Sport

Keppnin um Austurlandströllið hafin

Magnús Ver og félagar eru nú að reyna með sér á heimaslóðum hans fyrir austan
Magnús Ver og félagar eru nú að reyna með sér á heimaslóðum hans fyrir austan Mynd/Stefán Karlsson

Í morgun hófst austur á Vopnafirði keppnin um titilinn Austurlandströllið, en þar keppa sín á milli sterkustu aflraunamenn landsins úr röðum IFSA Ísland. Þegar þetta er ritað eru jötnarnir að etja kappi í drumbalyftu á Mjóeyri á Eskifirði og lýkur dagskrá dagsins í Neskaupstað klukkan 18 þar sem keppt verður í dekkjaveltu við Norðfjarðarvöll.

Á meðal keppenda á mótinu eru þeir Georg Ögmundsson, Jón Valgeir Williams, Arnar Már Jónsson og hinn hrikalegi Stefán Sölvi Pétursson. Þá ætlar goðsögnin Magnús Ver Magnússon að vera á meðal keppenda að þessu sinni, en hann er að jafna sig af meiðslum eftir að hafa slitið sinar í keppni fyrir nokkrum misserum.

Tveir erlendir keppendur eru sérstakir gestir á mótinu, finnski aflraunamaðurinn Juha-Pekka Aitala og Bretinn Lee Bowers, sem tók þátt í keppninni um sterkasta mann heims árið 1998.

Keppnin heldur svo áfram á morgun þegar leið keppenda liggur upp á Hérað og niður á Seyðisfjörð, en lýkur á laugardag þegar suðurfirðirnir verða þræddir einn af öðrum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×