Ráðherra fær tækifæri Þorsteinn Pálsson skrifar 20. nóvember 2007 00:01 Tíu þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa flutt sérlega athyglisverða tillögu til þingsályktunar um samkeppnisstöðu fyrirtækja í eigu ríkis og sveitarfélaga. Þeir benda réttilega á að í ýmsum tilvikum er verið að nota peninga skattborgaranna til óeðlilegrar samkeppni við fyrirtæki á markaði. Skýr vilji þingmannanna stendur til þess að Alþingi feli viðskiptaráðherra að athuga hvort og á hvaða sviðum opinberar stofnanir eru í samkeppni gagnvart einkaaðilum. Þeir vilja að kannað verði hvort einstakar stofnanir hafi eflt samkeppni gagnvart einkaaðilum á síðustu árum. Jafnframt stendur hugur þeirra til að sjá í hversu ríkum mæli opinberar stofnanir sinna nú verkefnum sem sérhæfðir aðilar í atvinnulífinu gætu eins unnið. Þingmennirnir nefna ýmis opinber fyrirtæki sem ýmist eru eða hafa verið í samkeppni við einkarekstur. Þar kennir margra grasa og má sjá nöfn Landmælinga, Landspítala, Heilsugæslu í Reykjavík, Siglingastofnunar, Vinnueftirlits, Vélamiðstöðvarinnar, Skýrr, Ökutækjaskrár og Fasteignaskrár. Eðli máls samkvæmt er ekki í stuttum greinargerðum fyrir þingmálum unnt að nefna á nafn öll þau tilvik sem til álita koma. Skiljanlega er því plássi ekki eytt í að nefna þau dæmi þar sem ráðherrar hafa beinlínis beitt sér fyrir því að fjármunir skattborgaranna væru nýttir til óeðlilegrar samkeppni við einkaaðila og eru flestum í góðu minni. Í tíð fyrri ríkisstjórnar var þannig ákveðið að nota fjármuni skattborgaranna til þess að hefja á ný ríkisrekstur á prentþjónustu. Alvarlegasta dæmið er allsendis óþarfi að rifja upp svo lifandi sem það er í hugum fólks. Það var ákvörðun fyrri ríkisstjórnar að skekkja til mikilla muna samkeppnisstöðu á útvarpsmarkaði. Sum eldri mál af þessu tagi eru hins vegar farin að fyrnast í hugum flestra. Svo er ugglaust um þá ákvörðun á sínum tíma að misnota peninga skattborgaranna í Símanum, sem þá var í eigu ríkisins, til þess að hefja samkeppnisrekstur með afþreyingarsjónvarp. Ríkið hefur nú dregið sig út úr þeim rekstri. Mál þingmanna deyja oftast nær drottni sínum í þingnefndum. En hér hreyfir stór hópur þingmanna við máli sem í raun réttri er starfsskylduverkefni viðskiptaráðherra. Hann þarf því ekki sérstaka samþykkt Alþingis til þess að hefjast handa við verk eins og þetta. Vel færi á að ráðherrann gripi þetta tækifæri og léti ekki málalengingar á Alþingi tefja framkvæmdina. Núverandi viðskiptaráðherra hefur getið sér gott orð fyrir að vera skjótur til svara um hvaðeina sem að honum er beint. Þetta mál gæti verið prófsteinn á hversu kvikur hann er til athafna á mikilvægu sviði sem undir hans ráðuneyti heyrir. Ef verkefnið er skynsamlega afmarkað má vinna það hratt og láta staðreyndirnar tala fyrir þinglok að vori. Þingmennirnir sem að þessum tillöguflutningi standa benda réttilega á að með þeirri yfirsýn sem þeir eru að kalla eftir má markvisst færa mál til betri vegar. Markmið könnunar af þessu tagi á ekki að vera að vekja deilur um hvort heilbrigðisþjónusta á að vera á ábyrgð ríkis eða einstaklinga. Brýnast er að huga að því að ríkisvaldið sjálft virði grundvallarreglur á samkeppnismarkaði. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorsteinn Pálsson Mest lesið Halldór 25.01.2025 Halldór Hinn vandrataði vegur að starfslokum Ástríður Þórey Jónsdóttir Skoðun Opið bréf til undirbúningskjörbréfanefndar Alþingis Jóhann Friðrik Friðriksson, Skoðun Að hengja bakara fyrir smið Rakel Linda Kristjánsdóttir Skoðun Sagan að endurtaka sig í beinni Ingibjörg Þóra Haraldsdóttir Skoðun Viltu koma að kenna? Hulda María Magnúsdóttir Skoðun Stöndum vörð um menntun, farsæld og stuðning við börnin okkar Ása Lind Finnbogadóttir Skoðun Hin heimtufreka kennarastétt Áslaug Pálsdóttir Ragnheiðardóttir Skoðun Svar til lögmanns SFS Magnús Guðmundsson Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun
