Handbolti

Dramatískur sigur Flensburg

Blazenko Lackovic skoraði 7 mörk fyrir Flensburg í kvöld
Blazenko Lackovic skoraði 7 mörk fyrir Flensburg í kvöld NordicPhotos/GettyImages

Lærisveinar Viggós Sigurðssonar í Flensburg tryggðu sér í kvöld sæti í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í handbolta þegar liðið vann 10 marka sigur á Celje Lasko á heimavelli sínum 36-26. Celje vann fyrri leik liðanna einnig með 10 marka mun á heimavelli, en þýska liðið fer áfram á fleiri mörkum skoruðum á útivelli.

Flensburg hafði raunar þegar náð 8 marka forystu í hálfleik, en slakaði á klónni í þeim síðari og náði naumlega að komast áfram. Blazenko Lackovic og Marcin Lijewski skoruðu 7 mörk hvor fyrir Flensburg, en annars voru það markverðirnir Jan Holpert og Dan Beutler sem áttu stærstan þátt í sigri þýska liðsins með frábærri markvörslu sinni.

Flensburg er annað þýska liðið til að tryggja sér sæti í fjórðungsúrslitunum, en áður var Kiel komið áfram í keppninni og Gummersbach bætist væntanlega í hópinn fljótlega, en liðið hefur 6 marka forskot eftir útileik við Brest Meshkov.

Þá var einn leikur í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld þar sem Róbert Sighvatsson og félagar í Wetzlar unnu annan leik sinn á tímabilinu með því að skella Düsseldorf 25-22.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×