Þeir sem hafa átt og fjárfest í hlutabréfum á undanförum árum getað ekki kvartað yfir árangrinum. Frá ársbyrjun 2001 hefur Úrvalsvísitalan hækkað um 519 prósent. Á rúmum tveimur árum hefur vísitalan skilað um eitt hundrað prósenta ávöxtun og yfir fimmtíu prósenta ávöxtun frá því í byrjun ágúst á síðasta ári þegar vísitalan fór í lægsta punkt eftir umrótið á innlendum fjármálamarkaði.
Fjármálafyrirtæki og rekstrarfélög hafa drifið hækkanir á innlendum hlutabréfamarkaði áfram á þessum tíma og aukið markaðsvirði sitt margfalt umfram gengishækkanir.
Sum félög hafa hækkað langt umfram Úrvalsvísitöluna á þessu tímabili. Hlutabréf í Bakkavör hafa, án arðgreiðslna, hækkað um 1.178 prósent og bréf í Landsbankanum um 958 prósent.
Markaðsvirði alls hlutafjár í Kauphöll Íslands nam 397 milljörðum króna í árslok 2000 en stóð í 3.482 milljörðum í lok maí, sem er þreföld áætluð verg landsframleiðsla á síðasta ári. Nú er svo komið að þrjú stærstu fyrirtækin í Kauphöllinni; Kaupþing, Landsbankinn og Glitnir, eru öll metinn á yfir fjögur hundruð milljarða og Exista, sem er fjórða verðmætasta fyrirtækið, nálgast óðfluga 400 milljarða múrinn. Ljóst er að vægi fjármálafyrirtækja á hlutabréfamarkaði mun aukast enn frekar á næstu mánuðum. Verðþróun einstakra fyrirtækja úr þeim geira mun ráða miklu um þróun Úrvalsvísitölunnar á komandi misserum.