Stórleikur verður á Valbjarnarvelli klukkan 19.15 í kvöld þegar topplið Vals og KR mætast í Landsbankadeild kvenna. Eftir sex umferðir hafa félögin unnið alla leiki sína og er því um algjöran lykilleik að ræða fyrir framvindu deildarinnar.
Katrín Ómarsdóttir, leikmaður KR, sagði við Fréttablaðið í vikunni að Vesturbæjarliðið yrði að vinna alla leiki sína í deildinni og innbyrðisviðureignirnar við Val til að verða meistari. Elísabet Gunnarsdóttir, þjálfari Vals, sagðist í gær hlakka mjög til leiksins og að öll einbeiting Valsstúlkna væri á orrustunni í kvöld. -