Utanríkismál á dagskrá 13. janúar 2007 06:00 Mikill kosningaskjálfti virðist kominn í íslenska stjórnmálaflokka og ýmsum brögðum beitt til að marka sér sérstöðu. Allt er þetta brölt óskaplega klassískt og fyrirsjáanlegt sem er miður því að ýmis tíðindi gætu gerst í pólitíkinni á árinu 2007. Þar á ég ekki við stjórnmálatíðindi sem eru vissulega merkileg í sjálfu sér - eins og þau að nokkur von er til þess að kjósendur nái beinlínis að fella sitjandi ríkisstjórn í fyrsta sinn frá 1971. Það væru stórtíðindi en þó ekki merkari en hin sem blasa nú þegar við, að í fyrsta sinn frá lokum heimsstyrjaldarinnar síðari hafa kjósendur möguleika á að hafa áhrif á mótun nýrrar stefnu í utanríkismálum þjóðarinnar. Það er ekki hægt að deila um að sú utanríkisstefna sem fylgt hefur verið undanfarna áratugi er úr sér gengin. Hún hvíldi á nánu samstarfi við Bandaríkin á sviði utanríkismála sem hnitaðist um herstöðina á Miðnesheiði. Andstæðingum hersetunnar fannst fylgifiskur hennar vera ósjálfstæði í utanríkismálum en stuðningsflokkar hennar litu á hana sem „hornstein" í utanríkisstefnu Íslendinga - eins og var margítrekað í stjórnmálaályktunum þeirra flokka. Núna er þessi hornsteinn horfinn og virðast margir eiga erfitt með að fóta sig við nýjar aðstæður. Ein skýrasta birtingarmynd hernaðarsamstarfsins á síðari árum fólst í stuðningi Íslendinga við árásir Bandaríkjanna og margvíslegra bandamanna á ýmis ríki - Júgóslavíu, Afganistan og Írak - í öllum tilvikum án nokkurs umboðs frá Sameinuðu þjóðunum. Hún birtist hins vegar í ýmsu öðru, til dæmis tregðu Íslendinga til að styðja tillögur um kjarnorkuafvopnun á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Þar hafa Íslendingar tilheyrt þeim mikla minnihluta ríkja sem styður eindregið við bakið á tilraunum núverandi kjarnorkuvelda til að einoka gereyðingarvopn - þvert á ákvæði Sáttmála um takmörkun kjarnorkuvopna frá 1968. Þessi stefna nýtur lítilla vinsælda meðal almennings á Íslandi ef marka má skoðanakannanir. Á hinn bóginn hafa utanríkismál aldrei verið kosningamál undanfarna áratugi og þeirri skoðun hefur markvisst verið haldið að fólkinu í landinu að enginn möguleiki sé á að knýja fram breytingar. Þessi deyfð náði líklega hámarki þegar hin nýja árásarstefna Bandaríkjanna hófst fyrir alvöru með loftárásum á Júgóslavíu 1999. Á því méli ákváðu einu flokkarnir sem höfðu haldið uppi andófi gegn ríkjandi utanríkisstefnu, Alþýðubandalagið og Kvennalistinn, að falla frá sinni fyrri stefnu og taka upp stuðning við NATO undir merkjum Samfylkingarinnar. Á þeim tíma var mikið rætt um „breytt eðli" hernaðarbandalagsins og reyndust það áhrínisorð, en breytingarnar gengu hins vegar þvert á væntingar þeirra bjartsýnismanna sem bundu vonir við þær. Sannast sagna hefur aldrei verið meiri þörf á andófi við bandaríska heimsvaldastefnu heldur en frá þeim tíma - eftir að hin pólitíska andstaða á Íslandi veiktist með afgerandi hætti. Andstaða við bandaríska heimsvaldastefnu, og fylgisspekt íslenskra stjórnvalda við hana, er alls ekki úr sögunni á Íslandi. Hún hefur þvert á móti skerpst - og það meðal fylgismanna allra flokka. Brotthvarf Bandaríkjahers frá Miðnesheiði kallar þar að auki sjálfkrafa á endurmat utanríkisstefnunnar. Mikilvægasta forsenda hennar er horfin án þess að íslensk stjórnvöld næðu að hafa nein áhrif á þá þróun. Ég geri mér hins vegar litlar vonir um að