Viðskipti innlent

Ótal möguleikar GPS-forrita

Guðberg K. Jónsson
Verkefnastjóri SAFT segir mikilvægt að ná sátt milli kynslóða um reglur um notkun nýrrar tækni.
Guðberg K. Jónsson Verkefnastjóri SAFT segir mikilvægt að ná sátt milli kynslóða um reglur um notkun nýrrar tækni. MYND/Vilhelm

Möguleika nýrra GPS-farsíma má nota á jákvæðan og neikvæðan hátt að mati Guðbergs K. Jónssonar, verkefnastjóra hjá Samfélagi, fjölskyldu og tækni.

„Með opnum aðgangi getum við ímyndað okkur að innbrotsþjófar noti tæknina til að tryggja að enginn sé heima," segir Guðberg. „Sem öryggistæki getum við notað þetta til að finna týnd börn."

Eins og fram hefur komið býður íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Trackwell upp á hugbúnað fyrir GPS-farsíma sem gerir foreldrum kleift að fylgjast með ferðum barna sinna eða aðstandendum að rekja slóð Alzheimers-sjúklinga.

„Þetta er ekki eina leiðin sem hægt er að nota til að kortleggja ferðir okkar," segir Guðberg. „Það má færa rök fyrir því að þetta sé fínt öryggistæki."

Guðberg segir skuggahliðar tækninnar rata í fréttirnar, frekar en jákvæðu hliðarnar.

„Langflestir nýta nýmiðla á réttan hátt. Foreldrar eru kannski að taka illa upplýstar ákvarðanir út frá fréttum um barnaníðinga á netinu eða einelti unglinga á bloggi," segir hann.

Guðberg segir nauðsynlegan hluta af uppeldishlutverkinu að ná samkomulagi við börn um hvaða reglur gildi fyrir nýja tækni.

Ein gerð fáanleg
Nokia N95

Nokia N95 síminn fæst í verslunum Símans á 82.900 krónur og hjá Vodafone á 86.900 krónur. Hann er eini síminn með innbyggðum GPS-móttakara sem er fáanlegur hérlendis. Hægt er að hlaða niður kortum, stórum jafnt sem litlum. Staðsetningarforrit frá Trackwell eru ekki fáanleg í íslenskum símum enn sem komið er.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×