Innlent

Ekkert liggur fyrir um afsögn Guðna

MYND/Valli

Halldór Ásgrímsson hefur ákveðið að segja af sér sem forsætisráðherra en Geir H. Haarde tekur við forsætisráðherraembættinu. Hann situr áfram sem formaður Framsóknarflokksins fram á haust. Guðni Ágústsson, varaformaður Framsóknarflokksins, segir ekkert liggja fyrir um afsögn sína.

Halldór tilkynnti um brotthvarf sitt úr stjórnmálum sína á blaðamannafundi á Þingvöllum í gær. Hann mun sitja áfram sem forsætisráðherra þar til ríkisráð hefur komið saman en fundur þess verður boðaður á næstu dögum. Ákveðið hefur verið að Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, taki við forsætisráðuneytinu og er því ljóst að einhverjar mannabreytingar og tilfæringar verða gerðar í ríkisstjórninni. Ekkert hefur verið tilkynnt um skiptingu ráðuneyta eða ráðherraskipan, þó margir hafi eflaust velt því fyrir sér. Halldór mun sitja áfram á þingi til loka kjörtímabilsins.

Halldór sagðist myndu leggja til á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins á föstudaginn að boðað yrði til flokksþings í haust þar sem kosið yrði um nýja forystu flokksins. Halldór sagði að hann og Guðni Ágústsson, varaformaður Framsóknar, hefðu orðið ásáttir um að draga sig báðir í hlé frá forystunni. Guðni virtist þó brugðið við þau tíðindi og lýsti því yfir að framtíð hans innan flokksins væri óráðin en hefur síðan neitað að tjá sig við fjölmiðla um málið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×