Bíó og sjónvarp

Dagurinn sem þú hittir Guð

Evan Baxter virðist ekki ná að fylgja eftir gríðarlegri hylli Bruce Nolan fyrir fjórum árum.
Evan Baxter virðist ekki ná að fylgja eftir gríðarlegri hylli Bruce Nolan fyrir fjórum árum.

Kvikmyndin Evan Almighty var frumsýnd í gær en hún er sjálfstætt framhald Bruce Almighty sem sló í gegn fyrir fjórum árum. Þá fékk Jim Carrey að vera Guð en að þessu sinni er það Steve Carell sem fær skemmtilegt hlutverk hjá almættinu.



Evan Baxter var fréttamaðurinn sem fékk að finna fyrir óþrjótandi valdi hins hégómagjarna Bruce. En margt hefur breyst síðan þá, Evan er hættur í fjölmiðlum og hefur verið kosinn á þing í Washington. Hann flytur því með alla fjölskyldu sína til höfuðborgarinnar og hlakkar til að geta þjónað bæði landi og þjóð. En þá kemur til kasta Guðs sem hefur allt annað í hyggju. Hann nálgast Evan og biður þingmanninn um að byggja örk, svipaða og Nói gerði forðum daga. Enda sé mikið flóð í vændum og því þurfi að bjarga mannkyninu frá glötun. Eða að minnsta kosti íbúum höfuðborgarinnar.



Eflaust væri hægt að halda langar ræður um hvað höfundurinn Steve Oedekerk hefur haft í huga þegar honum datt í hug að láta manninn vera Guð. Og svo að hann yrði nánasti samstarfsmaður hans í nútímanum. En það er eflaust engin tilviljun að Nói skuli koma til höfuðborgarinnar og eigi að smíða örk til að bjarga mannslífum og dýrum. Stjórnvöld þar í borg hafa verið harðlega gagnrýnd bæði innanlands og erlendis og þá hefur forsetinn George W. Bush verið duglegur við afla sér óvina og nýtur sífellt meiri óvinsælda heima fyrir en hann er sem kunnugt er mjög trúaður.

Kristnir trúarflokkar hafa á hinn bóginn tekið Evan Almighty opnum örmum en bókstafstrúarmenn eru áhrifamikill minnihlutahópur þar í landi. Þeir telja myndina vel til þess fólgna að skerpa aðeins á trúnni og kristnu líferni.



En gagnrýnendur hafa ekki verið hrifnir af þessu nýjasta útspili Steves Carell og Oedekerks og dómar um myndina eru ekki í samræmi við væntingar og vonir framleiðendanna. Carell hefur hingað til verið talinn ein skærasta stjarna bandarísk gamanleiks og bera vinsældir bandarísku útgáfunnar The Office þess glögg merki. Að ógleymdri Óskarsverðlaunamyndinni Little Miss Sunshine. Evan Almighty átti í reynd að steypa Jim Carrey endanlega af stóli sem fyndnasta manni Bandaríkjanna.



Helstu bíórýnar Bandaríkjanna hafa jafnvel margir gengið svo langt segja að ef Evan Almighty væri ekki svona meinlaus þá kæmi hún sterklega til greina sem versta mynd sumarsins. Handritið sé því miður veikt og mistakist að nýta sér alla þær Biblíutilvísanir sem hefði verið hægt að útfæra listilega. Washington hafi verið miðdepill pólitískra mistaka undanfarin ár og nægi þar að minnast á Íraksstríðið umdeilda og aðgerðarleysi stjórnvalda þegar fellibylurinn Katrína gekk yfir New Orleans og orsakaði ein mestu flóð í sögu Bandaríkjanna. Þetta hefði myndin getað nýtt sér með sögunni af Nóa sem forðaði hinum sanntrúuðu frá glötun eftir að mannkynið hafði reitt Guð sjálfan til reiði.



Evan Almigthy virðist því ekki vera sá hápunktur sem vonast hafði verið til fyrir feril Carells en stjarna hans ætti þó að komast ólöskuð frá borði. En toppnum verður eflaust náð fyrr heldur en síðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.