Bíó og sjónvarp

Krakkarnir í Hogwarts

Myndin Harry Potter og Fönixreglan er frumsýnd í íslenskum kvikmyndahúsum í dag. Þetta er fimmta myndin um galdrastrákinn og skólafélaga hans en hinar fjórar hafa allar notið mikilla vinsælda.
Myndin Harry Potter og Fönixreglan er frumsýnd í íslenskum kvikmyndahúsum í dag. Þetta er fimmta myndin um galdrastrákinn og skólafélaga hans en hinar fjórar hafa allar notið mikilla vinsælda.

Fimmta kvikmyndin um Harry Potter er frumsýnd í íslenskum kvikmyndahúsum í dag. Af því tilefni fór Birgir Örn Steinarsson í heimsókn í Hogwarts-skóla og ræddi við þrjá af nemendunum.

Sviðsljósið í Harry Potter-myndunum hefur fram til þessa nær eingöngu beinst að aðalhetjunum þremur, þeim Harry Potter (leikinn af Daniel Radcliffe), Ron Weasley (Rupert Grint) og Hermione Granger (Emma Watson) en þau eru ekki einu nemendurnir sem eru að hefja enn einn veturinn í Hogwarts-skólanum.



Tveir þeirra eru flestum áhugamönnum um ævintýri Harry vel kunnir. Það eru hin litla og brothætta yngri systir Ron, Ginny Weasley (Bonnie Wright), og hrakfallabálkurinn Neville Longbottom (Matthew Lewis) en þau hafa birst í öllum myndum og bókum um hetjuna til þessa. Nýlega bættist svo í hópinn fegurðardísin Cho Chang (Katie Leung) sem Potter sér ekki sólina fyrir.

Dreymdi aldrei um að verða leikkona
Nýliðinn Katie Leung fer með hlutverk Cho Chang sem kynnt er til sögunnar í myndinni. Hún fær að kyssa Harry Potter, fyrst allra stúlkna.

Bonnie Wright hefur þroskast heilmikið frá því að hún komst í klandur í Leyniklefanum eftir að hún fann leynilega dagbók Voldemorts. Í dag er hún 16 ára unglingsstúlka og af málfari hennar og hegðun grunar mig að hún sé vön afar ólíkum fjölskylduhögum en þekkjast á Weasley-heimilinu. Þrátt fyrir að hafa tekið þátt í öllum myndunum, segist hún ekki enn vön því að vera fyrir framan myndavélarnar.



„Ég held að ég geti aldrei algjörlega vanist því að sjá sjálfa mig á bíótjaldinu. Með hverri mynd höfum við líka þroskast og vaxið þannig að maður sér alltaf nýja útgáfu af sjálfum sér. Mér finnst líka alveg ótrúlega erfitt að átta mig á því hversu margir eru að fylgjast með þessu, og hversu margir aðdáendur vita allt um bækurnar og persónurnar sem við erum að leika. Þegar maður mætir á frumsýningarnar fær maður alltaf svolítið sjokk að sjá alla þessa öskrandi aðdáendur.“

Þekkir fólk þig út á götu?



„Já, en þetta virðist alltaf gerast þegar maður á minnst von á því. Og yfirleitt þegar maður er á einhverjum stað sem maður hefði aldrei haldið að þetta kæmi fyrir. Maður reynir bara að vera jákvæður og vingjarnlegur.“



Þannig að þér finnst gaman að gefa eiginhandaráritanir?

„Já, ég hef ekkert á móti því. Það er bara hluti af þessu.“

En ef að strákar eru að spyrja þig um símanúmer?

„Já, það virðist vera þannig að það að leika í kvikmyndum auki þannig áhuga líka,“ segir hún en fer svolítið hjá sér. „Mér finnst alltaf svolítið skrítið þegar svoleiðis gerist. En ef þeir eru sætir, slæ ég alveg til.“

Bonnie segist ekki vera viss um að hún muni halda áfram í kvikmyndaleik eftir að seríunni um Harry Potter lýkur. Hún spilar á saxafón og gítar auk þess sem hún hefur mikinn áhuga á hönnun.



