Handbolti

Sýn hefur beinar útsendingar frá þýska handboltanum

Guðjón Valur Sigurðsson og félagar í Gummersbach verða nú fastir gestir á Íslenskum heimilum eftir að Sýn tryggði sér sýningarréttinn á þýska handboltanum
Guðjón Valur Sigurðsson og félagar í Gummersbach verða nú fastir gestir á Íslenskum heimilum eftir að Sýn tryggði sér sýningarréttinn á þýska handboltanum NordicPhotos/GettyImages
Sjónvarpsstöðin Sýn hefur tryggt sér sýningarréttinn frá leikjum í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta. Sýnt verður beint frá öllum helstu leikjunum í þessari sterkustu deildarkeppni í heimi og verður þar kastljósinu beint sérstaklega að Íslendingaliðunum - sem orðin eru ófá. Í deildinni leika þar að auki margir af fremstu handknattleiksmönnum heims.

Fyrsta beina útsendingin frá þýsku úrvalsdeildinni verður á Þorláksmessu, 23.des, þegar lið Viggós Sigurðssonar Flensburg sækir Kiel heim en þar eru á ferð tvö efstu liðin í úrvalsdeildinni.

Vegur Íslendingar hefur sjaldan eða aldrei verið meiri í þýsku úrvalsdeildinni. Alls leika 13 Íslendingar með 6 liðum í deildinni og auk þess eru íslensku þjálfararnir orðnir þrír; Alfreð Gíslason sem þjálfar Gummersbach, Viggó Sigurðsson sem þjálfar Flensburg og Róbert Sighvatsson sem hefur nýtekið við þjálfun Wetzlar.

Áhuginn á þýska handboltanum hefur farið mjög vaxandi hér á landi, ekki hvað síst vegna allra Íslendingaliðanna sem þar bítast um stóru titlana. Búist er við því að áhuginn á þýska handboltanum aukist enn eftir HM í Þýskalandi sem fram fer í janúar 2007.

Þýska deildin verður í fríi á meðan HM stendur yfir en 19. umferð hefst í febrúar á næsta ári og þá hefjast á ný beinar útsendingar á Sýn. Alls verða sýndir 10 leikir úr þeim 16 umferðum sem eftir eru af keppnistímabilinu og verður þar kappkostað að fylgjast sem best með gengi íslensku handboltakappanna.

Á mánudagskvöldum verður svo eftirleiðis á dagskrá Sýnar þáttur með samatekt af því markverðasta sem gerist í hverri umferð.

Þá hefur einnig verið gengið frá samningum um sýningar frá næsta keppnistímabili í þýska handboltanum. Sýningar hefjast um haustið 2007 og verða þá sýndir a.m.k. 22 leikir úr þeim 34 umferðum sem leiknar eru.

Það er því óhætt að fullyrða að aldrei fyrr hafi þýska handboltanum verið gerð eins góð skil og Sýn kemur til með að gera á næstu vikum, mánuðum og árum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×