Viðskipti innlent

Róbert Wessman fékk 12,2 milljarða

Alls fengu fruminnherjar og tengdir aðilar yfir nítján milljarða við sölu á bréfum til Novators. 
Fréttablaðið/GVA
Alls fengu fruminnherjar og tengdir aðilar yfir nítján milljarða við sölu á bréfum til Novators. Fréttablaðið/GVA

Ellefu fruminnherjar í Actavis og aðilar tengdir þeim fengu 233,4 milljónir evra, jafnvirði 19,3 milljarða króna, þegar Novator gekk frá greiðslu kaupverðs vegna yfirtöku á félaginu. Til þessa hóps teljast forstjóri, aðstoðarforstjóri, framkvæmdastjórar og stjórnarmenn auk tengdra félaga og maka.



Beinir eignarhlutir fruminnherja námu 109,5 milljónum evra eða 9.086 milljónum króna. Hlutur forstjórans og stjórnarmannsins Róberts Wessman nam þar af 2.966 milljónum króna. Róbert er jafnframt eigandi að eignarhaldsfélaginu Aceway Ltd. sem fékk um 9.234 milljónir króna fyrir sinn snúð. Alls fékk Róbert því um 12,2 milljarða króna við yfirtöku Novators á Actavis.



Eignarhlutur Guðbjargar Eddu Eggertsdóttur, framkvæmdastjóra sölu- og markaðssviðs, gaf henni rúma 2,2 milljarða króna við söluna. Sindri Sindrason, stjórnarmaður og fyrrum forstjóri Pharmaco, fékk um það bil 1,9 milljarða.



Flestir framkvæmdastjórar félagsins eiga kauprétt að hlutabréfum í Actavis og nemur ónýttur réttur tæpum átta hundruð milljónum króna miðað við tilboðsverð Novators og gengi evrunnar.

Árni Harðarson hjá Actavis reiknar með því að Novator ákveði það eftir helgi hvernig gengið verði frá ónýttum kaupréttum. Hann segir að flestir þessara kauprétta séu nýtanlegir í nóvember næst komandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×