Bíó og sjónvarp

The Prestige - Þrjár stjörnur

The Prestige
The Prestige

Fáir leikstjórar hafa gert sig gildandi af álíka slagkrafti og enski leikstjórinn Christopher Nolan, sem kom sér rækilega á kortið með hinni frábæru mynd Memento auk þess sem Leðurblökumaðurinn gekk í endurnýjun lífdaga í hans meðförum. Í þeirri síðari leiddu hann og Christian Bale saman hesta sína og endurtaka nú leikinn í The Prestige, sem er síst til þess fallin að rýra orðstír Nolans sem eins áhugaverðasta kvikmyndagerðarmanns í Hollywood í dag.

The Prestige byggir á samnefndri skáldsögu Christophers Guest og gerist á Englandi um aldamótin 1900. Hún segir frá sjónhverfingamönnunum Alfred Borden og Robert Angier, leiknum af þeim Bale og Hugh Jackman, félögum sem kastast í kekki með svo úr verður hatrömm og stigmagnandi deila þar sem þeir kosta öllu til að stela leyndarmálum hvors annars og jafnvel mannslíf mega missa sín. Um söguþráðinn er annars best minnst að segja, eitt af einkennum Nolans er krefjandi frásagnarháttur sem í þessu tilfelli skiptist í þrennt og fléttast saman eftir því sem á líður. Og virkar fjandi vel lengst framan af. Nolan skapar rafmagnað andrúmsloft (í orðsins fyllstu merkingu) sem magnast upp eftir því sem þráhyggjan bítur sig fastar í keppinautana.

Sjónhverfingar skipa eðli málsins samkvæmt stóran sess í myndinni, sem ljær henni meiri dýpt fyrir vikið. Vísbendingarnar eru hins vegar fleiri en villuljósin og of miklu púðri er eytt í að afhjúpa ráðgátuna í lokin sem ólíklegt er að muni skilja nokkurn eftir gapandi af undrun.

Bale og Jackman eru í fínu formi í aðalhlutverkunum og myndin er í raun áhugaverðari fyrir karakterstúdíuna en annað. Michael Caine kann sína rullu upp á tíu fingur og Rebecca Hall og Scarlett Johansson eru fínar í hlutverkum sínum. David Bowie er skemmtilegur í hlutverki hugvitsmannsins Nikola Tesla, en dulúðin sem hefur sveipast í kringum nafn hans og ævistarf nýtist skemmtilega.

Þegar öllu er á botninn hvolft er The Prestige enn ein rósin í hnappagat Nolans; hugvitssamleg mynd sem hefði þó getað orðið enn betri ef betur hefði verið búið um hnútana í lokin.

Bergsteinn Sigurðsson






Fleiri fréttir

Sjá meira


×