Við bjargbrúnina Þorvaldur Gylfason skrifar 13. september 2007 00:01 Hagstjórnarstefna ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans hefur haldizt óbreytt nú í nokkur ár að sögn þeirra sjálfra. Hagstjórnarviðleitni þeirra hvílir á tveim meginforsendum. Ríkisstjórnin hefur í fyrsta lagi kappkostað að halda ríkisbúskapnum í þröngum skilningi nokkurn veginn hallalausum og greiða niður erlendar skuldir ríkisins. Hún hefur einnig stefnt að skattalækkun, eða réttara sagt að minnkandi skattheimtu af síhækkandi skattstofnum. Þetta hefur hvort tveggja gengið eftir að öðru leyti en því, að ríkissjóður taldi sig í fyrra nauðbeygðan til að slá risavaxið lán í útlöndum til að tvöfalda gjaldeyrisforða Seðlabankans og ríflega það. Við þá lántöku jukust erlendar skuldir ríkisins á einu bretti um helminginn af öllum uppgreiðslum erlendra lána, sem ríkissjóður hafði áður innt af hendi. Hlutur ríkisútgjalda í þjóðarbúskapnum hefur aukizt undangengin ár og er nú nálægt meðallagi OECD-landanna, en var áður mun minni. Í annan stað hefur Seðlabankinn fyrir sitt leyti fylgt hávaxtastefnu, sem hefur leitt af sér síhækkandi útláns- og yfirdráttarvexti til að hemja kraumandi verðbólgu og halda gengi krónunnar langt yfir réttu marki.Röng stefnaUm þessa tvíbentu hagstjórnarstefnu er tvennt að segja: hún er röng, og hún hefur mistekizt. Ríkisstjórnin hefði að réttu lagi átt að reka ríkisbúskapinn með myndarlegum afgangi síðustu ár í ljósi þenslunnar í efnahagslífinu og ráðast í skipulagsbreytingar á fjármálum ríkisins. Hún gerði hvorugt. Fjármálaráðuneytið spáir umtalsverðum ríkissjóðshalla strax á næsta ári. Seðlabankinn hefði átt að hemja útlán viðskiptabankanna með því að beita bindiskyldu samkvæmt heimild í lögum og einnig með trúverðugum fortölum. Bankinn gerði hvorugt.Að vísu var þörf fyrir aukin útlán, og bankarnir brugðust við þeirri þörf, en fimmföldun útlána miðað við landsframleiðslu frá 1990 til 2005 keyrði um þverbak. Enda er tómt mál að tala um trúverðugar fortölur um aðhald af hálfu seðlabanka, sem er rekinn eins og lúxushvíldarheimili handa lúnum stjórnmálamönnum.Ríkisstjórnin og Seðlabankinn hafa leitt efnahagslífið út á yztu nöf. Nýjar hagtölur Seðlabankans vitna um hættuna. Í tölum bankans um erlenda stöðu þjóðarbúsins í lok júní 2007 kemur fram, að erlendar skammtímaskuldir þjóðarbúsins (með jöklabréfum) námu þá tíföldum gjaldeyrisforða Seðlabankans - og það þrátt fyrir röska tvöföldun gjaldeyrisforðans í fyrra með risalántöku ríkisins.Hlutfall erlendra skammtímaskulda af gjaldeyrisforðanum má helzt aldrei fara upp fyrir einn eins og allir hagstjórnendur vita, ef þeir eru verki sínu vaxnir. Málið er þetta: þjóð getur aldrei leyft sér að stofna til skammtímaskulda umfram þann gjaldeyri, sem geymdur er í seðlabankanum, því að þá vita erlendir lánardrottnar, að þjóðin getur ekki staðið í skilum á gjalddaga, séu lánin innkölluð með skömmum fyrirvara, og þá hlýtur gengi gjaldmiðilsins að falla og gengi hlutabréfa sömuleiðis.