Lífið

Breyttist í litla konu

Mjöll Hólm.
Mjöll Hólm.
„Ég átti mjög skemmtilegan dag," segir Mjöll Hólm söngkona þegar hún rifjar upp fermingardaginn. „Ég fermdist reyndar ári á undan heldur en venja er, þar sem mamma ákvað að sameina fermingu okkar systranna. Hún var nefnilega einstæð níu barna móðir og vildi með þessu móti spara pening."

Að sögn Mjallar hafði móðir hennar upphaflega reynt að fá eldri systur hennar til að fermast ári seinna. Þar sem hún reyndist ekki tilbúin til samningaviðræðna, var Mjöll þá spurð hvort hún gæti hugsað sér að fermast einu ári fyrr. Sú stutta var ekki lengi að hugsa sig um og sló til þar sem hún vildi ólm komast í fullorðinna manna tölu.

„Ég átti samt ekki von á því að fermingunni fylgdu jafn mikil viðbrigði og raun bar vitni," segir Mjöll. „Í þá daga þótti nefnilega eðlilegt að fermdar stúlkur klæddust óttalegum kerlingarfatnaði eins og þá var mikið í tísku, þannig að ég vissi ekki fyrr en ég var allt í einu komin í hryllilega hallærislegan kjól og skó í stíl. Svo var ég send í lagningu, sem kórónaði allt saman, og var allt í einu orðin að lítilli konu." Hún hlær við tilhugsunina.

Mjöll segir fermingarveisluna hafa heppnast vel. Móðir hennar hélt veglegt kökuboð þar sem fullt var út af dyrum af vinkonum þeirra systra.

„Dagurinn var mjög góður. Ég verð samt að viðurkenna að mér leið hálfundarlega. Sérstaklega þegar ég fór í skólann daginn eftir vitandi að hinir krakkarnir væru ekki búnir að fermast. Ætli þeim hafi ekki fundist jafn skrítið að fá þessa litlu konu til baka.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.