Handbolti

Vildi helst vera á tveimur stöðum í einu

Það er nóg um að vera í lífi Ragnars Óskarssonar um þessar mundir.
Það er nóg um að vera í lífi Ragnars Óskarssonar um þessar mundir.

Alfreð Gíslason landsliðsþjálfari í handbolta kynnti í gær hópinn sem fer til Þýskalands og spilar á heimsmeistaramótinu sem hefst þar á föstudag. Meðal þeirra er leikstjórnandinn Ragnar Óskarsson sem hefur að mörgu öðru að huga en handbolta þessa dagana.

Hann og kona hans eiga von á sínu fyrsta barni í upphafi febrúar og því hætt við því að hann missi af fæðingunni ef gengi íslenska liðsins verði gott í Þýskalandi.

„Barnið á að koma í heiminn 10. febrúar og get ég bara krosslagt fingur og vonað að hún muni ekki eiga fyrr en eftir mótið. Það er í raun ekki flóknara en það,“ sagði Ragnar.

Kona hans er frönsk en þau eru búsett í París. Þau hafa fengið að vita að það sé von á stúlku og segir Ragnar að hann hlakki mikið til að takast á við föðurhlutverkið.

„Þetta er mjög spennandi. Ég get nú ekki sagt að allt heimilið sé orðið undirlagt bleikum barnafötum en ömmurnar eru eitthvað byrjaðar að prjóna.“ Aðspurður segir hann ætla að bíða með að setja handbolta í hendur stúlkunnar. „Ég ætla að gefa henni tækifæri til þess að ákveða sig sjálf hvað hún tekur sér fyrir hendur,“ sagði hann í léttum dúr.

Ragnar játar því að það sé erfitt að vera fjarverandi á tíma sem þessum. „Jú, vissulega. Ég vildi helst vera á tveimur stöðum í einu en það er víst ekki hægt. Ég neita því ekki að það getur verið erfitt að einbeita sér þessa dagana.“

Ragnar og fjölskylda hans mun svo flytja til suðurhluta Frakklands en hann samdi við Nimes nú um áramótin til þriggja ára. „Það verður spennandi að búa í þessum hluta Frakklands. Ég hef prófað að búa í norðurhluta Frakklands í nokkur ár og nú París. Það er gott að geta nýtt handboltann til að spila í sterkri deild og upplifa nýja og spennandi hluti.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×