Viðskipti erlent

Olíuverð ekki lægra síðan árið 2005

Heimsmarkaðsverð á hráolíu lækkaði enn frekar í dag vegna góðs veðurfars á norðausturströnd Bandaríkjanna sem hefur orðið til þess að eftirspurn eftir olíu hefur minnkað og olíubirgðir í landinu aukist.

Orkumálaráðuneyti Bandaríkjanna birtir vikulegar tölur um olíubirgðir landsins síðdegis og hefur fréttaveitan Bloomberg eftir greinendum vestra að búist sé við auknum olíubirgðum. Verði það raunin er þetta fjórða vikan í röð sem birgðirnar aukast í Bandaríkjunum.

Verð á hráolíu, sem afhent verður í næsta mánuði, lækkaði um 1,07 dali eða 1,9 prósent og fór verðið í 54,57 dali á tunnu í rafrænum viðskiptum á markaði í Bandaríkjunum.

Verð á Brent Norðursjávarolíu, sem afhent verður á sama tíma, lækkaði um 98 sent eða 1,8 prósent á markaði í Lundúnum í Bretlandi í dag og fór í 54,20 dali á tunnu. Verðið fór í 55,64 dali á tunnu í Lundúnum í gær og hafði það ekki verið lægra síðan 15. júní í hitteðfyrra, að sögn Bloomberg.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×