Viðskipti erlent

Airbus senuþjófur á flugvélasýningu

Lois Gallo, forstjóri Airbus, sýnir Francois Fillon, forsætisráðherra Frakklands, líkan af A350 farþegaflugvél frá Airbus, sem er til sýnis á sýningunni í Le Bouget.
Lois Gallo, forstjóri Airbus, sýnir Francois Fillon, forsætisráðherra Frakklands, líkan af A350 farþegaflugvél frá Airbus, sem er til sýnis á sýningunni í Le Bouget. MYND/AFP

Frönsku flugvélasmiðirnir hjá Airbus þykja hafa stolið senunni á fyrsta degi flugvélasýningarinnar í Le Bourget í Frakklandi á mánudag en fyrirtækið greindi þar frá nokkrum stórum samningum. Heildarverðmæti samninganna fram til þessa hljóðar upp á rúma 45 milljarða bandaríkjadala, jafnvirði rúmra 2.800 milljarða íslenskra króna.

Stærstu pantanirnar voru upp á tæplega 200 flugvélar af öllum stærðum og gerðum frá Airbus auk þess sem eldri pantanir voru áréttaðar og sumar hverjar auknar. Stærstu samningarnir voru gerðir við US Airways, sem pantaði 92 flugvélar og Qatar Airways, sem tekur 86 vélar. Aðrir samningar voru minni. Á meðal viðskiptanna er sala á 11 A380 risaþotum, sem fara á markað í haust eftir afar erfiða og kostnaðarsama meðgöngu í rúm tvö ár.

Salan á Airbusrisaþotunum hefur gengið betur en á horfðist í fyrstu. Stærsti kaupandi á þessari gerð þota er Emirates, sem með viðskiptunum nú hefur samtals pantað 43 A380-þotur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×