„Þegar ég var yngri dreymdi mig aldrei um að verða kvikmynda­leikkona. En eftir þá reynslu sem ég hef öðlast get ég alveg séð mig vinna að kvikmyndum. Þó ekkert endilega að því að leika, bara að taka þátt í því að búa þær til. Mig langar í listaháskóla, þannig að kannski enda ég í listadeildinni eða sem búningahönnuður?“

Að kyssa Harry Potter

Nýliðinn í Hogwarts-hópnum heitir Katie Leung. Fönguleg tvítug stúlka sem leikur Cho Chang, stúlkuna sem Harry Potter heldur ekki vatni yfir.

„Þið megið búast við kossum,“ svarar hún um hæl aðspurð um innihald nýju myndarinnar. „En það er líka mikið um bardaga og æfingar. Þið megið líka búast við því að kynnast nýjum hryllilegum kennara sem heitir Dolores Umbridge. Hún er hræðileg. Þegar ég las bókina hataði ég hana og ég hlakka til að sjá hvernig hún verður í myndinni.“



Katie fékk hlutverkið eftir áheyrnarprufur í London fyrir um fjórum árum en hafði þá enga reynslu í leiklist. Í dag er hún eina stelpan sem hefur fengið að kyssa Harry Potter, a.m.k. fyrir framan myndavélarnar. „Ég var rosalega stressuð, en þetta gekk samt vel fyrir sig, og ég skemmti mér konunglega við tökurnar á þessu atriði. Ég var ekki alveg að telja hversu oft við þurftum að kyssast, en það var bókað ekki þrjátíu sinnum, eins og stóð í slúðurblöðunum hérna. Líklegra nær tuttugu sinnum, samt heill hellingur.“



Æfðir þú þig áður með Daniel?

„Nei, við fengum ekki tækifæri til þess. Við vorum bæði frekar stressuð. Við ræddum þetta lítillega áður en þetta byrjaði. Hann spurði mig hvort ég hefði mætt með Smint. Það var nú bara til þess að slaka spennuna á milli okkar örlítið áður en við lögðum út í þetta.“

Og er hann góður kyssari?



„Já!“ svarar hún, og þar hafið þið það. Katie er komin með umboðsmann og ætlar að reyna að fá frekari hlutverk í kvikmyndum.

Longbottom verður hetja

Það kemur mikið á óvart hversu ólíkur leikarinn Matthew Lewis er persónu sinni Neville Longbottom. Ekki bara í fari heldur útliti. Pilturinn er hár, grannur og virðist vera nokkuð stæltur. Hann var líka með vísi að myndalegu skeggi þegar ég hitti hann. Týpískur 19 ára breskur fótboltaunnandi sem hefur mest gaman af því að skreppa á pöbbinn með vinum sínum og syngja með lögum Oasis. Hann er líka hæstánægður með þróun persónu sinnar, en í nýjustu myndinni sýnir Neville Longbottom á sér hlið sem ekki hefur sést áður á hvíta tjaldinu.



„Hann breytist úr því að vera feiminn og klaufskur drengur í algjöran baráttumann. Hann er meira að segja kannski örlítið kærulaus þegar kemur að því að fara varlega í baráttu upp á líf og dauða. Hann berst enn fyrir hinu góða. Ég held að þetta verði frábær mynd því það er mikið um tilfinningalegt drama í henni í bland við hasar. Samt er nóg af léttu spaugi eins og verður að vera í Harry Potter mynd. Það er allt í þessari mynd, meira að segja bardagi á milli Dumbledore og Voldemort!“



Er ekki búið að vera skrítið að vaxa úr grasi sem nemandi Hogwarts-skóla?



„Jú, það verður að viðurkennast. Ef þú hefðir sagt mér fyrir sex árum síðan að ég ætti eftir að sitja hér að gefa viðtöl við blöð frá öllum löndum heims hefði ég aldrei trúað því. Ég get ekki ímyndað mér hvernig líf mitt hefði verið án þess að gera þetta, því þetta er búinn að vera svo stórkostlegur tími. Allt sem maður hefur séð og fengið að upplifa. Ég held bara að líf mitt væri hundleiðinlegt ef ég léki ekki í þessum myndum.“

Heldur fólk að þú sért svipaður persónu þinni, þegar það hittir þig fyrst?

„Já, stundum. Ég er reyndar mjög gleyminn og klaufskur en vonandi eitthvað svalari en Neville. Ég hefði sagt áður að ég væri mun hugrakkari en hann, en eftir þessa nýju mynd get ég varla sagt það lengur.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.