Fastir pennar

Þróun og ábyrgð

Það er ósmátt áfall fyrir lítið byggðarlag þegar burðar­ás atvinnulífsins leggur upp laupana. Í húfi er ekki aðeins atvinna fjölda fólks. Eignir þess eru einnig í uppnámi. Lokun sjávarútvegsfyrirtækisins Kambs á Flateyri er að því leyti meiri tíðindi en önnur af svipuðum toga.

Eðlilegt er að spurt sé um orsakir og hvað sé til ráða. Margir hafa litið á auðlindaskatt sem mesta réttlætismál þjóðarinnar. Svonefnt auðlindagjald var ákveðið fyrir fimm árum. Í reynd er þó öllu heldur um að ræða eins konar vísitölutekjuskatt á trillukarla og stærri útgerðir óháð einstaklingsbundinni afkomu.

Fyrir fáum vikum var stjórnarslitum hótað ef slík skattheimta yrði ekki fest í stjórnarskrá fyrir kosningar. Athyglisvert er að engir formælendur skattheimtu af þessu tagi hafa sagt upphátt að réttlætinu á Flateyri væri betur borgið nú með hærri réttlætisskatti. Þvert á móti sýnir þetta dæmi að réttlætisskatturinn dæmir þá fyrst úr leik sem eru veikastir fyrir.

Markaðslögmál fiskveiðistjórnunarkerfisins hafa gert það að verkum að á Flateyri hafa menn getað veitt og unnið þrefalt fleiri tonn af fiski en eigin aflaheimildir segja til um. Hitt er annað að fyrirtæki sem byggja í svo ríkum mæli á leiguaflaheimildum eru veik fyrir þegar gefur á í rekstrinum.

Hátt verð á leiguaflaheimildum getur ráðist bæði af þeim takmörkunum sem eru á framsali og því að of mörg skip keppa um hituna. Það er vísbending um að flotinn sé stærri en afrakstursgeta fiskistofnanna segir til um. Sá vandi verður ekki leystur með pólitískri tilfærslu á aflaheimildum. Þeir stjórnmálamenn sem þannig tala eru beinlínis að blekkja.

Háir vextir og hátt gengi krónunnar sverfa nú að þeirri útflutningsstarfsemi sem hefur veikastar rekstrarforsendur. Það eru þær staðreyndir sem horfast verður í augu við. Að því er fiskvinnsluna varðar má heldur ekki gleyma því að hún er að keppa við framleiðslu á meginlandi Evrópu sem notið hefur mikilla styrkja bæði heimalanda og Evrópusambandsins.

Frá árinu 1995 hefur sjómönnum fækkað um 38% og fiskvinnslufólki um 55%. Fleiri starfa nú í landbúnaði en við fiskveiðar. Þessar tölur eru tákn um gífurlega snögg umskipti, hagræðingu og framleiðniaukningu. Þær breytingar voru forsenda þeirrar efnahagslegu endurreisnar sem hófst á tíunda áratugnum. Sjávarútvegurinn var þannig dráttarklár þeirra breytinga sem skópu efnahagsvelsæld síðustu ára.

Eigi íslenskur sjávarútvegur að standast samkeppni á erlendum mörkuðum er ljóst að á komandi árum þurfa að verða þar meiri tækniframfarir og aukin hagræðing. Þessi umskipti í sjávarútvegi hafa vissulega haft margvísleg áhrif. Fyrirtækin eru nú færri, stærri og fjárhagslega öflugri. Byggðarlögin sem þau starfa í standa þar af leiðandi á sterkari grunni.

Á hinn bóginn standa mörg minni fyrirtæki og minni útgerðarstaðir höllum fæti. Svarið við því er ekki að snúa við til gamalla stjórnunarhátta. Það veikir alla. Eina færa leiðin til þess að mæta þessari stöðu er að örva fjölbreytni í atvinnustarfseminni. Að vísu er nýsköpun ekkert töfraorð sem draga má upp úr hatti. En það er eini vegur nútíma byggðaþróunar. Samfélagið sem hagnast hefur á þróuninni ber skyldur í þeim efnum.






×