Tíu þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa flutt sérlega athyglisverða tillögu til þingsályktunar um samkeppnisstöðu fyrirtækja í eigu ríkis og sveitarfélaga. Þeir benda réttilega á að í ýmsum tilvikum er verið að nota peninga skattborgaranna til óeðlilegrar samkeppni við fyrirtæki á markaði. Skýr vilji þingmannanna stendur til þess að Alþingi feli viðskiptaráðherra að athuga hvort og á hvaða sviðum opinberar stofnanir eru í samkeppni gagnvart einkaaðilum. Þeir vilja að kannað verði hvort einstakar stofnanir hafi eflt samkeppni gagnvart einkaaðilum á síðustu árum. Jafnframt stendur hugur þeirra til að sjá í hversu ríkum mæli opinberar stofnanir sinna nú verkefnum sem sérhæfðir aðilar í atvinnulífinu gætu eins unnið. Þingmennirnir nefna ýmis opinber fyrirtæki sem ýmist eru eða hafa verið í samkeppni við einkarekstur. Þar kennir margra grasa og má sjá nöfn Landmælinga, Landspítala, Heilsugæslu í Reykjavík, Siglingastofnunar, Vinnueftirlits, Vélamiðstöðvarinnar, Skýrr, Ökutækjaskrár og Fasteignaskrár. Eðli máls samkvæmt er ekki í stuttum greinargerðum fyrir þingmálum unnt að nefna á nafn öll þau tilvik sem til álita koma. Skiljanlega er því plássi ekki eytt í að nefna þau dæmi þar sem ráðherrar hafa beinlínis beitt sér fyrir því að fjármunir skattborgaranna væru nýttir til óeðlilegrar samkeppni við einkaaðila og eru flestum í góðu minni. Í tíð fyrri ríkisstjórnar var þannig ákveðið að nota fjármuni skattborgaranna til þess að hefja á ný ríkisrekstur á prentþjónustu. Alvarlegasta dæmið er allsendis óþarfi að rifja upp svo lifandi sem það er í hugum fólks. Það var ákvörðun fyrri ríkisstjórnar að skekkja til mikilla muna samkeppnisstöðu á útvarpsmarkaði. Sum eldri mál af þessu tagi eru hins vegar farin að fyrnast í hugum flestra. Svo er ugglaust um þá ákvörðun á sínum tíma að misnota peninga skattborgaranna í Símanum, sem þá var í eigu ríkisins, til þess að hefja samkeppnisrekstur með afþreyingarsjónvarp. Ríkið hefur nú dregið sig út úr þeim rekstri. Mál þingmanna deyja oftast nær drottni sínum í þingnefndum. En hér hreyfir stór hópur þingmanna við máli sem í raun réttri er starfsskylduverkefni viðskiptaráðherra. Hann þarf því ekki sérstaka samþykkt Alþingis til þess að hefjast handa við verk eins og þetta. Vel færi á að ráðherrann gripi þetta tækifæri og léti ekki málalengingar á Alþingi tefja framkvæmdina. Núverandi viðskiptaráðherra hefur getið sér gott orð fyrir að vera skjótur til svara um hvaðeina sem að honum er beint. Þetta mál gæti verið prófsteinn á hversu kvikur hann er til athafna á mikilvægu sviði sem undir hans ráðuneyti heyrir. Ef verkefnið er skynsamlega afmarkað má vinna það hratt og láta staðreyndirnar tala fyrir þinglok að vori. Þingmennirnir sem að þessum tillöguflutningi standa benda réttilega á að með þeirri yfirsýn sem þeir eru að kalla eftir má markvisst færa mál til betri vegar. Markmið könnunar af þessu tagi á ekki að vera að vekja deilur um hvort heilbrigðisþjónusta á að vera á ábyrgð ríkis eða einstaklinga. Brýnast er að huga að því að ríkisvaldið sjálft virði grundvallarreglur á samkeppnismarkaði.