Sport

Skaut úr riffli að hrossahópi í Flókadal

Tilkynnt hefur verið til lögreglu á Sauðárkróki um mann sem skaut að hrossahópi í Flókadal nú nýlega. Bóndi á bæ einum í dalnum var að sækja hross sín snemma síðastliðinn laugardagsmorgun, en þau höfðu komist yfir á nágrannajörð. Um 60 hross voru í hópnum og var ætlunin að reka þau heim í tún.

Umræddur bóndi sagði að hann hefði skyndilega heyrt skothvelli, líklega tvo, þeir bárust frá nágrannajörðinni og þar var að sögn eiganda hrossanna maður með skotvopn. Sá lét skotin tvö ekki duga, heldur elti stóðið, ók í veg fyrir það og hleypti aftur af rifflinum. Í seinna sinnið telur ábúandi að skotin hafi verið þrjú til fjögur talsins.

"Þetta er grafalvarlegt mál, að mínu mati," segir bóndinn og að viðbrögð þess sem skaut að hrossahópnum hafi verið full hastarleg. Þó svo að hestarnir hafi komist inn á jörð nágrannans, sem raunar hefur ekki fasta búsetu á jörðinni, sé hægt að grípa til annarra ráð en beina að þeim skotvopnum.

Lögregla á Sauðárkróki staðfesti að skýrsla hefði verið gerð um málið, en það var ekki kært.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×