Tónlist

Tónleikar samfélags svefnherbergjanna

Tónlistarmaðurinn Ben Frost
Tónlistarmaðurinn Ben Frost

Útgáfan sem kennir sig við Bed­room Community stendur fyrir tónleikum í Fríkirkjunni í Reykjavík í kvöld.

ram koma Ben Frost, Nico Muhly og Valgeir Sigurðsson sem allir flytja eigin verk ásamt hljómsveitum sínum. Tónleikarnir eru forsmekkur að tónleikaferð tónlistarmannanna til Belgíu og Hollands þar sem þeir munu leika á Domino og Motel Mozaïque tónlistarhátíðunum sem þykja í farar­broddi í kynningu á framsækinni tónlist. Útgáfunni var boðið að taka þátt í þessum hátíðum eftir að útsendari sá tónleikakvöld hennar á Iceland Airwaves í fyrra.

Bedroom Community er ný íslensk hljómplötuútgáfa sem stofnuð var af upptökustjóranum Valgeiri Sigurðssyni sem þekktur er af störfum sínum í hljóðverinu Gróðurhúsinu. Bedroom Community hefur á sínum stutta tíma tryggt sér öfluga dreifingu víðast hvar í Evrópu, Bandaríkjunum og í Japan og leitast við að gefa út fjölbreytta tónlist.

 

Fyrsta útgáfan var platan Speaks Volumes með hinum bandaríska Nico Muhly, en hún inniheldur kammertónlist sem færð er í nýstárlegan búning. Nico flutti nýverið verk af henni fyrir troðfullu húsi í Carnegie Hall í New York.

Önnur plata útgáfunnar kom út í mars en þar er að verki Ástralinn Ben Frost, sem búsettur hefur verið á Íslandi undanfarin misseri, með plötuna Theory of Machines. Platan hefur hlotið einróma lof gagnrýnenda bæði hér heima sem erlendis sem hafa keppst við að hlaða verkið lofi. Ben beitir helst gítarnum fyrir sig í tónsmíðum sínum en ljær honum oftar en ekki nýstárlegan blæ með notkun tölva og tóla svo að útkoman verður oft sinfónísk og á köflum ofsafengin.

Framundan er útgáfa á plötu Valgeirs Sigurðssonar, Ekvílibríum, í sumar. Valgeir notast jafnt við lífrænan sem rafrænan efnivið og naut hann að auki fulltingis ýmissa samstarfsmanna sinna um árin, þar á meðal ljúfsárrar söng­raddar tónlistarmannsins Bonnie Prince Billy.

Tónleikarnir í Fríkirkjunni hefjast kl. 20.30.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×