Þetta gerðist í Suðaustur-Asíu 1997. Þar var ríkisbúskapurinn í þokkalegu jafnvægi eins og hér og nú, en einkageirinn hafði ekki sézt fyrir, og því fór sem fór. Það virðist nú æ líklegra, að íslenzkt efnahagslíf sé á sömu leið. Einkageirinn er ekki óbrigðull. Erlend matsfyrirtæki hafa sum varað við þessari hættu, til dæmis Lehman Brothers, eitt helzta fyrirtækið í bransanum. Önnur matsfyrirtæki virðast hafa horft í hina áttina. Matsfyrirtækin vinna fyrir bankana, sem þau meta, og þiggja greiðslur af þeim, svo að þeim er ekki að fullu treystandi til að fjalla hlutlaust um bankana. Þessu verklagi þarf vitaskuld að breyta.Saklausir vegfarendurBankar eru ólíkir flestum öðrum fyrirtækjum að því leyti, að þeir geta varpað vandamálum sínum yfir á saklausa vegfarendur, ef illa gengur. Bankar geta vikið sér undan ábyrgð á eigin gerðum ýmist með auknum vaxtamun (hærri útlánsvöxtum, lægri innlánsvöxtum), nema samkeppni á bankamarkaði loki þeirri leið, eða með því að leita á náðir ríkisins, sem telur sér iðulega skylt að bjarga innlendum bönkum til að forða frekari skaða eða jafnvel kreppu. Af þessum sökum er bankasaga heimsins stráð misráðnum lánveitingum, græðgi, glannafengnu braski og dýrum björgunaraðgerðum á kostnað skattgreiðenda. Slík bjargráð snúast ýmist um bein fjárútlát úr ríkiskassanum til að mylja undir banka, sem riða til falls, eða almennar aðgerðir svo sem aukna lánafyrirgreiðslu seðlabanka handa viðskiptabönkum og vaxtalækkun, sem ýtir undir verðbólgu og gengisfall, og þá fær almenningur að borga brúsann.Við þurfum öflugt fjármálaeftirlit til að fylgjast með bönkunum, og hlutlaust áhættumat að utan. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorvaldur Gylfason Mest lesið Það er allt í lagi að vera þú sjálfur Kári Stefánsson Skoðun Samfélag án Pírata Lenya Rún Taha Karim Skoðun Foreldrar, ömmur og afar þessa lands - áskorun til ykkar! Ragnheiður Stephensen Skoðun Krónan eða evran? Kostir og gallar Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun Þarf ég að flytja úr landi? Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir Skoðun Hver er munurinn á Viðreisn og Samfylkingu? Soffía Svanhvít Árnadóttir Skoðun Bannað að lækna sykursýki II Lukka Pálsdóttir Skoðun Helvítis fokking fokk!! Er ekki nóg komið? Maríanna H. Helgadóttir Skoðun Þegar Skagamenn glöddu lítið hjarta María Rut Kristinsdóttir Skoðun Borgið lausnargjaldið Ólafur Hauksson Skoðun
Hagstjórnarstefna ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans hefur haldizt óbreytt nú í nokkur ár að sögn þeirra sjálfra. Hagstjórnarviðleitni þeirra hvílir á tveim meginforsendum. Ríkisstjórnin hefur í fyrsta lagi kappkostað að halda ríkisbúskapnum í þröngum skilningi nokkurn veginn hallalausum og greiða niður erlendar skuldir ríkisins. Hún hefur einnig stefnt að skattalækkun, eða réttara sagt að minnkandi skattheimtu af síhækkandi skattstofnum. Þetta hefur hvort tveggja gengið eftir að öðru leyti en því, að ríkissjóður taldi sig í fyrra nauðbeygðan til að slá risavaxið lán í útlöndum til að tvöfalda gjaldeyrisforða Seðlabankans og ríflega það. Við þá lántöku jukust erlendar skuldir ríkisins á einu bretti um helminginn af öllum uppgreiðslum erlendra lána, sem ríkissjóður hafði áður innt af hendi. Hlutur ríkisútgjalda í þjóðarbúskapnum hefur aukizt undangengin ár og er nú nálægt meðallagi OECD-landanna, en var áður mun minni. Í annan stað hefur Seðlabankinn fyrir sitt leyti fylgt hávaxtastefnu, sem hefur leitt af sér síhækkandi útláns- og yfirdráttarvexti til að hemja kraumandi verðbólgu og halda gengi krónunnar langt yfir réttu marki.Röng stefnaUm þessa tvíbentu hagstjórnarstefnu er tvennt að segja: