Handbolti

Magdeburg skuldar Arnóri rúmar þrjár milljónir

Arnór er hér í baráttunni með Magdeburg, en hann segir félagið skulda sér 3,5 milljónir króna
Arnór er hér í baráttunni með Magdeburg, en hann segir félagið skulda sér 3,5 milljónir króna NordicPhotos/GettyImages

Landsliðsmaðurinn í handbolta, Arnór Atlason, markahæsti leikmaðurinn í dönsku úrvalsdeildinni, segir að fyrrverandi félag hans, Magdeburg í Þýskalandi, skuldi honum þrjár og hálfa milljón króna samkvæmt starfslokasamningi en þýska félagið neitar að borga.

Arnór Atlason lék í tvö ár með þýska liðinu Magdeburg. Þegar hann átti eitt ár eftir af samningi sínum gaf Magdeburg honum leyfi til þess að fara frá félaginu og samdi Arnór við danska liðið FC Kaupmannahöfn. Arnór hefur leikið feikilega vel í dönsku úrvalsdeildinni í vetur og er markahæsti leikmaður deildarinnar.

Hins vegar hefur hann staðið í stappi við Magdeburg að fá starfslokasamningiinn greiddann eins og samið var um en að sögn Arnórs gekk Magdeburg á bak orða sinna. Arnór segir að Magdeburg skuldi sér um 35 þúsund evrur eða 3,3 milljónir króna og hefur umboðsmaðurinn hans ásamt lögfræðingi Magdeburg reynt að komast að samkomulagi um starfslokasamning hans en án árangurs.

Þegar dregið var í átta liða úrslit í Áskorendakeppni Evrópu í morgun vildi svo skemmtilega til að Arnór og félagar í FC Kaupmannahöfn drógust gegn Magdeburg. Arnór sagði gaman að mæta sínum gömlu félögum en tók fram að þetta hefði ekki verið draumadrátturinn. Þorsteinn Gunnarsson íþróttafréttamaður greindi frá þessu í íþróttafréttum Stöðvar 2 í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×