Innlent

Frumvarpi um RÚV hf. og nýsköpunarmiðstöð frestað til hausts

MYND/GVA

Afgreiðslu á furmvörpum um hlutafélagavæðingu ríkisútvarpsins og Nýsköpunarmiðstöð Íslands verður frestað til haustsins samkvæmt samkomulagi sem formenn þingflokka og forseti alþingis gerðu í kvöld um þinglok. Einnig var samið um að ljúka sumarþingi á morgun. Þingmenn vinna nú hratt á lokasprettinum og kvöld hafa að minnsta kosti 38 frumvörp orðið að lögum.

Sumarþingið hefur staðið frá því þriðjudag en til þess var boðað eftir að sveitarstjórnarkosningum lauk. Í upphafi þingfunda á þriðjudag voru deilur stjórnar og stjórnarandstöðu svo miklar að útlit var fyrir að þing myndi sitja eitthvað fram í júní. Hins vegar virðast menn hafa sæst og í dag fóru fram þreifingar um að ljúka þinginu á morgun. Þeim lauk með samkomulagi um að afgreiða þau frumvörp, sem afgreidd hafa verið úr nefndum en um flest þeirra er þverpólitísk ságtt. Það á hins vegar ekki við um frumvörpin um Ríkisútvarpið hf. og nýsköpunarmiðstöð. Þeim verður frestað til hausts sem þýðir að það þarf að flytja þau aftur. Ekki liggur þó fyrir hvort eldhúsdagsumræður, sem eru almennar stjórnmálaumræður í lok þings, fari fram á morgun eða eftir hvítasunnu.

Þingmenn hafa staðið í ströngu í dag enda hefur þingfundur staðið frá því klukkan hálfellefu í morgun og stendur enn. Fjölmörg frumvörp eru að verða lögum þessa stundina, en beita þurfti afbrigðum um mörg þeirra þar sem of skammur tími var á milli annarrar og þriðju umræðu. Meðal þeirra frumvarpa sem verða að lögum í kvöld eru lög um bann við reykingum á veitinga- og skemmtistöðum, lög um réttindastöðu samkynhneigðra, lög um breytta skipan lögreglumála og lög um Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum svo fátt eitt sé nefnt.

Þingfundur verður svo aftur á morgun en ekki liggur fyrir hvenær hann hefst.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×