Óbótamenn að verki 22. febrúar 2006 00:01 Það var átakanlegt að horfa upp á forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins í Kastljósi á dögunum. Þar lýsti hann því hvernig stofnuninni hefði verið falið að hafa upp á þeim bótaþegum, sem svo lágt hafa lagst að mergsjúga ríkissjóð, og tína aftur upp úr vösum þeirra þann illa fengna auð, sem þeir hefðu sankað að sér á undanförnum árum, 1100 milljónir á árinu 2004 og áætlaðar 1800 milljónir í ár. Hann kvað á annað þúsund manns hafa skrifað stofnuninni mótmæli og sumir hefðu veist að stofnun og starfsfólki með svigurmælum, sem sviði undan. Þetta væri óréttlátt. Það væru aðrir sem settu lög og reglugerðir, sem stofnun og starfsfólki bæri að framfylgja. Engar leiðbeiningar gaf hann þó um nöfn og heimilisföng þeirra óbótamanna, sem standa að þessari atlögu að skjólstæðingum Tryggingastofnunar. Ég skal fúslega játa að ég er einn þeirra sem að gefnu tilefni skrifaði stofnuninni svarbréf við tilkynningu frá henni um ofgreiðslur á árinu 2004, sem yrðu klipnar af ellilífeyri mínum á næstu árum. Treysti stofnunin sér ekki til að koma þessu bréfi mínu í hendur þeirra óbótamanna sem að framangreindum lögum og reglugerðum standa, þykir mér rétt að koma því fyrir almenningssjónir og geta þá þeir hirt sneið sem eiga. Vona ég að bréfið skýri sig sjálft en það er svohljóðandi: Tryggingastofnun ríkisins Bótasviptingardeild, Reykjavík Reykjavík 9. des. 2005 Með bréfi þessu vil ég undirritaður mótmæla endurreikningi stofnunarinnar á "tekjutengdum bótum" mér til handa fyrir árið 2004. Ég lít svo á að það hljóti að hafa legið ljóst fyrir starfsmönnum stofnunarinnar við upphaf ársins 2004, hvort heldur sem litið var til skattskýrslna eða tekjuáætlunar, hvort ég átti að lögum rétt á greiðslum þeim, sem stofnunin nefnir tekjutryggingu og greiddi mér fyrir árið 2004, - eða ekki. Sé þetta mér ofgreitt, hljóti það að vera fyrir handvömm stofnunarinnar og verði ekki af mér tekið, heldur verði stofnunin að bera það "tjón" bótalaust. Má ég minna á að þegar þingmenn og ráðherrar samþykktu í hitteðfyrra að skammta sér mörg hundruð þúsunda króna á mánuði eftirlaun, sem þeim skyldi greitt jafnvel samfara fullum starfslaunum, og að því var fundið, svöruðu ráðamenn landsins því til, að myndast hefði eignarréttur á þessum forréttindum skv. ákvæðum stjórnarskrárinnar um helgi eignarréttarins. Okkur, sem sannanlega höfum greitt alla ævina til Tryggingarstofnunar ríkisins, og þarafleiðandi erum aðeins að taka út peninga, sem við höfum áður lagt inn, virðist hinsvegar á sama tíma mega svipta öllu nema naumasta fátækraframfærslueyri, sem hvorki mundi nægja til að lifa eða deyja. Ég minni á að stofnun yðar heitir Tryggingastofnun ríkisins - ekki Góðverkastofnun ríkisins, þaðan af síður Gustukastofnun ríkisins. Til hennar var stofnað til að tryggja fólki eigin framfærslurétt í ellinni, að það þyrfti ekki að vera upp á aðra komið eftir starfslok. Það sjá allir, að ekki mun mér takast að framfleyta mér af kr. 254.988.- á ári - og er ég þó ýmsu vanur . Þér eruð semsagt að úrskurða mig ómaga, sem verði að vera upp á aðra kominn, enda hefur mér verið grimmilega refsað fyrir að hafa tekið að mér launaða vinnu framan af þessu ári, sem að ríflega 90% rann til ríkisins í fullum sköttum og töpuðum bótagreiðslum. Ég mótmæli því, að þér hafið ofgreitt mér fyrir árið 2004, og ennfremur að þér getið svipt mig lífeyri fyrir 2006 til endurgreiðslu á því sem þér teljið mistök yðar. Aldraðir hljóta að eiga rétt til þess að geta skipulagt fjármál sín fram í tímann, með því að ganga að föstum greiðslum Tryggingastofnunar sem vísum, en ekki að fá þær greiddar fyrsta árið og verða svo að endurgreiða þær annað árið og með raðgreiðslum jafnvel eftir það fram í rauðan dauðann. Á Tryggingarstofnun kannski endurgreiðslurétt á hendur afkomendum mínum verði ég bráðkvaddur áður en yður tekst að endurheimta þessar "ofgreiðslur" yðar til mín - kr.308.962.- þetta fyrsta ár sem ég átti rétt á ellilífeyri? Hvers konar "tryggingastofnun" er það? Slíkt framferði hlýtur að heyra undir hina frægu "111 meðferð á skepnum", sem hvert mannsbarn á Íslandi lærði um í kverinu á sínum tíma sem part af sínum fermingarundirbúningi. Ég áskil mér því allan rétt til að sækja þetta mál svo langt sem þarf til að réttlætið nái fram að ganga. Með kaldri kveðju, Ólafur Hannibalsson Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Hannibalsson Skoðanir Mest lesið Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Þarf alltaf að vera svín? Harpa Kristbergsdóttir Skoðun Kæri Grímur Grímsson – sakamaður gengur laus? Árni Guðmundsson Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Landið helga? Ingólfur Steinsson Skoðun Tímamót Jón Steindór Valdimarsson Skoðun Hvað eru jólin fyrir þér? Hugrún Sigurjónsdóttir Skoðun Þegar Samtök verslunar og þjónustu vita betur Erna Bjarnadóttir Skoðun Að sinna orkuþörf almennings Kristín Linda Árnadóttir Skoðun Menntun fyrir Hans Vögg Þuríður Magnúsína Björnsdóttir Skoðun
