Eins og úr sjónum 15. janúar 2006 18:02 Nýlega eru komnar út í Bretlandi æviminningar Duffs Cooper, stjórnmálamanns, diplómata, samkvæmismanns og rithöfundar, sem var mjög umtöluð persóna í bresku þjóðlífi á fyrri helmingi síðustu aldar - andaðist 1954. Eftir stríðið var Duff Cooper sendiherra í París. Spanna dagbækurnar meðal annars þann tíma. Í bókinni er að finna nokkuð sérstaka lýsingu á íslenskum diplómata sem Cooper hitti í París, ekki langa en gagnorða, skráða 8. apríl 1946: "Nýi Íslenski sendiherrann kom til að hitta mig í morgun. Fólk sem kemur frá þessum fjarlægu norrænu slóðum virðist vera alveg litlaust. Það er eins og það hafi búið neðanjarðar eða í sjónum - og því er alveg sama þótt það sitji í algjörri þögn." * --- --- --- Talandi um landkynningu. Í gærkvöldi var í danska sjónvarpinu þemalaugardagur um Ísland. Þarna gekk á með hroðalegum klisjum um álfatrú. Helst var að skilja að álfatrú gegnsýri allt samfélagið á Íslandi. Prógrammið endaði svo á kvikmyndinni Cold Fever eftir Friðrik Þór - áferðarfallegu verki sem geldur fyrir ógurlegt klisjumakerí af þessari sort. Allt var þetta mjög vinsamlegt hjá frændum okkar Dönum og eykur ábyggilega ferðamannastrauminn hingað. En sem lýsing á íslensku samfélagi hafði það ekki mikið gildi. --- --- --- Símon Birgisson blaðamaður var ein helsta vonarstjarnan á DV uns hann hætti óvænt og fór að vinna við hellulagnir í Hafnarfirði. Margir hafa velt því fyrir sér hvort Símon hafi fengið snöggt iðrunarkast, sé kannski að gera yfirbót í hellunum, en til skamms tíma þótti hann harðskeyttasti blaðamaðurinn á stassjóninni, eins konar nýr Eiríkur - hafði meira að segja lagt sér til sama ritstíl og lærimeistarinn. Nú er Símon farinn að blogga. Í færslu frá því fyrir helgina gefur hann einstæða innsýn í móralinn sem hefur ríkt á DV. Mér sýnist helst að megi líkja þessu við umsátursástand - þar sem inni í virkinu sitja verjendur þess, fullir af ranghugmyndum sem þeir trúa blint á en finnst að allir sem eru fyrir utan skilji ekki neitt."Það er skrýtin tilhugsun að Mikael Torfason skuli ekki lengur vera við stjórnvölinn. Mikael er einn merkilegasti maður sem ég hef kynnst. Ótrúlega duglegur, með ótrúlegar hugmyndir og ótrúlegan vilja til að koma þessum hugmyndum í verk. Mikael talaði oft um að DV myndi á endanum sigra. Að eftir nokkur ár myndi blaðið standa uppi sem sigurvegari og tróna yfir öðrum blöðum á markaðnum. Það yrði stóri bróðir Fréttablaðsins. Ég trúði þessu. Eins og aðrir þeir sem lögðu allt að veði fyrir DV. Tíma sinn og orku. Ég efast um að á öðrum blöðum sé hugsjónin jafn sterk og hjá þeim sem hafa starfað fyrir Mikael. Enda var Mikael blaðið og blaðið Mikael. Háleitar hugsjónir verða mönnum stundum að falli. Það var sorglegt að sjá fallið verða að brotlendingu í hverjum fréttatímanum á fætur öðrum þessa viku. Nú tekur hins vegar við tími breytinga. Og vonandi mun hugsjón ritstjórans fyrrverandi rætast." --- --- --- Annars skrifaði Guðni Elísson bókmenntafræðingur frábæra grein í Lesbók Morgunblaðsins á laugardaginn þar sem hann setti fram þá kenningu að DV væri framhald af rithöfundaferli Mikaels Torfasonar og Illuga Jökulssonar. Guðni minnti í því sambandi á skáldsögur Mikaels sem eru alþekktar fyrir nöturlega sýn á tilveruna og svo skáldsöguna Barnið mitt barnið sem Illugi sendi frá sér fyrir meira en áratug. --- --- -- Ein jólagjöfin í ár var sérstakt logsuðutæki til að gera sykurhúð á eftirrétt sem kallast Crème Brûlée. Nokkur eftirspurn mun hafa verið eftir þessu. Hér einu sinni hefði ekki þótt fínt að gefa konunni sinni logsuðutæki, en það hefur greinilega breyst. --- --- --- *"The new Icelandic Minister came to see me this morning. People who come from those distant northern places seem to have no colour. They give the impression of having lived underground or under sea - and they don´t mind sitting in complete silence." - The Duff Cooper Diaries, 1915-1951, bls. 405. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Pistlar Silfur Egils Skoðanir Mest lesið Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Kæri Grímur Grímsson – sakamaður gengur laus? Árni Guðmundsson Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Tímamót Jón Steindór Valdimarsson Skoðun Hvað eru jólin fyrir þér? Hugrún Sigurjónsdóttir Skoðun Þarf alltaf að vera svín? Harpa Kristbergsdóttir Skoðun Þegar Samtök verslunar og þjónustu vita betur Erna Bjarnadóttir Skoðun Menntun fyrir Hans Vögg Þuríður Magnúsína Björnsdóttir Skoðun Landið helga? Ingólfur Steinsson Skoðun Að sinna orkuþörf almennings Kristín Linda Árnadóttir Skoðun
