Bíó og sjónvarp

Er ekki með svo stórt nef

Víðir Guðmundsson hefur verið að gera það gott hjá Borgarleikhúsinu síðan hann útskrifaðist úr Leiklistarskólanum fyrir ári síðan.MYND/Víkurfréttir
Víðir Guðmundsson hefur verið að gera það gott hjá Borgarleikhúsinu síðan hann útskrifaðist úr Leiklistarskólanum fyrir ári síðan.MYND/Víkurfréttir
Ungur og tiltölulega óþekktur leikari, Víðir Guðmundsson, hefur verið ráðinn til að fara með hlutverk Gosa í samnefndum barnasöngleik sem sýndur verður á fjölum Borgarleikhússins í haust.

„Við vorum með eitt barnaleikrit á síðasta árinu mínu í Leiklistarskólanum en annars hef ég ekki tekið þátt í barnasýningum. Þetta verður því nokkuð ný reynsla fyrir mig en það gerir þetta bara enn meira spennandi og krefjandi,“ segir hinn 29 ára gamli Víðir, sem útskrifaðist úr Leiklistarskólanum fyrir ári síðan. Síðan þá hefur hann verið á samningi hjá Borgarleikhúsinu og meðal annars leikið titilhlutverkið í Amadeus auk þess sem hann fer með stórt hlutverk í uppfærslunni á Gretti.

Víðir kveðst þekkja söguna um Gosa mjög vel eftir að hafa verið á sérstöku námskeiði um spýtukallinn knáa í skólanum.

„Þessi saga er alveg frábær og miklu stærri og dýpri en fólk þekkir. Boðskapurinn er mikill og ég hugsa að allir eigi eitthvað sameiginlegt með Gosa,“ segir Víðir og viðurkennir fúslega að hann hafi sagt hvíta lygi á ævi sinni – meira að segja oftar en einu sinni. „En samt er ég ekki með svo stórt nef,“ bætir hann við.

Eðlilega er um stórt tækifæri að ræða fyrir Víði en á meðal þeirra sem orðaðir höfðu verið við hlutverkið voru leikarar á borð við Björgvin Franz Gíslason, Guðjón Davíð Karlsson og fleiri.

„Þetta er stórt verkefni sem ég hlakka til að takast á við. Börn eru alltaf erfiðustu áhorfendurnir og ef þeim finnst leiðinlegt vilja þau bara fara heim. Ég vona allavega að ég nái að halda þeim í stólunum,“ segir Víðir.- vig





Fleiri fréttir

Sjá meira


×