núverandi stjórnarflokkar læri af reynslunni. Í röðum þeirra finnst varla nokkur maður sem áttar sig ekki á því að stuðningsyfirlýsingin við árásina á Írak 2003 var röng ákvörðun. Á hinn bóginn virðast þeir heldur ekki viljugir til að læra af mistökunum. Málflutningur stjórnarliða um að innrásin hafi verið „rétt miðað við forsendur þess tíma" er ekki einungis villandi heldur bendir hann beinlínis til þess að þeir ætli sér ekki að læra af mistökunum. Þá er hætt við að þeir muni endurtaka þau næst þegar tilefni gefst til. Ætlum við Íslendingar þá að láta sömu menn fleyta okkur aftur sofandi að sama feigðarósinum? Þess vegna er mikilvægt að stjórnarandstöðuflokkarnir taki sig nú saman og bjóði upp á skýran valkost við þessa stefnu. Það kallar vissulega á endurskoðun stefnumála hjá sumum þeirra. En það er ljóst að bera þarf í brestina ef stjórnarandstaðan vill verða trúverðugur valkostur við stjórnarflokkana og ein leið til þess er að bjóða upp á sameiginlegan valkost í utanríkismálum - nýja stefnu sem tekur mið af breyttum aðstæðum á Íslandi, en ekki síður í alþjóðamálum. Fangabúðirnar í Guantanamo hafa nú starfað í fimm ár. Einhvern tíma hlýtur mælirinn að verða fullur hjá Íslendingum. Fangabúðirnar í Guantanamo hafa nú starfað í fimm ár. Er ekki tími til kominn að Íslendingar fari alvarlega að endurskoða stefnu sína í utanríkismálum? Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Sverrir Jakobsson Mest lesið Sjálfstæðismenn boða víst skattalækkanir á þá efnamestu Haukur V. Alfreðsson Skoðun Almageddon? Eyþór Kristleifsson Skoðun Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun Það sem ekki má fjalla um fyrir kosningar til Alþingis Árni Jensson Skoðun ESB kærir sig ekkert um Ísland í jólagjöf Ole Anton Bieltvedt Skoðun Óstjórn í húsnæðismálum Ragnar Þór Ingólfsson Skoðun Betri Strætó 2025 og (svo) Borgarlína Dagur B. Eggertsson Skoðun Afvegaleidd umræða um áskoranir heilbrigðiskerfisins Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Skoðun Vímuefnið VONÍUM Haraldur Ingi Haraldsson Skoðun
Mikill kosningaskjálfti virðist kominn í íslenska stjórnmálaflokka og ýmsum brögðum beitt til að marka sér sérstöðu. Allt er þetta brölt óskaplega klassískt og fyrirsjáanlegt sem er miður því að ýmis tíðindi gætu gerst í pólitíkinni á árinu 2007. Þar á ég ekki við stjórnmálatíðindi sem eru vissulega merkileg í sjálfu sér - eins og þau að nokkur von er til þess að kjósendur nái beinlínis að fella sitjandi ríkisstjórn í fyrsta sinn frá 1971. Það væru stórtíðindi en þó ekki merkari en hin sem blasa nú þegar við, að í fyrsta sinn frá lokum heimsstyrjaldarinnar síðari hafa kjósendur möguleika á að hafa áhrif á mótun nýrrar stefnu í utanríkismálum þjóðarinnar. Það er ekki hægt að deila um að sú utanríkisstefna sem fylgt hefur verið undanfarna áratugi er úr sér gengin. Hún hvíldi á nánu samstarfi við Bandaríkin á sviði utanríkismála sem hnitaðist um herstöðina á Miðnesheiði. Andstæðingum hersetunnar fannst fylgifiskur hennar vera ósjálfstæði í utanríkismálum en stuðningsflokkar hennar litu á hana sem „hornstein" í utanríkisstefnu Íslendinga - eins og var margítrekað í stjórnmálaályktunum þeirra flokka. Núna er þessi hornsteinn horfinn og virðast margir eiga erfitt með að fóta sig við nýjar aðstæður. Ein skýrasta birtingarmynd hernaðarsamstarfsins á síðari árum fólst í stuðningi Íslendinga við