Viðskipti erlent

Beita sér ekki gegn yfirtöku á Qantas

Ein af vélum Qantas.
Ein af vélum Qantas. Mynd/AFP

Ríkisstjórn Ástralíu ætlar ekki að beita sér gegn því að ástralski bankinn Macquire og bandaríska fjárfestingafélagið Texas Pacific geri yfirtökutilboð í ástralska flugfélagið Qantas.

Bankinn og fjárfestingafélagið gerðu yfirtökutilboð í flugfélagið á miðvikudag. Það hljóðar upp á um 10,3 milljarða ástralska dali eða tæplega 569 milljarða íslenskra króna.

Þrátt fyrir að Geoff Dixon, forstjóri Qantas, hafi lýst því yfir að viðræður séu á byrjunarstigi þá hafa verkalýðsfélög í landinu lýst því yfir að þau óttist uppsagnir hjá flugfélaginu og sölu á eignum þess. Fari svo hafa verkalýðsfélögin hvatt landsmenn til að sniðganga flugfélagið.

Breska ríkisútvarpið hefur eftir John Howard, forsætisráðherra Ástralíu, að ríkisstjórnin ætli ekki að beita sér gegn yfirtökutilboðinu þrátt fyrir að lög í Ástralíu banni erlendum fjárfestum að eiga meira en 49 prósent í fyrirtæki á borð við flugfélagið Qantas.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×