Heillaskref Auðunn Arnórsson skrifar 27. október 2007 00:01 Tveggja ára stormasamri valdatíð íhaldsflokksins Laga og réttar í Póllandi, sem tvíburabræðurnir Jaroslaw og Lech Kaczynski fara fyrir, lýkur þann 5. nóvember, en þá hefur forsætisráðherrann Jaroslaw Kaczynski boðað að ríkisstjórn hans muni biðjast lausnar. Það gerist í kjölfar þess að Lög og réttur tapaði í nýafstöðnum þingkosningum fyrir hinum borgaralega en öllu frjálslyndari flokki Borgaravettvangi, sem Donald Tusk fer fyrir. Síðastliðið rúmt hálft annað ár hefur Jaroslaw verið forsætisráðherra (og næsta hálfa árið þar á undan stýrði hann ríkisstjórninni í raun, með lepp í forsætisráðherrastólnum) en Lech Kaczynski var kjörinn forseti Póllands skömmu fyrir þingkosningarnar 2005 og kjörtímabili hans lýkur ekki fyrr en árið 2010. Að eineggja tvíburar væru forseti og ríkisstjórnarleiðtogi þjóðar er einsdæmi í sögunni. En eftir þessi tvö ár tvíburaræðisins í einu fjölmennasta landi meginlands Evrópu var það orðið eins og gamall brandari, enda sýndi sig í kosningunum nú að flestir pólskir kjósendur voru búnir að fá nóg af því. Segja má að stefna Kaczynski-stjórnarinnar hafi einkennzt af þjóðerniseinangrunarstefnu. Hún stýrði landinu í margháttaða árekstra við grannríki, einkum og sér í lagi Þýzkaland og Rússland. Þá átti stjórnin í stöðugum erjum við Evrópusambandið. Þessu olli ekki sízt heimóttarleg heimssýn hinna rammkaþólsku, rammandkommúnísku og rammþjóðernissinnuðu Kaczynski-bræðra, sem aldrei höfðu ferðast til útlanda þegar þeir komust til æðstu metorða. En ekki bætti úr skák að Lög og réttur fékk tvo popúlíska jaðarflokka til að tryggja sér meirihluta á þingi. Annar þeirra, Bandalag pólskra fjölskyldna, er ofstækisþjóðernissinnaflokkur, og hinn er skrautleg blanda kaþólskrar þjóðernis-íhaldshyggju og vinstripopúlisma undir forystu hins óútreiknanlega Andrzej Lepper. Það kom ekki sérstaklega á óvart að stjórnarflokki Kaczynski-bræðra héldist ekki lengi á slíkum samstarfsfélögum. Í sumar lauk því samstarfi endanlega og þar sem flokkurinn sá þá ekki fram á að geta sem minnihlutastjórn komið sínum málum í gegnum þingið varð það úr að kosningum var flýtt. Þar sem efnahagsmálin standa sæmilega og tvíburunum hefur tekizt nokkurn veginn að viðhalda ímynd sinni sem baráttumönnum gegn spillingu, sem mjög er til vinsælda fallið, var ekki útséð um að Lög og réttur héldi völdum í kosningunum. En þegar nær dró kosningunum tók Borgaravettvangur afgerandi forystu og þegar talið var upp úr kjörkössunum reyndist hann hafa nær tíu prósentustigum meira fylgi en Lög og réttur. Fyrrverandi stjórnarsamstarfsflokkar Laga og réttar duttu út af þingi. Donald Tusk er nú að mynda tveggja flokka stjórn með hófsömum bændaflokki. Tusk hefur þegar boðað að ríkisstjórn hans muni koma samskiptunum við grannríkin og Evrópusambandið í eðlilegt horf. Jafnframt muni hún einbeita sér að því að efla pólskt efnahagslíf til að skapa forsendur fyrir því að þær tvær milljónir landsmanna sem hafa yfirgefið heimaland sitt til að freista gæfunnar vestar í álfunni snúi heim og taki virkan þátt í uppbyggingunni. Ekki er því við öðru að búast en að þessi stjórnarskipti verði heillaskref, bæði fyrir pólsku þjóðina sjálfa og tengsl hennar við vinaþjóðir innan sem utan Evrópu. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Auðunn Arnórsson Mest lesið Eignarhaldsfélag Ingu og hirðin hennar Davíð Bergmann Skoðun Bönnum íþróttamót barna fyrir kl. 10 um helgar Diljá Mist Einarsdóttir Skoðun Hverjir munu búa á Blikastaðalandi? Aldís Stefánsdóttir Skoðun Opið bréf til Ingu Sæland Ragnar Erling Hermannsson Skoðun Eru landeigendur við Þjórsá huldufólk? Þorgerður María Þorbjarnardóttir Skoðun Svar við greininni „Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu“ Hópur lækna Skoðun Vatnamálalögin og Hvammsvirkjun: Almannaheill ? Mörður Árnason Skoðun Ekkert samráð – ekkert traust Björg Eva Erlendsdóttir Skoðun Rangfeðranir Sævar Þór Jónsson Skoðun Spurningar og svör um Evrópumál Jón Baldvin Hannibalsson Skoðun