árásir Bandaríkjanna og margvíslegra bandamanna á ýmis ríki - Júgóslavíu, Afganistan og Írak - í öllum tilvikum án nokkurs umboðs frá Sameinuðu þjóðunum. Hún birtist hins vegar í ýmsu öðru, til dæmis tregðu Íslendinga til að styðja tillögur um kjarnorkuafvopnun á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Þar hafa Íslendingar tilheyrt þeim mikla minnihluta ríkja sem styður eindregið við bakið á tilraunum núverandi kjarnorkuvelda til að einoka gereyðingarvopn - þvert á ákvæði Sáttmála um takmörkun kjarnorkuvopna frá 1968. Þessi stefna nýtur lítilla vinsælda meðal almennings á Íslandi ef marka má skoðanakannanir. Á hinn bóginn hafa utanríkismál aldrei verið kosningamál undanfarna áratugi og þeirri skoðun hefur markvisst verið haldið að fólkinu í landinu að enginn möguleiki sé á að knýja fram breytingar. Þessi deyfð náði líklega hámarki þegar hin nýja árásarstefna Bandaríkjanna hófst fyrir alvöru með loftárásum á Júgóslavíu 1999. Á því méli ákváðu einu flokkarnir sem höfðu haldið uppi andófi gegn ríkjandi utanríkisstefnu, Alþýðubandalagið og Kvennalistinn, að falla frá sinni fyrri stefnu og taka upp stuðning við NATO undir merkjum Samfylkingarinnar. Á þeim tíma var mikið rætt um „breytt eðli" hernaðarbandalagsins og reyndust það áhrínisorð, en breytingarnar gengu hins vegar þvert á væntingar þeirra bjartsýnismanna sem bundu vonir við þær. Sannast sagna hefur aldrei verið meiri þörf á andófi við bandaríska heimsvaldastefnu heldur en frá þeim tíma - eftir að hin pólitíska andstaða á Íslandi veiktist með afgerandi hætti. Andstaða við bandaríska heimsvaldastefnu, og fylgisspekt íslenskra stjórnvalda við hana, er alls ekki úr sögunni á Íslandi. Hún hefur þvert á móti skerpst - og það meðal fylgismanna allra flokka. Brotthvarf Bandaríkjahers frá Miðnesheiði kallar þar að auki sjálfkrafa á endurmat utanríkisstefnunnar. Mikilvægasta forsenda hennar er horfin án þess að íslensk stjórnvöld næðu að hafa nein áhrif á þá þróun. Ég geri mér hins vegar litlar vonir um að núverandi stjórnarflokkar læri af reynslunni. Í röðum þeirra finnst varla nokkur maður sem áttar sig ekki á því að stuðningsyfirlýsingin við árásina á Írak 2003 var röng ákvörðun. Á hinn bóginn virðast þeir heldur ekki viljugir til að læra af mistökunum. Málflutningur stjórnarliða um að innrásin hafi verið „rétt miðað við forsendur þess tíma" er ekki einungis villandi heldur bendir hann beinlínis til þess að þeir ætli sér ekki að læra af mistökunum. Þá er hætt við að þeir muni endurtaka þau næst þegar tilefni gefst til. Ætlum við Íslendingar þá að láta sömu menn fleyta okkur aftur sofandi að sama feigðarósinum? Þess vegna er mikilvægt að stjórnarandstöðuflokkarnir taki sig nú saman og bjóði upp á skýran valkost við þessa stefnu. Það kallar vissulega á endurskoðun stefnumála hjá sumum þeirra. En það er ljóst að bera þarf í brestina ef stjórnarandstaðan vill verða trúverðugur valkostur við stjórnarflokkana og ein leið til þess er að bjóða upp á sameiginlegan valkost í utanríkismálum - nýja stefnu sem tekur mið af breyttum aðstæðum á Íslandi, en ekki síður í alþjóðamálum. Fangabúðirnar í Guantanamo hafa nú starfað í fimm ár. Einhvern tíma hlýtur mælirinn að verða fullur hjá Íslendingum. Fangabúðirnar í Guantanamo hafa nú starfað í fimm ár. Er ekki tími til kominn að Íslendingar fari alvarlega að endurskoða stefnu sína í utanríkismálum?