Viðskipti innlent

Barr bauð betur í Pliva

Höfuðstöðvar Pliva í Zagreb í Króatíu.
Höfuðstöðvar Pliva í Zagreb í Króatíu. Mynd/Pliva
Nýtt yfirtökutilboð bandaríska lyfjafyrirtækisins Barr, sem lagt var fram í allt hlutafé í króatíska lyfjafyrirtækið Pliva á föstudag í síðustu viku, hljóðar upp á 820 kúnur á hlut eða jafnvirði 179,4 milljarða íslenskra króna. Þetta er 25 kúnum hærra en nýtt yfirtökutilboð Actavis, sem bauð 795 kúnur á hlut, eða um 176 milljarða krónur.

Tilboð Barr var birt á vef fjármálafeftirlits Króatíu, HANFA, í dag. Tilboðið var lagt fram í síðustu viku en ekki var greint frá því hvað í því fælist fyrr en HANFA hefði farið yfir það og gefið samþykki sitt, samkvæmt reglum fjármálaeftirlitsins.

Fréttastofan Bloomberg hefur eftir Bernd Maurer, sérfræðingi við Raiffeisen Zentralbank í Vínarborg í Austurríki að búist hefði verið við að Barr hækkaði tilboð sitt.

Gengi hlutabréfa í Pliva lækkaði um fjórar kúnur á hlut í kauphöll Króatíu í dag og stendur gengi þeirra nú í 846,1 kúnu á hlut.

Actavis á rúm 20 prósent bréfa í Pliva með beinum eða óbeinum hætti. Verði af sameiningu Actavis og Pliva er gert ráð fyrir því að til verði þriðji stærsti framleiðandi á samheitalyfjamarkaði í heimi.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×