Norræn hagkerfi munu vaxa hratt á árinu, eða allt frá 3,8 prósentum til 4,5 prósenta. Vöxturinn mun verða talsvert minni hér á landi á sama tíma, einungis 1,5 prósent, að því er fram kemur í nýrri skýrslu greiningardeildar Glitnis um stöðu og horfur í efnahagsmálum á Norðurlöndunum.
Í skýrslunni kemur fram að norska hagkerfið muni vaxa um 4,5 prósent, finnska hagkerfið um 4,1 prósent og það sænska um 3,8 prósent. Greiningardeildin segir að á næsta ári muni hægja á hagvexti á Norðurlöndunum að íslenska hagkerfinu undanskildu en gert er ráð fyrir því að hagvöxtur verði 3,5 prósent á árinu.