Bíó og sjónvarp

Leikverk sem fólk vill sjá

Bjartur Guðmundsson og Þorbjörg Helga Þorgilsdóttir. Leikhópurinn OB spjallar við ýmsa hópa í samfélaginu í sumar og vinnur áhugaverð leikverk út frá því.
Bjartur Guðmundsson og Þorbjörg Helga Þorgilsdóttir. Leikhópurinn OB spjallar við ýmsa hópa í samfélaginu í sumar og vinnur áhugaverð leikverk út frá því.

Tveir leiklistarnemar úr Listaháskóla Íslands skipa OB-leikhópinn sem er einn af þeim hópum sem standa fyrir Skapandi sumarstarfi í sumar. Það er Hitt húsið sem stendur á bakvið hópana eins og fyrri sumur.

„Í sumar munum við fara á milli ólíkra hópa og spjalla við þá í viku í senn,“ segir Þorbjörg Helga Þorgilsdóttir en með henni í OB-leikhópnum er Bjartur Guðmundsson. „Við munum til dæmis heimsækja elliheimili og í þessari viku höfum við verið að spjalla við krakka í unglingavinnunni. Við vinnum svo verk út frá heimsóknunum í von um að takast að gera verk sem fólk vill sjá,“ segir Þorbjörg.

„Hugmyndin að þessu verkefni á sér langa sögu. Okkur langaði að vinna þetta í stærri mynd en vorum auðvitað mjög ánægð að fá að starfa við þetta í sumar. Þetta er afskaplega skemmtilegt og gefandi og við þökkum öllum viðmælendum okkar fyrir spjallið.“ Aðspurð um fleiri hópa sem þau munu heimsækja segir hún: „Það er ekki alveg ákveðið en okkur langar mjög mikið að ræða við innflytjendur og heyra hvað þeir hafa að segja. Þetta kemur svo allt í ljós þegar líður á sumarið.“

Hóparnir í Skapandi sumarstörfum sýna vinnu sína og verk á hverjum föstudegi í sumar. Nánari upplýsingar má finna á vefsíðunni www.hitthusid.is.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×