Innlent

Engin sérstök rök fyrir því að einkaaðilar leggi Sundabraut

Engin sérstök rök mæla með því að einkaaðilar leggi og reki Sundabraut fremur en ríkið þar sem lítil óvissa er um verkið og kostnað við það. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar um mat á kostum og göllum einkaframkvæmdar.

Það var samgönguráðuneytið sem bað Ríkisendurskoðun að bera saman gerð Hvalfjarðarganga út frá einkaframkvæmd og framkvæmd hins opinbera. Ástæðan er sú að hugmyndir eru uppi um að fela einkaaðilum að leggja síðari hluta Sundabrautar, sem liggur frá Gufunesi og upp á Kjalarnes.

Eins og kunnugt er á og rekur hlutafélagið Spölur Hvalfjarðargöngin en Ríkisendurskoðun bendir á að göngin geti ekki talist hrein einkaframkvæmd því opinberir aðilar hafi staðið á bak við Spöl. Þá bendir stofnunin á að ríkið hefði getað fjármagnað framkvæmdina með að minnsta kosti jafnhagstæðum lánum og Spölur. Að teknu tilliti til þess og þess að rekstrarkostnaður yrði líklega sá sami hjá ríki og einkaaðila telji stofnunin ekki að eiginleg einkaframkvæmd vegna ganganna hefði orðið ódýrari en sú leið sem farin var.

Þetta er síðan yfirfært á síðari áfanga Sundabrautar. Samkvæmt skýrslunni kostar verkið átta til níu milljarða og ef af einkaframkvæmd verður er búist við að ríkið borgi svokallað skuggagjald til framkvæmdaaðilans, þ.e. gjald fyrir hvert ökutæki sem fer um veginn, en ekki veggjald. Enn fremur er bent á að minni pólitísk óvissa ríki um framkvæmdina en um Hvalfjarðargöngin á sínum tíma. Þegar horft sé til alls þessa sé erfitt að sjá rökin fyrir einkaframkvæmd fremur en ríkisframkvæmd.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×