Nýlega eru komnar út í Bretlandi æviminningar Duffs Cooper, stjórnmálamanns, diplómata, samkvæmismanns og rithöfundar, sem var mjög umtöluð persóna í bresku þjóðlífi á fyrri helmingi síðustu aldar - andaðist 1954. Eftir stríðið var Duff Cooper sendiherra í París. Spanna dagbækurnar meðal annars þann tíma. Í bókinni er að finna nokkuð sérstaka lýsingu á íslenskum diplómata sem Cooper hitti í París, ekki langa en gagnorða, skráða 8. apríl 1946: "Nýi Íslenski sendiherrann kom til að hitta mig í morgun. Fólk sem kemur frá þessum fjarlægu norrænu slóðum virðist vera alveg litlaust. Það er eins og það hafi búið neðanjarðar eða í sjónum - og því er alveg sama þótt það sitji í algjörri þögn." * --- --- --- Talandi um landkynningu. Í gærkvöldi var í danska sjónvarpinu þemalaugardagur um Ísland. Þarna gekk á með hroðalegum klisjum um álfatrú. Helst var að skilja að álfatrú gegnsýri allt samfélagið á Íslandi. Prógrammið endaði svo á kvikmyndinni Cold Fever eftir Friðrik Þór - áferðarfallegu verki sem geldur fyrir ógurlegt klisjumakerí af þessari sort. Allt var þetta mjög vinsamlegt hjá frændum okkar Dönum og eykur ábyggilega ferðamannastrauminn hingað. En sem lýsing á íslensku samfélagi hafði það ekki mikið gildi. --- --- --- Símon Birgisson blaðamaður var ein helsta vonarstjarnan á DV uns hann hætti óvænt og fór að vinna við hellulagnir í Hafnarfirði. Margir hafa velt því fyrir sér hvort Símon hafi fengið snöggt iðrunarkast, sé kannski að gera yfirbót í hellunum, en til skamms tíma þótti hann harðskeyttasti blaðamaðurinn á stassjóninni, eins konar nýr Eiríkur - hafði meira að segja lagt sér til sama ritstíl og lærimeistarinn. Nú er Símon farinn að blogga. Í færslu frá því fyrir helgina gefur hann einstæða innsýn í móralinn sem hefur ríkt á DV. Mér sýnist helst að megi líkja þessu við umsátursástand - þar sem inni í virkinu sitja verjendur þess, fullir af ranghugmyndum sem þeir trúa blint á en finnst að allir sem eru fyrir utan skilji ekki neitt."Það er skrýtin tilhugsun að Mikael Torfason skuli ekki lengur vera við stjórnvölinn. Mikael er einn merkilegasti maður sem ég hef kynnst. Ótrúlega duglegur, með ótrúlegar hugmyndir og ótrúlegan vilja til að koma þessum hugmyndum í verk. Mikael talaði oft um að DV myndi á endanum sigra. Að eftir nokkur ár myndi blaðið standa uppi sem sigurvegari og tróna yfir öðrum blöðum á markaðnum. Það yrði stóri bróðir Fréttablaðsins. Ég trúði þessu. Eins og aðrir þeir sem lögðu allt að veði fyrir DV. Tíma sinn og orku. Ég efast um að á öðrum blöðum sé hugsjónin jafn sterk og hjá þeim sem hafa starfað fyrir Mikael. Enda var Mikael blaðið og blaðið Mikael. Háleitar hugsjónir verða mönnum stundum að falli. Það var sorglegt að sjá fallið verða að brotlendingu í hverjum fréttatímanum á fætur öðrum þessa viku. Nú tekur hins vegar við tími breytinga. Og vonandi mun hugsjón ritstjórans fyrrverandi rætast." --- --- --- Annars skrifaði Guðni Elísson bókmenntafræðingur frábæra grein í Lesbók Morgunblaðsins á laugardaginn þar sem hann setti fram þá kenningu að DV væri framhald af rithöfundaferli Mikaels Torfasonar og Illuga Jökulssonar. Guðni minnti í því sambandi á skáldsögur Mikaels sem eru alþekktar fyrir nöturlega sýn á tilveruna og svo skáldsöguna Barnið mitt barnið sem Illugi sendi frá sér fyrir meira en áratug. --- --- -- Ein jólagjöfin í ár var sérstakt logsuðutæki til að gera sykurhúð á eftirrétt sem kallast Crème Brûlée. Nokkur eftirspurn mun hafa verið eftir þessu. Hér einu sinni hefði ekki þótt fínt að gefa konunni sinni logsuðutæki, en það hefur greinilega breyst. --- --- --- *"The new Icelandic Minister came to see me this morning. People who come from those distant northern places seem to have no colour. They give the impression of having lived underground or under sea - and they don´t mind sitting in complete silence." - The Duff Cooper Diaries, 1915-1951, bls. 405.