hún er röng, og hún hefur mistekizt. Ríkisstjórnin hefði að réttu lagi átt að reka ríkisbúskapinn með myndarlegum afgangi síðustu ár í ljósi þenslunnar í efnahagslífinu og ráðast í skipulagsbreytingar á fjármálum ríkisins. Hún gerði hvorugt. Fjármálaráðuneytið spáir umtalsverðum ríkissjóðshalla strax á næsta ári. Seðlabankinn hefði átt að hemja útlán viðskiptabankanna með því að beita bindiskyldu samkvæmt heimild í lögum og einnig með trúverðugum fortölum. Bankinn gerði hvorugt.Að vísu var þörf fyrir aukin útlán, og bankarnir brugðust við þeirri þörf, en fimmföldun útlána miðað við landsframleiðslu frá 1990 til 2005 keyrði um þverbak. Enda er tómt mál að tala um trúverðugar fortölur um aðhald af hálfu seðlabanka, sem er rekinn eins og lúxushvíldarheimili handa lúnum stjórnmálamönnum.Ríkisstjórnin og Seðlabankinn hafa leitt efnahagslífið út á yztu nöf. Nýjar hagtölur Seðlabankans vitna um hættuna. Í tölum bankans um erlenda stöðu þjóðarbúsins í lok júní 2007 kemur fram, að erlendar skammtímaskuldir þjóðarbúsins (með jöklabréfum) námu þá tíföldum gjaldeyrisforða Seðlabankans - og það þrátt fyrir röska tvöföldun gjaldeyrisforðans í fyrra með risalántöku ríkisins.Hlutfall erlendra skammtímaskulda af gjaldeyrisforðanum má helzt aldrei fara upp fyrir einn eins og allir hagstjórnendur vita, ef þeir eru verki sínu vaxnir. Málið er þetta: þjóð getur aldrei leyft sér að stofna til skammtímaskulda umfram þann gjaldeyri, sem geymdur er í seðlabankanum, því að þá vita erlendir lánardrottnar, að þjóðin getur ekki staðið í skilum á gjalddaga, séu lánin innkölluð með skömmum fyrirvara, og þá hlýtur gengi gjaldmiðilsins að falla og gengi hlutabréfa sömuleiðis.Þetta gerðist í Suðaustur-Asíu 1997. Þar var ríkisbúskapurinn í þokkalegu jafnvægi eins og hér og nú, en einkageirinn hafði ekki sézt fyrir, og því fór sem fór. Það virðist nú æ líklegra, að íslenzkt efnahagslíf sé á sömu leið. Einkageirinn er ekki óbrigðull. Erlend matsfyrirtæki hafa sum varað við þessari hættu, til dæmis Lehman Brothers, eitt helzta fyrirtækið í bransanum. Önnur matsfyrirtæki virðast hafa horft í hina áttina. Matsfyrirtækin vinna fyrir bankana, sem þau meta, og þiggja greiðslur af þeim, svo að þeim er ekki að fullu treystandi til að fjalla hlutlaust um bankana. Þessu verklagi þarf vitaskuld að breyta.Saklausir vegfarendurBankar eru ólíkir flestum öðrum fyrirtækjum að því leyti, að þeir geta varpað vandamálum sínum yfir á saklausa vegfarendur, ef illa gengur. Bankar geta vikið sér undan ábyrgð á eigin gerðum ýmist með auknum vaxtamun (hærri útlánsvöxtum, lægri innlánsvöxtum), nema samkeppni á bankamarkaði loki þeirri leið, eða með því að leita á náðir ríkisins, sem telur sér iðulega skylt að bjarga innlendum bönkum til að forða frekari skaða eða jafnvel kreppu. Af þessum sökum er bankasaga heimsins stráð misráðnum lánveitingum, græðgi, glannafengnu braski og dýrum björgunaraðgerðum á kostnað skattgreiðenda. Slík bjargráð snúast ýmist um bein fjárútlát úr ríkiskassanum til að mylja undir banka, sem riða til falls, eða almennar aðgerðir svo sem aukna lánafyrirgreiðslu seðlabanka handa viðskiptabönkum og vaxtalækkun, sem ýtir undir verðbólgu og gengisfall, og þá fær almenningur að borga brúsann.Við þurfum öflugt fjármálaeftirlit til að fylgjast með bönkunum, og hlutlaust áhættumat að utan.