Fréttamat 19. apríl 2007 05:45 Líf dýra eru misdýrmæt. Í fínu lagi er að slátra rottum og mávum miskunnarlaust, en allt yrði vitlaust ef eitrað væri fyrir veluppöldum kettlingum eða verðlaunahundar skotnir á færi. Hestur sem finnst soltinn í bás kallar á sterk viðbrögð samfélagsins en hrekkjusvíni sem tekst að murka lífið úr villtum minki við tjörnina er hampað sem hetju. Við troðum okkur út af gómsætu kjöti án þess að pæla í því að einu sinni var það hrínandi, baulandi og jarmandi, en fáum tárin í augun þegar Lassie fótbrotnar í bíó. Svona er tvískinnungurinn algjör og ekkert í því að gera nema gerast grænmetisæta og góðmenni - en hver nennir því? Að sama skapi virðast mannslíf misdýrmæt. Að minnsta kosti sé miðað við fréttirnar í sjónvarpinu, en þær eiga sem kunnugt er að sýna okkur lífið eins og það er. Á hverjum degi eru sprengdir upp svo og svo margir Írakar. Þetta er síendurtekin frétt og búin að dynja á okkur lengi. Nýjustu fréttir um fallna hörfa lengra og lengra inn í fréttatímana, enda allir orðnir hundleiðir á þessu. Á mánudaginn skaut brjálaður maður 32 í amerískum háskóla. Þetta kallaði á vandaðan og nákvæman fréttaflutning og auðvitað var þetta fyrsta frétt. Þetta var náttúrlega óvæntari og ferskari dauðafrétt en þessar endalausu frá Írak. Í apríl hafa nú þegar um 700 íraskir borgarar verið drepnir. Það er svipað og ein Bolungarvík. Á sunnudaginn voru til dæmis 35 Írakar drepnir og mörgum sinnum fleiri særðust. Á einum stað hafði verið komið fyrir sprengjum í tveimur bílum og sprakk seinni sprengjan þegar björgunarmenn voru að hlúa að þeim sem lentu í fyrri sprengingunni. Þessi daglegi skammtur af viðbjóði var tíunda frétt sjöfrétta RÚV, langt á eftir frétt af gömlu eggjabúi í Vestmannaeyjum sem eyðilagðist í eldsvoða. Látnu Írakarnir þóttu ekki nógu merkilegir til að vera með í upptalningunni í lok fréttatímans. Þar var hins vegar sú stórfrétt höfð með að Hong Kong-búar hafa fengið tvær pöndur að gjöf frá dýragarði í Peking. Kannski er þetta skiljanlegt fréttamat. Gömul eggjabú brenna náttúrlega ekki á hverjum degi í Vestmannaeyjum og pöndurnar eru auðvitað í útrýmingarhættu - bara 3.000 stykki eftir. Það eru hins vegar enn til rúmlega 26 milljón Írakar, þótt þeim fari fækkandi. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Dr. Gunni Mest lesið RÚV og litla vandamálið Ásgeir Sigurðsson Skoðun ESB aðild eða fylki í USA, eða bara gamla Ísland og blessuð krónan? Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun Það tapa allir á orkuskortinum Guðríður Eldey Arnardóttir Skoðun Takk Björgvin Njáll, eða þannig Ólafur Þór Ólafsson Skoðun Sertral eða sálfræðimeðferð Hugrún Sigurjónsdóttir Skoðun Heilbrigðiskerfi framtíðarinnar Victor Guðmundsson Skoðun Aðför að réttindum verkafólks Aðalsteinn Árni Baldursson Skoðun Er sjávarútvegur einkamál kvótakónga? Finnbjörn A. Hermannsson Skoðun Orkuverð og sæstrengir Anna Sofía Kristjánsdóttir Skoðun Ísland er ekki stjórntækt með verðtryggingu? Örn Karlsson Skoðun
Líf dýra eru misdýrmæt. Í fínu lagi er að slátra rottum og mávum miskunnarlaust, en allt yrði vitlaust ef eitrað væri fyrir veluppöldum kettlingum eða verðlaunahundar skotnir á færi. Hestur sem finnst soltinn í bás kallar á sterk viðbrögð samfélagsins en hrekkjusvíni sem tekst að murka lífið úr villtum minki við tjörnina er hampað sem hetju. Við troðum okkur út af gómsætu kjöti án þess að pæla í því að einu sinni var það hrínandi, baulandi og jarmandi, en fáum tárin í augun þegar Lassie fótbrotnar í bíó. Svona er tvískinnungurinn algjör og ekkert í því að gera nema gerast grænmetisæta og góðmenni - en hver nennir því? Að sama skapi virðast mannslíf misdýrmæt. Að minnsta kosti sé miðað við fréttirnar í sjónvarpinu, en þær eiga sem kunnugt er að sýna okkur lífið eins og það er. Á hverjum degi eru sprengdir upp svo og svo margir Írakar. Þetta er síendurtekin frétt og búin að dynja á okkur lengi. Nýjustu fréttir um fallna hörfa lengra og lengra inn í fréttatímana, enda allir orðnir hundleiðir á þessu. Á mánudaginn skaut brjálaður maður 32 í amerískum háskóla. Þetta kallaði á vandaðan og nákvæman fréttaflutning og auðvitað var þetta fyrsta frétt. Þetta var náttúrlega óvæntari og ferskari dauðafrétt en þessar endalausu frá Írak. Í apríl hafa nú þegar um 700 íraskir borgarar verið drepnir. Það er svipað og ein Bolungarvík. Á sunnudaginn voru til dæmis 35 Írakar drepnir og mörgum sinnum fleiri særðust. Á einum stað hafði verið komið fyrir sprengjum í tveimur bílum og sprakk seinni sprengjan þegar björgunarmenn voru að hlúa að þeim sem lentu í fyrri sprengingunni. Þessi daglegi skammtur af viðbjóði var tíunda frétt sjöfrétta RÚV, langt á eftir frétt af gömlu eggjabúi í Vestmannaeyjum sem eyðilagðist í eldsvoða. Látnu Írakarnir þóttu ekki nógu merkilegir til að vera með í upptalningunni í lok fréttatímans. Þar var hins vegar sú stórfrétt höfð með að Hong Kong-búar hafa fengið tvær pöndur að gjöf frá dýragarði í Peking. Kannski er þetta skiljanlegt fréttamat. Gömul eggjabú brenna náttúrlega ekki á hverjum degi í Vestmannaeyjum og pöndurnar eru auðvitað í útrýmingarhættu - bara 3.000 stykki eftir. Það eru hins vegar enn til rúmlega 26 milljón Írakar, þótt þeim fari fækkandi.