmálaráðuneyti hvort leyfa eigi frjálsan aðgang að þeim. Með opinberum gögnum er meðal annars átt við gögn Landssíma Íslands, dómstóla og lögregluyfirvalda frá tímabilinu.

Ef þingsályktunartillagan nær fram að ganga verður stjórnarformaður Persónuverndar formaður nefndarinnar en auk hanns sitja þjóðskjalavörður, forseti Sögufélags, skrifstofustjóri Alþingis og formaður stjórnmálafræðiskorar félagsvísindadeildar Háskóla Íslands í nefndinni. Henni er ætlað að skila skýrslu til Alþingis í síðasta lagi í árslok.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×