Menning

„…leiddist út í þetta aftur“

Kjartan Ólason við verk sín.
Kjartan Ólason við verk sín.

Í Ásmundarsal við Freyjugötu opnar Listasafn ASÍ sýningu í dag á verkum tveggja myndlistarmanna, Kjartans Ólasonar og Hild­ar Bjarnadóttur. Sýn­ing­­in bætist í flóð mynd­listarsýninga sem verða opnaðar þessa helgi.

Báðir hafa listamennirnir verið við myndlist um langt skeið: Hildur víða sýnt undanfarið en Kjartan hefur ekki haldið sýningu um langt árabil.

„Ég hætti þessu í ein sjö, átta ár," sagði Kjartan. Hann hafði þá sýnt verk sín oft og víða: stórar flatar­myndir með hráu og áköfu yfirbragði þar sem líkamar liðu í rýminu. Málverk hans voru í miklu áliti innan þess hóps sem enn hélt tryggð við málverkið meðan önnur birtingar­form fóru hátt. En hann var ekki ánægður með viðtökur: „Ég sá engan tilgang með þessu. Um alda­mótin fór að tröllríða öllu listalífi einhver viðburðastefna hjá diet-liðinu sem réði og lék menninguna grátt, einkum myndlistina. Þessi viðburða­menning náði hámarki menningar­borgarárið og hefur ekki minnkað síðan."

Kjartan segist hafa látið tilleiðast að setja sýningu sína upp: „Þetta er lítil sýning, nánast stubbar. Ég leiddist út í þetta aftur, fór að teikna, bæði með blýanti og kolum á pappír og beint á plötur. Ég vinn eftir gömlum mælikvörðum, reyni að ná núönsum og fínheitum eins og menn gerðu áður. Svo eru þarna í Ásmundarsal ljósmynd og veggverk, ég veit eiginlega ekki hvað á að kalla það: þetta er einhvers konar hræ undir gleri." Kjartan er fæddur 1955. Hann er menntaður við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og Empire State College í New York.

 

Hildur Bjarnadóttir sýnir tilraunakenndan textíl.

Samvistum við Kjartan í Ás­­mundarsal er Hildur Bjarna­dóttir. Á sýningunni í Listasafni ASÍ sýnir Hildur verk þar sem grunn­hug­myndir myndlistar og hefðir textíl­hand­verks eru til umfjöll­unar. Hún vitnar í málverks­hefðina en er jafn­framt að skoða handverk kvenna á fyrri tímum eins og hún hefur löngum gert áður. Útkoman er verk sem virðast bera keim af naum­hyggju, en hafa víðtæka skír­skotun þegar nánar er gáð.

Hildur útskrifaðist frá Lista­háskóla Íslands árið 1992. Tveimur árum seinna hóf hún nám við Pratt Institute í New York sem hún lauk með MFA 1997. Verk eftir Hildi eru m.a. í eigu Listasafns Íslands og Listasafns Reykjavíkur og hún hefur haldið margar einkasýningar og tekið þátt í samsýningum á Íslandi og í Bandaríkjunum.

Safnið er opið alla daga nema mánudaga frá kl. 13 til 17 og sýningunni lýkur 23. september.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×