Það var átakanlegt að horfa upp á forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins í Kastljósi á dögunum. Þar lýsti hann því hvernig stofnuninni hefði verið falið að hafa upp á þeim bótaþegum, sem svo lágt hafa lagst að mergsjúga ríkissjóð, og tína aftur upp úr vösum þeirra þann illa fengna auð, sem þeir hefðu sankað að sér á undanförnum árum, 1100 milljónir á árinu 2004 og áætlaðar 1800 milljónir í ár. Hann kvað á annað þúsund manns hafa skrifað stofnuninni mótmæli og sumir hefðu veist að stofnun og starfsfólki með svigurmælum, sem sviði undan. Þetta væri óréttlátt. Það væru aðrir sem settu lög og reglugerðir, sem stofnun og starfsfólki bæri að framfylgja. Engar leiðbeiningar gaf hann þó um nöfn og heimilisföng þeirra óbótamanna, sem standa að þessari atlögu að skjólstæðingum Tryggingastofnunar. Ég skal fúslega játa að ég er einn þeirra sem að gefnu tilefni skrifaði stofnuninni svarbréf við tilkynningu frá henni um ofgreiðslur á árinu 2004, sem yrðu klipnar af ellilífeyri mínum á næstu árum. Treysti stofnunin sér ekki til að koma þessu bréfi mínu í hendur þeirra óbótamanna sem að framangreindum lögum og reglugerðum standa, þykir mér rétt að koma því fyrir almenningssjónir og geta þá þeir hirt sneið sem eiga. Vona ég að bréfið skýri sig sjálft en það er svohljóðandi: Tryggingastofnun ríkisins Bótasviptingardeild, Reykjavík Reykjavík 9. des. 2005 Með bréfi þessu vil ég undirritaður mótmæla endurreikningi stofnunarinnar á "tekjutengdum bótum" mér til handa fyrir árið 2004. Ég lít svo á að það hljóti að hafa legið ljóst fyrir starfsmönnum stofnunarinnar við upphaf ársins 2004, hvort heldur sem litið var til skattskýrslna eða tekjuáætlunar, hvort ég átti að lögum rétt á greiðslum þeim, sem stofnunin nefnir tekjutryggingu og greiddi mér fyrir árið 2004, - eða ekki. Sé þetta mér ofgreitt, hljóti það að vera fyrir handvömm stofnunarinnar og verði ekki af mér tekið, heldur verði stofnunin að bera það "tjón" bótalaust. Má ég minna á að þegar þingmenn og ráðherrar samþykktu í hitteðfyrra að skammta sér mörg hundruð þúsunda króna á mánuði eftirlaun, sem þeim skyldi greitt jafnvel samfara fullum starfslaunum, og að því var fundið, svöruðu ráðamenn landsins því til, að myndast hefði eignarréttur á þessum forréttindum skv. ákvæðum stjórnarskrárinnar um helgi eignarréttarins. Okkur, sem sannanlega höfum greitt alla ævina til Tryggingarstofnunar ríkisins, og þarafleiðandi erum aðeins að taka út peninga, sem við höfum áður lagt inn, virðist hinsvegar á sama tíma mega svipta öllu nema naumasta fátækraframfærslueyri, sem hvorki mundi nægja til að lifa eða deyja. Ég minni á að stofnun yðar heitir Tryggingastofnun ríkisins - ekki Góðverkastofnun ríkisins, þaðan af síður Gustukastofnun ríkisins. Til hennar var stofnað til að tryggja fólki eigin framfærslurétt í ellinni, að það þyrfti ekki að vera upp á aðra komið eftir starfslok. Það sjá allir, að ekki mun mér takast að framfleyta mér af kr. 254.988.- á ári - og er ég þó ýmsu vanur . Þér eruð semsagt að úrskurða mig ómaga, sem verði að vera upp á aðra kominn, enda hefur mér verið grimmilega refsað fyrir að hafa tekið að mér launaða vinnu framan af þessu ári, sem að ríflega 90% rann til ríkisins í fullum sköttum og töpuðum bótagreiðslum. Ég mótmæli því, að þér hafið ofgreitt mér fyrir árið 2004, og ennfremur að þér getið svipt mig lífeyri fyrir 2006 til endurgreiðslu á því sem þér teljið mistök yðar. Aldraðir hljóta að eiga rétt til þess að geta skipulagt fjármál sín fram í tímann, með því að ganga að föstum greiðslum Tryggingastofnunar sem vísum, en ekki að fá þær greiddar fyrsta árið og verða svo að endurgreiða þær annað árið og með raðgreiðslum jafnvel eftir það fram í rauðan dauðann. Á Tryggingarstofnun kannski endurgreiðslurétt á hendur afkomendum mínum verði ég bráðkvaddur áður en yður tekst að endurheimta þessar "ofgreiðslur" yðar til mín - kr.308.962.- þetta fyrsta ár sem ég átti rétt á ellilífeyri? Hvers konar "tryggingastofnun" er það? Slíkt framferði hlýtur að heyra undir hina frægu "111 meðferð á skepnum", sem hvert mannsbarn á Íslandi lærði um í kverinu á sínum tíma sem part af sínum fermingarundirbúningi. Ég áskil mér því allan rétt til að sækja þetta mál svo langt sem þarf til að réttlætið nái fram að ganga. Með kaldri kveðju, Ólafur Hannibalsson