Tveggja ára stormasamri valdatíð íhaldsflokksins Laga og réttar í Póllandi, sem tvíburabræðurnir Jaroslaw og Lech Kaczynski fara fyrir, lýkur þann 5. nóvember, en þá hefur forsætisráðherrann Jaroslaw Kaczynski boðað að ríkisstjórn hans muni biðjast lausnar. Það gerist í kjölfar þess að Lög og réttur tapaði í nýafstöðnum þingkosningum fyrir hinum borgaralega en öllu frjálslyndari flokki Borgaravettvangi, sem Donald Tusk fer fyrir. Síðastliðið rúmt hálft annað ár hefur Jaroslaw verið forsætisráðherra (og næsta hálfa árið þar á undan stýrði hann ríkisstjórninni í raun, með lepp í forsætisráðherrastólnum) en Lech Kaczynski var kjörinn forseti Póllands skömmu fyrir þingkosningarnar 2005 og kjörtímabili hans lýkur ekki fyrr en árið 2010. Að eineggja tvíburar væru forseti og ríkisstjórnarleiðtogi þjóðar er einsdæmi í sögunni. En eftir þessi tvö ár tvíburaræðisins í einu fjölmennasta landi meginlands Evrópu var það orðið eins og gamall brandari, enda sýndi sig í kosningunum nú að flestir pólskir kjósendur voru búnir að fá nóg af því. Segja má að stefna Kaczynski-stjórnarinnar hafi einkennzt af þjóðerniseinangrunarstefnu. Hún stýrði landinu í margháttaða árekstra við grannríki, einkum og sér í lagi Þýzkaland og Rússland. Þá átti stjórnin í stöðugum erjum við Evrópusambandið. Þessu olli ekki sízt heimóttarleg heimssýn hinna rammkaþólsku, rammandkommúnísku og rammþjóðernissinnuðu Kaczynski-bræðra, sem aldrei höfðu ferðast til útlanda þegar þeir komust til æðstu metorða. En ekki bætti úr skák að Lög og réttur fékk tvo popúlíska jaðarflokka til að tryggja sér meirihluta á þingi. Annar þeirra, Bandalag pólskra fjölskyldna, er ofstækisþjóðernissinnaflokkur, og hinn er skrautleg blanda kaþólskrar þjóðernis-íhaldshyggju og vinstripopúlisma undir forystu hins óútreiknanlega Andrzej Lepper. Það kom ekki sérstaklega á óvart að stjórnarflokki Kaczynski-bræðra héldist ekki lengi á slíkum samstarfsfélögum. Í sumar lauk því samstarfi endanlega og þar sem flokkurinn sá þá ekki fram á að geta sem minnihlutastjórn komið sínum málum í gegnum þingið varð það úr að kosningum var flýtt. Þar sem efnahagsmálin standa sæmilega og tvíburunum hefur tekizt nokkurn veginn að viðhalda ímynd sinni sem baráttumönnum gegn spillingu, sem mjög er til vinsælda fallið, var ekki útséð um að Lög og réttur héldi völdum í kosningunum. En þegar nær dró kosningunum tók Borgaravettvangur afgerandi forystu og þegar talið var upp úr kjörkössunum reyndist hann hafa nær tíu prósentustigum meira fylgi en Lög og réttur. Fyrrverandi stjórnarsamstarfsflokkar Laga og réttar duttu út af þingi. Donald Tusk er nú að mynda tveggja flokka stjórn með hófsömum bændaflokki. Tusk hefur þegar boðað að ríkisstjórn hans muni koma samskiptunum við grannríkin og Evrópusambandið í eðlilegt horf. Jafnframt muni hún einbeita sér að því að efla pólskt efnahagslíf til að skapa forsendur fyrir því að þær tvær milljónir landsmanna sem hafa yfirgefið heimaland sitt til að freista gæfunnar vestar í álfunni snúi heim og taki virkan þátt í uppbyggingunni. Ekki er því við öðru að búast en að þessi stjórnarskipti verði heillaskref, bæði fyrir pólsku þjóðina sjálfa og tengsl hennar við vinaþjóðir innan sem utan Evrópu.