Viðskipti innlent

Kaupmáttur launa fer minnkandi

Iðnaðarmaður í bankahverfi. Verðbólga eykst nú hraðar en launavísitala hækkar þannig að kaupmáttur minnkar.
Iðnaðarmaður í bankahverfi. Verðbólga eykst nú hraðar en launavísitala hækkar þannig að kaupmáttur minnkar.

Launavísitala í mars 2006 er 285,4 stig og hækkaði um 0,3 prósent frá fyrri mánuði, samkvæmt nýjum tölum Hagstofu Íslands. Á sama tímabili jókst verðbólga um 1,1 prósent. Síðastliðna tólf mánuði hefur launavísitalan hækkað um 8,6 prósent.

Vísitalan tók nokkurn kipp upp á við í janúar, en þá tóku gildi samningsbundnar launahækkanir.

"Launavísitala fyrir helstu launþegahópa á fyrsta ársfjórðungi 2006 er 150,8 stig og hækkaði um 4,4 prósent frá fyrri ársfjórðungi. Sambærileg vísitala fyrir opinbera starfsmenn og bankamenn er 153,7 stig og hækkaði um 4,2 prósent. Vísitala fyrir almennan markað er 148,8 stig og hækkaði um 4,5 prósent," segir Hagstofan.

Tryggvi Þór Herbertsson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, segir nokkuð koma á óvart að ekki skuli vera meiri hækkun á vísitölunni vegna launaskriðs. "En það er hins vegar alveg ljóst að kaupmáttur fer minnkandi, um það er engum blöðum að fletta. Við sjáum nú byrjunina á kaupmáttarrýrnuninni sem þetta verðbólguskot leiðir til," segir hann.

Launavísitala sem gildir við útreikning greiðslumarks fasteignaveðlána í maí 2006 er 6.243 stig.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×