Bíó og sjónvarp

Yfirmaður óskast

Kvikmyndir Heimildarmyndin Klaustrið er ein þeirra norrænu heimildarmynda sem hafa farið víða með tilstyrk Filmkontakt Nord.
Kvikmyndir Heimildarmyndin Klaustrið er ein þeirra norrænu heimildarmynda sem hafa farið víða með tilstyrk Filmkontakt Nord.

Mannaskipti verða hjá Nordisk Filmkontakt um næstu áramót þegar ráða á nýjan framkvæmdastjóra samtakanna. Karolina Lidin sem hefur gegnt starfinu um árabil hættir og rennur umsóknarfrestur fyrir starfið út 17. ágúst. Karolina er mjög virt í heimi kynningar, dreifingar og fjármögnunar á heimildar- og stuttmyndum og hefur staðið sig afar vel í starfi.

Filmkontakt Nord (FkN) var sett á stofn 1991 af sjálfstæðum kvikmyndaframleiðendum á Norðurlöndum til að kynna framleiðslu þeirra um víða veröld. Samtökin bjóða upp á margs konar aðstoð við sölu og kynningu á heimildar- og stuttmyndum. Þau standa fyrir Nordisk Panorama sem fer milli fimm borga á Norðurlöndum. Á hátíðinni er markaður og fjármögnunarmessa. Höfuðstöðvarnar eru í Kaupmannahöfn og þar er rekið stórt safn heimildar- og stuttmynda, um 4.000 titlar, sem verið er að gera aðgengilegt í stafrænu formi.

Nýr framkvæmdastjóri Nordisk Filmkontakt ræður þriggja manna starfsliði og ber ábyrgð gagnvart norrænni stjórn. Margrét Jónasdóttir fulltrúi í stjórninni segir: „Hann þarf að vera vel verseraður í framleiðslu og kynningu á heimildar- og stuttmyndum, hafa víðtæka reynslu í alþjóðlegum samskiptum og búa yfir góðu tengsla­neti á því sviði. Hann verður að ráða yfir kunnáttu á Norðurlandamálum og ensku og vera fullfær um að tjá sig á þeim málum í ræðu og riti. Hann verður að vera leiðandi í hópstarfi og leita nýjunga í kynningu og fjármögnun verkefna Nordisk Filmkontakt." Kaup og kjör miðast við danska vinnumarkaðinn en stofnunin starfar samkvæmt dönsku lagaumhverfi. Ráðið verður í starfið til fimm ára og er samningurinn með endurráðningarákvæðum ef ástæða er talin til.

Umsóknum skal skilað til John Webster, formanns, c/o Filmkontakt Nord, Vognmagergade 10, DK-1120 Copenhagen K. eigi síðar en 17. ágúst. Boðað er til viðtala valinna umsækjenda 14. september. Umsókn skal geyma ferilskrá og yfirlýsingu um kosti umsækjanda og markmið. Meðmæli ábyrgðarmanna í framleiðslu fyrir kvikmyndir og sjónvarp eru vel þegin. Frekari upplýsingar gefur John Webster í +358-500-615345; netfang: websters@dlc.fi og karolina@filmkontakt.com. Vefsvæði Nordisk Filmkontakt er á www.filmkontakt.com.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×